Málefni Ríkisútvarpsins

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 15:56:53 (528)

[15:56]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég velti því mjög fyrir mér hvort það sé af tilviljun sem málefni Ríkisútvarpsins koma hér aftur og aftur til umfjöllunar á hv. Alþingi þegar Sjálfstfl. fer með málefni stofnunarinnar. Ég kemst að þeirri niðurstöðu að þetta sé ekki tilviljun og ástæðan sé sú þrátt fyrir orð hæstv. menntmrh. hér áðan að það fari óskaplega í taugarnar á sjálfstæðismönnum að geta ekki virkilega ráðskast með stofnunina. Orð hv. þm. Árna Mathiesens hér áðan sannfæra mig enn betur um þetta þegar hann talaði um yfirgnæfandi stöðu Ríkisútvarpsins. En sannleikurinn er sá að sjálfstæðismenn eru vanir mjög góðu þegar fjölmiðlaheimurinn er annars vegar og fyrir minn smekk alla vega hafa þeir þar allt of mikil ítök.
    Hæstv. menntmrh. er andvígur því að reka hér Ríkisútvarp. Þetta hefur komið fram oftar en einu sinni og þetta kom m.a. fram á þingi ungra sjálfstæðismanna fyrir nokkrum árum, að hann vildi gera Ríkisútvarpið að almenningshlutafélagi. Það er hins vegar kapítuli út af fyrir sig hvað ungir sjálfstæðismenn fá ráðherra flokksins til þess að segja og lýsa yfir á þessum þingum sínum og mér hefur dottið í hug að það hafi eitthvað með það að gera að þeir munu tilnefna þingmann ársins alltaf einu sinni á ári.
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg fleiri orð, enda er tími minn búinn. Ég er vinur Ríkisútvarpsins og ég vona að Ríkisútvarpið fái frið til starfa og þá veit ég að það mun gegna því hlutverki sínu vel að vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir.