Málefni Ríkisútvarpsins

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 15:52:46 (527)

[15:52]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég get ekki orða bundist þótt þessari umræðu hafi þegar verið vel komið í höndum þeirra kvennalistakvenna sem hafa tekið til máls. Þar sem ég er áreiðanlega ein af fáum ef ekki eini félagi Blaðamannafélags Íslands hér á Alþingi og hef stundað dagskrárgerð til margra ára, þá vil ég vekja

athygli á því hver kjarni málsins er að mati stjórnar Blaðamannafélagsins. Ég tek undir það að þarna er um að ræða aðför að mál- og tjáningarfrelsi og það að ríkisfjölmiðill geri ekki greinarmun á hlutlausum fréttum og almennri umræðu annars vegar og persónulegri umfjöllun einstakra pistlahöfunda hins vegar. Þetta er nú einfaldlega kjarni málsins. Og svona fyrirbyggjandi brottrekstur á pistlahöfundum sem framkvæmdur er af dauðhræddum yfirmönnum sem eru undir einhverju ægivaldi sem ég kæri mig ekki um að skilgreina er auðvitað mál sem kemur okkur öllum við vegna þess að þetta er mál sem fjallar einmitt um mál- og tjáningarfrelsi.
    Ég vek athygli á því að í Ríkisútvarpinu var horfið frá því árið 1971 að tala um og láta sig dreyma um að unnt væri að láta vera ríkjandi hlutleysi og í stað þess er tekið upp orðið ,,óhlutdrægni`` sem þýðir að það var hætt að fara út í það moð að enginn mætti segja neitt nokkurn tíma og farið út á þá braut að hleypa fólki að með skoðanir sínar. Þetta tel ég mjög til bóta og ef eitthvað er, þá er ekki nóg að gert þar. Þeir tveir pistlahöfundar sem hér um ræðir hafa öðrum fremur sannað rétt og gildi þessara aðferða og ég tel að þarna hafi verið mjög vel að verki staðið og það sé því hneisa að þeir hafi verið látnir víkja.
    Hér var einnig komið að öðru máli, réttindaleysi lausráðinna dagskrárgerðarmanna sem er efni í aðra umræðu, en ég mun ekki tefja tímann hér með henni að svo komnu máli. Þó get ég ekki stillt mig um að taka eitt dæmi þar sem hv. 2. þm. Vestf. tók ljómandi gott dæmi um það hvers konar furðulegar myndir þessi gæsla á óhlutdrægni getur tekið á sig. Við hv. 15. þm. Reykv., Kristín Ástgeirsdóttir vorum látnar víkja úr dagskrárgerð, greinilega var það nú fyrirbyggjandi brottrekstur, eftir að hafa flutt þátt um Charles Chaplin sem auðvitað eftir á að hyggja var alveg fádæma hættulegt þar sem við vorum báðar á framboðslistum. Ég sé að þetta var auðvitað alveg þaulhugsað og gert lýðræðinu til heilla miðað við þær forsendur sem þeir menn gefa sér sem vinna eftir þessu.
    Ég vil líka taka það fram að ég tel að það sé brotið á rétti mínum sem útvarpshlustanda með þessum brottrekstri. Mér finnst að ég hafi ekki aðgang að þeirri lifandi og skemmtilegu stjórnmálaumræðu sem á að fara fram í Ríkisútvarpinu og sem hefur sem betur fer tekist býsna vel til í þeim miðli, þar til svona nornaveiðar dynja á. Ég tel að hér hafi fyrst og fremst orðið mistök og þessi mistök beri að leiðrétta og það nú þegar.