Málefni Ríkisútvarpsins

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 15:48:42 (526)

[15:48]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég mun ekki grípa til eins skáldlegra lýsinga og hv. 5. þm. Suðurl. í stuttri ræðu minni. Ég ætla að vera ósköp leiðinleg og lesa örstuttan kafla úr lögum sem heita Útvarpslög og þar segir, með leyfi hæstv. forseta, í 15. gr.:
    ,,Ríkisútvarpið skal leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.
    Ríkisútvarpið skal halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana. Það skal gæta fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð.
    Ríkisútvarpið skal m.a. veita almenna fréttaþjónustu og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á þeim málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða.``
    Skýrara getur það nú ekki verið að auðvitað á Ríkisútvarpið að vera vettvangur hinna ýmsu skoðana og vera umræðuvettvangur um það sem er að gerast.
    Ég held að það fari ekkert á milli mála að rekstur Ríkisútvarpsins er auðvitað á ábyrgð menntmrh., þ.e. endanlega á ábyrgð hins háa Alþingis sem hefur falið hæstv. menntmrh. að sjá svo til að eftir þessum lögum verði farið. Það er þess vegna gersamlega óskiljanlegt, að hæstv. ráðherra skuli segja hér: Þetta eru innanhúsmál Ríkisútvarpsins. Það eru þau ekki. Þetta eru mál hæstv. ráðherra og umfram allt þeirra sem fólu honum eftirlitið, hins háa Alþingis.
    Vitaskuld verður að taka nú þegar til baka þessar fáránlegu uppsagnir, hvort sem um er að ræða einhvern okkar skemmtilegasta þáttahöfund, Illuga Jökulsson, eða eftirlæti mitt, Hannes Hólmstein Gissurarson. Hvorugan vil ég missa. Og ég held að það sé þýðingarlaust þegar öllu er á botninn hvolft að reikna út hverjir hafa pólitísk áhrif og hverjir ekki.
    Einn ágætur frambjóðandi vestur á fjörðum flutti pistil daginn sem hann fór í prófkjör og fór nú hv. 2. þm. Vestf. létt með að losa sig við hann af listanum þrátt fyrir pistilinn. Sjálfstfl. held ég að hafi ekki verið með puttana í þessu, enda taka þeir ævinlega rangar ákvarðanir í slíkum málum. T.d. var eftirlæti mínu, prófessor Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni skipað að halda sig til hlés í síðustu borgarstjórnarkosningum með þeim skelfilegu afleiðingum að þær töpuðust fyrir flokkinn og vel má vera að Illugi Jökulsson hafi unnið kosningarnar fyrir R-listann, ekkert veit ég um það. Ég held að um þetta sé illt að spá og menn eigi að láta höfunda pistla í Ríkisútvarpinu í friði, láta þá einfaldlega á friði. Og ég skora á hæstv. ráðherra og tala við hið háa Alþingi í fullri alvöru og við þetta verður auðvitað ekki unað. Það er skylda okkar hér að skipa virðulegum útvarpsstjóra og örþreyttum dagskrárstjóranum af kvörtununum yfir höfundum sínum að taka þessar uppsagnir nú þegar til baka. Verði það ekki gert verður auðvitað að grípa til annarra ráða og ég vil skora á hæstv. forseta Alþingis að beita sér fyrir því að þessar uppsagnir verði dregnar til baka.