Málefni Ríkisútvarpsins

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 15:23:27 (520)

[15:23]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er hlutverk Alþingis og dómstóla að standa vörð um mannréttindi og lýðræði í landinu. Það erum við, hér á hinu háa Alþingi, sem kjósum stjórn Ríkisútvarpsins og því er eðlilegt að við ræðum málefni þeirrar stofnunar, ekki síst ef okkur finnst að þar sé pottur brotinn. Það er okkar hlutverk að veita ríkisstofnunum aðhald, jafnframt því að setja þeim lög.
    Málfrelsi er hluti af lýðræðinu. Og það hlýtur að vera hlutverk Ríkisútvarpsins að ýta undir skoðanaskipti og umræður um þau málefni sem ber hæst og þarfnast þess að vera rædd.
    Við kvennalistakonur höfum markað þá stefnu að standa vörð um Ríkisútvarpið, efla það og bæta, ekki síst vegna þess menningarlega hlutverks sem það gegnir og einnig til að tryggja lýðræði. Við viljum tryggja að það séu ekki þeir sem eiga peninga og eiga fjölmiðla sem stjórna skoðanamyndun og allri umræðu.
    En, virðulegi forseti, á undanförnum árum hefur verið slakað verulega á pólitískum afskiptum af Ríkisútvarpinu og er það auðvitað af hinu góða. Þá gerist það jafnframt að við höfum orðið vitni að vægast sagt sérkennilegum vinnubrögðum innan þeirrar stofnunar. Fyrst gerðist það eins og menn muna að útvarpsstjóri, sem virðist reka þá stefnu að reka menn, byrjaði á dagskrárstjóra sjónvarpsins en eins og við vitum þá var hann nokkrum dögum síðar gerður að yfirmanni þeirrar stofnunar, þ.e. ríkissjónvarpsins. Hann hefði að sjálfsögðu átt að fá tækifæri til að bæta ráð sitt. Síðan gerist það í síðustu viku að tveir pistlahöfundar á Rás 2 voru reknir fyrirvaralaust, annar vegna skoðana sinna, en hinn af því að sá fyrri var rekinn. Nú síðast bættist í hópinn pistlahöfundur og frambjóðandi vestur á fjörðum sem flutti sinn pistil daginn eftir að reglur höfðu verið stórlega hertar um hlut frambjóðenda í dagskrá Ríkisútvarpsins. Fregnir herma að hann hafi frétt af brottrekstrinum á kaffihúsi úti í bæ. Þetta er auðvitað orðinn farsi sem er Ríkisútvarpinu til skammar. Enda held ég að menn hljóti að fara að íhuga þessar reglur sem þar gilda um pólitískar umræður.
    Málið snýst um það að menn sem hafa verið ráðnir til að hafa skoðanir og til að flytja sínar skoðanir þeir voru reknir vegna þess að þeir höfðu skoðanir. Hvað liggur þarna að baki, virðulegur forseti?
    Illugi Jökulsson er sakaður um að hafa misnotað aðstöðu sína. En Hannes Hólmsteinn Gissurarson er ekki sakaður um nokkurn skapaðan hlut, bara að vera til og vera pistlahöfundur. Hvað liggur á bak við þennan brottrekstur? Hvaða starfsreglur hafa verið brotnar margoft og gróflega eins og framkvæmdastjóri Ríkisútvarpsins hefur komist að orði? Hefur Illugi Jökulsson gagnrýnt menn ómaklega án þess að þeir hafi getað borið hönd fyrir höfuð sér? Ekki hefur það komið fram í umræðunni. Hefur hann farið með róg og níð um menn og málefni? Ekki heldur. Í hverju felst þessi misnotkun? Felst hún fyrst og fremst í því að hann hefur ákveðnar skoðanir sem sumum líkar ekki að heyra? Er það mergurinn málsins?
    Hvað um Hannes Hólmstein? Hvers á hann að gjalda? Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að Hannes Hólmsteinn Gissurarson ætti að fá að tala sem lengst og mest og sem víðast. Hann er einn af þeim, og þetta segi ég honum til hróss, sem skerpir umræðuna með sinni sterku frjálshyggju, en þar með tel ég hann í hópi helstu bandamanna okkar sem viljum setja samhjálp, samvinnu og samábyrgð í öndvegi.
    Virðulegi forseti. Ég mótmæli harðlega þeim vinnubrögðum sem viðhöfð eru innan Ríkisútvarpsins, þar sem menn eru reknir fyrirvaralaust og án rökstuðnings. Þetta eru vinnubrögð sem eru Ríkisútvarpinu til skammar og ég vona að stjórnendur þess taki mið af þeirri umræðu sem fer fram á hinu háa Alþingi og úti í þjóðfélaginu og læri af henni og vandi sig betur í umgengni sinni við fólk og við skoðanir fólks.