Sjómannalög

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 16:30:39 (536)

[16:30]
     Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur fyrir þessa spurningu. Ég bið hana afsökunar á því að ég skyldi ekki hafa svarað þessu áðan. Ég vil nú ekki gera þennan greinarmun á áhöfninni eins og hún tiltók hér, yfirmaður eða undirmaður. Í lögunum er almennt talað um yfirmenn, en hins vegar hef ég tamið mér það að kalla þá háseta, eða aðra starfsmenn en yfirmenn, en ekki að kalla þá undirmenn vegna þess að það tilheyrir fortíðinni.
    En svarið er einfaldlega þetta eða eins og spurningin er: Hvers vegna er þessi munur á yfirmönnum og undirmönnum? Í gegnum árin hefur þetta verið með þessum hætti, svo að ég noti hennar orð, yfirmaður og undirmaður, þá hefur þessi munur verið um nokkuð langan tíma. Það er þó ekki langt síðan lögin frá 1980 um réttarstöðu sjómanna varðandi veikindi og slys voru komin til nefndar með þeim hætti að þar átti að mismuna hásetum varðandi greiðslu í veikinda- og slysatilfellum, en hins vegar var gengið frá því að sú regla var eins fyrir báða aðila. Ég kann ekki skýringu á þessu, en eins og ég sagði áðan, þá hefur þetta verið í hugum forsvarsmanna sjómannafélaganna að þeim þætti það af hinu góða að fá þennan uppsagnarfrest lengdan með þessum hætti. Og líka í annan stað, að þeir hafa líka talað um það og hásetar hafa sjálfir talað um það á sjónum, að þeir vildu gjarnan eiga þennan möguleika á að losa sig úr starfi með ekki lengri aðlögunartíma en 30 dögum. Hins vegar er það rétt, eins og kom fram hjá Guðrúnu Helgadóttur, að það er ósköp eðlilegt að menn spyrji sig. Hver ætti munurinn að vera, hvers vegna ætti þessi munur að vera? Það væri kannski eðlilegt að þetta mál væri skoðað, en eins og ég sagði áðan: Þetta er aðlagað að þeim sem á þurfa að halda en ekki öfugt.