Sjómannalög

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 16:11:21 (532)


[16:11]
     Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef lagt hér fram frv. til laga um breytingu á sjómannalögum, nr. 35/1985. Meðflutningsmaður minn að þessu frv. er Guðjón Guðmundsson. Í 1. gr. segir:
    ,,Fyrri málsgrein 9. gr. laganna orðast svo:
    Sé eigi á annan veg samið skal uppsagnarfrestur á skiprúmssamningi vera einn mánuður. Uppsagnarfrestur er gagnkvæmur.
    2. gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Nú er það svo að sjómannastéttin er ein stétt hér á landi sem býr við það að eiga aðeins viku uppsagnarfrest samkvæmt sjómannalögum. Hins vegar hefur það verið svo að í kjarasamningum fyrir nokkrum árum síðan var gerður svohljóðandi samningur, að eftir tveggja ára starf hjá útgerð þá gætu sjómenn sótt um það sérstaklega að eiga fjórtán daga uppsagnarfrest og eftir fjögur ár gætu þeir sótt um að eiga 21 dags uppsagnarfrest og þá er upp talið hvað þeir hafa umfram það sem segir í sjómannalögunum.
    Ég er hér að tala um háseta á fiskiskipum, en hásetar á kaupskipum hafa nú samkvæmt sjómannalögum eins mánaðar uppsagnarfrest og þó eru til dæmi um það að samið hafi verið um jafnlangan uppsagnarfrest eins og er hjá yfirmönnum skipanna, þ.e. þriggja mánaða uppsagnarfrest.
    Hjá landverkafólki er uppsagnarfrestur nokkuð lengri, sem byggist þó á því að eftir tveggja mánaða starf er viðkomandi verkamaður kominn með sjö daga uppsagnarfrest, eftir tólf mánuði fjórar vikur, eftir þrjú ár tvo mánuði og eftir fimm ár þrjá mánuði. Þó er þetta með þeim hætti að hluti af þessum innvinnslurétti kemur þannig að menn hafi þá þurft að vinna á sama vinnustað eða að hluta í sömu starfsgrein.
    Í greinargerð með þessu frv. segir, m.a.:
    Allítarleg ákvæði um réttarstöðu sjómanna voru í fyrstu almennu siglingalögunum frá 1913. Þó voru ákvæði um uppsagnarfrest á einn veg, þ.e. alfarið í höndum skipstjóra. Árið 1930 voru ákvæði um kjör skipshafnar og skipstjóra numin úr siglingalögum, þau endurskoðuð og sett í sérstök sjómannalög. Með þeim lögum var fyrst getið um tiltekinn uppsagnarfrest sjómanna og með lögum frá 1963 er uppsagnarfresti yfirmanna á öllum íslenskum skipum og háseta á kaupskipum verulega breytt, en á fiskiskipum er hann þó enn aðeins sjö dagar. Með breytingum, sem átt hafa sér stað á vinnumarkaði á réttarstöðu verkafólks og uppsagnarfresti, svo og þeirri breytingu sem orðin er með tilkomu aflaheimilda á fiskiskip, er það með öllu óviðunandi fyrir eina starfsstétt hér á landi, þ.e. háseta á fiskiskipum, að búa við sjö daga uppsagnarfrest

eins og núverandi lög kveða á um.
    Í ákvæðum siglingalaga, nr. 63 frá nóvember 1913, sagði svo í 30. gr.: ,,Skipstjóri ræður skipverja og segir þeim upp. Engan má hann ráða þann er hann veit að er ráðinn annars staðar.``
    Í sjómannalögum frá 19. maí 1930, er uppsagnarfrestur tiltekinn og þá mismunandi eftir því hvort um er að ræða stýrimann, vélstjóra eða aðra í áhöfn. 2. mgr. 13. gr. hljóðaði svo: ,,Uppsagnarfrestur á skiprúmssamningi stýrimanna og vélstjóra skal vera einn mánuður, ef ekki er öðruvísi samið, en sjö dagar á öðrum skiprúmssamningum, nema á íslenskum fiskiskipum einn dagur.``
    Þessi ákvæði sjómannalaga voru í gildi þar til ný sjómannalög voru sett, nr. 67 31. desember 1963. Þá var ákvæðum 2. mgr. 13. gr. um uppsagnarfrest breytt verulega og voru þau þannig: ,,Ef ekki er öðruvísi samið, skal uppsagnarfrestur vera þrír mánuðir á skiprúmssamningum stýrimanna, vélstjóra, bryta og loftskeytamanna, en einn mánuður á öðrum skiprúmssamningum, nema á íslenskum fiskiskipum sjö dagar.`` Með þessari lagasetningu var uppsagnarákvæðum yfirmanna á kaupskipum breytt, þ.e. úr einum mánuði í þrjá mánuði, hjá öðrum skipverjum úr sjö dögum í einn mánuð. Á fiskiskipum urðu sömu breytingar hjá yfirmönnum, þ.e. úr einum mánuði í þrjá mánuði, en hjá öðrum skipverjum úr einum degi í sjö daga.
    Við endurskoðun sjómannalaga, sem fram fór síðari hluta árs 1984 og fyrri hluta 1985, urðu nokkrar umræður um þann mismun á uppsagnarákvæðum íslenskra sjómanna sem fram kom í sjómannalögunum frá 1963, einkum þá um mismun skipverja (annarra en yfirmanna) á kaupskipum og fiskiskipum. Við þær aðstæður, er þá voru varðandi fiskveiðar, töldu samtök sjómanna ekki ástæðu til breytinga á uppsagnarákvæðum fiskimanna og var 1. mgr. 9. gr. sjómannalaga, nr. 35/1985, m.a. þess vegna ekki breytt. Eins og fram kemur hafa nú allar forsendur breyst hvað varðar starfsöryggi þeirra fiskimanna sem nú þurfa lögum samkvæmt að búa við sjö daga uppsagnarfrest og er því þetta frv. til breytingar á sjómannalögum lagt fram, enda löggjafans að taka á máli þessu, hvar sjómannalögin kveða á um þann minnsta rétt til uppsagnar sem fyrirfinnst í íslenskri launþegastétt.``
    Virðulegi forseti. Ég legg þetta mál enn einu sinni fram í trausti þess að hv. samgn. taki það til afgreiðslu. Staðreyndin er sú að þetta mál hefur sofnað í nefnd sl. tvö ár og rök eða rökleysi hafa verið þau að LÍÚ leggi ekki blessun sína yfir þetta frv. þar sem þeir telja að um uppsagnarfrest eigi að semja í kjarasamningum. Þá má ætla að ef aðilar utan Alþingis hafi þau áhrif á lög með þessum hætti sem ég gat um þá fer það að vefjast eflaust fyrir löggjafanum hvenær hann eigi að setja lög og hvenær ekki. Það er alveg ljóst og alveg heiðskírt í mínum huga að löggjafinn hefur sett sjómannalögin og löggjafinn á að taka á breytingum þar hvort sem varðar sjómenn almennt eða kjör þeirra eins og kveðið er á um í sjómannalögum.
    Ég vænti þess, virðulegi forseti, að samgn. afgreiði málið eins og löggjafanum ber að gera. Þegar rætt er um lög sem sett hafa verið á hinu háa Alþingi, þá er það eðlilegt að þau séu afgreidd en ekki að það séu hagsmunahópar úti í bæ sem hafi áhrif með þeim hætti sem ég gat um áðan.
    Virðulegur forseti. Ég vísa þessu frv. til laga um breytingu á sjómannalögum til 2. umr. og hv. samgn.