Málefni Ríkisútvarpsins

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 15:36:46 (523)

[15:36]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að eftir að hafa heyrt hv. þm. Hjálmar Jónsson útvarpsráðsmann tala áðan þá hef ég verulegar áhyggjur. Ég trúði varla mínum eigin eyrum að þetta gæti komið úr hans munni. Ég hef ekki þekkt hann að öðru en góðu fram að þessu en ég trúði því varla sem ég heyrði, að þetta væru viðhorf sem væru e.t.v. ríkjandi í útvarpsráði. Ég vona að þetta sé algert einsdæmi. ( Gripið fram í: Hvaða viðhorf?) Ég býst við að það sé öllum kunnugt að Illugi Jökulsson pistlahöfundur hafi verið látinn taka pokann sinn núna vegna pólitískra pistla eins og það er kallað. Eins og fram hefur komið sagði hann í lok síðasta pistils að hann hefði fengið pokann sinn vegna þess að Sigurður G. Tómasson hafi sagt: Ég nenni ekki lengur að hlusta á kvartanir valdhafandi manna út af þeim. Þetta þykir mér mjög alvarlegt. Mér þykir mjög skrýtið ef hæstv. menntmrh. telur ekki fyllstu ástæðu til þess að við ræðum slíkt hér á Alþingi. Þetta er vissulega mál Alþingis. Þetta er mannréttindamál og þetta er mál sem snýst um skoðanafrelsi í landinu og þess vegna viljum við ræða það hér.
    Það vakti líka athygli að öðrum pistlahöfundi var sagt að fara, Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni, en engin ástæða virtist vera fyrir því. Það var engin ástæða önnur en að það ætti að taka alla pólitík út úr Ríkisútvarpinu. Mér þótti þetta með ólíkindum. Hvernig á umfjöllun í Ríkisútvarpinu að vera? Á ekkert að ræða um pólitík í Ríkisútvarpinu? Mér þykir það ekki skipta neinu máli þótt nú sé kosningavetur eða ekki. Eins og við vitum sem fylgjumst með Ríkisútvarpinu eru þeir sem mest koma þar fram ráðherrar ríkisstjórnarinnar. Á að hætta að leyfa þeim að koma fram? Ekki er langt síðan gerð var athugun á því hversu mikið væri talað við þingmenn í Ríkisútvarpinu og það kom í ljós að stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar tala þar 83% ef ég man rétt og aðrir 17%. Á þá að hætta að tala við alla þingmenn og alla ráðherra í útvarpi og sjónvarpi rétt fyrir kosningar eða hvað er það sem á að fara að gera? Mér þykir slæmt ef það erum eingöngu við sem sitjum á Alþingi sem megum tjá okkur opinberlega. Hvað með alla hina? Af hverju á að útiloka þá frá því að tjá sig í Ríkisútvarpinu? Er það það sem hv. þm. Hjálmar Jónsson vill? Það er þetta sem ég gagnrýni að það skuli vera gagnrýnt sérstaklega þegar aðrir en þingmenn og ráðherrar tjá sig í útvarpinu um pólitík --- ekki um flokkapólitík, heldur um pólitík, um þjóðmál, það sem er að gerast í þjóðfélaginu. Hvernig í ósköpunum stendur á því að það eiga bara að vera þeir sem sitja hér og kannski einstakir útvaldir fá að tjá sig en ekki hinnir? Hvers vegna í ósköpunum?
    Ég verð að segja, frú forseti, að ég tel fyllstu ástæðu til að við ræðum þessi mál hérna og ég hef verulegar áhyggjur af því ef þetta á að vera tónninn sem á að gefa í umræðunni, þ.e. að fólk megi ekki tjá sig um pólitík í íslenska Ríkisútvarpinu.