Tollalög

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 16:34:54 (539)

[16:34]
     Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég flyt hér frv. til laga um breytingu á tollalögum ásamt hv. þm. Birni Bjarnasyni, Eyjólfi K. Jónssyni, Inga Birni Albertssyni, Sólveigu Pétursdóttur, Láru Margréti Ragnarsdóttur, Matthíasi Bjarnasyni, Einari K. Guðfinnssyni, Tómasi Inga Olrich og Agli Jónssyni.
    Frv. gerir ráð fyrir að 1. mgr. 79. gr. laganna orðist svo:
    ,,Fjármálaráðherra er heimilt að reka eða leyfa rekstur verslana með tollfrjálsar vörur, þar á meðal áfengi og tóbak, í flugstöðvum á Reykjavíkurflugvelli, Keflavíkurflugvelli, Akureyrarflugvelli, Sauðárkróksflugvelli og Egilsstaðaflugvelli í tengslum við farþegaflutning milli landa. Heimild þessi gildir einnig um sams konar rekstur í Reykjavíkurhöfn, Ísafjarðarhöfn, Akureyrarhöfn og Seyðisfjarðarhöfn. Birgðir slíkra verslana má geyma í tollfrjálsum birgðageymslum sem eingöngu eru ætlaðar til þeirra nota.``
    Í greinargerð með frv. segir:
    ,,Í 1. mgr. 79. gr. tollalaga er að finna heimild til þess að reka eða leyfa rekstur verslana með tollfrjálsar vörur í stærstu flugstöðvum landsins. Brýnt er vegna mikillar fjölgunar erlendra ferða-, fiski- og farmanna sem hafa viðkomu með skipum í ýmsum höfnum hér á landi að víkka út heimildina svo að hún nái einnig til helstu hafna landsins. Á síðasta sumri fjölgaði mjög mikið þeim skemmtiferðaskipum sem sigldu til landsins. Flest þessara skipa hafa skamma viðdvöl í höfn og því er nauðsynlegt að bæði farþegar og áhafnir þeirra hafi möguleika á að versla í tollfrjálsri verslun sem býður upp á fjölbreytt vöruúrval og er í tengslum við hafnarbakka. Enn fremur hefur aukist gífurlega sá fjöldi erlendra fiskiskipa sem leita til hafnar vegna ýmiss konar þjónustu. Það er enginn vafi á að áhafnir þeirra munu nýta sér þann möguleika sem tollfrjáls verslun býður upp á. Þannig munu slíkar tollfrjálsar verslanir auka tekjumöguleika þjóðarinnar og skapa ný atvinnutækifæri þar sem selja mætti, jafnframt erlendum varningi, hvers konar íslenskar vörur sem þá yrðu undanþegnar virðisaukaskatti. Tollfrjálsar verslanir eru víða erlendis í tengslum við hafnir og er varningur, sem keyptur er þar, ekki borinn um borð af kaupanda heldur sér viðkomandi verslun um að flytja varninginn um borð í skipið. Sá háttur mundi einnig verða hafður á hérlendis og rekstrarleyfishafi gerður ábyrgur fyrir því að rétt sé að málum staðið í hvívetna.``
    Virðulegi forseti. Ég legg þetta mál hér fram í annað sinn á þessu kjörtímabili. Við lok síðasta þings kom þetta mál frá efh.- og viðskn., hvar menn voru sammála um að afgreiða það en ekki tókst þá betur til en svo að þá blandaðist inn í þetta frv. ákvæði þess efnis að Hornafjarðarhöfn yrði tollafgreiðsluhöfn og jafnframt kom þá fram viðbótartillaga um að svo yrði Þorlákshöfn einnig. En það mál er algerlega óskylt því frv. sem hér liggur fyrir, vegna þess að í frv. erum við að tala um tollfrjálsar hafnir, en í þeirri viðbót sem lögð var til við frv. þetta og fellur að vísu undir tollalögin, þá var verið að tala um það að eðlilegt væri að gera Hornafjörð og Þorlákshöfn að tollhöfnum, sem eru í þá veru að þar gætu skip við komu frá útlöndum fengið samskiptaleyfi sem kallað er og þar væru þá tollverðir staðsettir.
    Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það hve þetta frv. og þær breytingar sem hér eru lagðar til, ef samþykktar yrðu, gæti orðið mikil lyftistöng fyrir hafnir eins og Reykjavíkurhöfn og Seyðisfjarðarhöfn. Talið er að á síðasta ári hafi um 30 þús. manns, bæði farþegar og áhafnir erlendra skemmtiferðaskipa, komið hér til landsins og má með sanni segja að þessir aðilar hefðu haft umtalsverð viðskipti og meiri heldur en raun ber vitni um, ef þeir hefðu átt kost á því að versla í tollfrjálsum verslunum í þeim höfnum sem hér er tilgetið. Það er allsérkennileg afgreiðsla á þessum málum hér og nú, því þeir erlendu aðilar sem hingað koma og versla hér ýmsan varning fá ekki virðisaukaskatt niðurfelldan nema þeir fari frá landinu í gegnum Keflavíkurflugvöll. Það hafa margar spurningar komið varðandi þetta mál frá erlendum ferðamönnum sem hafa komið með þessum skemmtiferðaskipum og má segja að eins og málum er nú háttað í flestum höfnum í nágrannalöndunum, þá þykir slík málsmeðferð eins og hér er lögð til varðandi tollfrjálsar verslanir í höfnum, sjálfsögð og eðlileg þar og hefur tíðkast um tugi ára.
    Að svo mæltu, virðulegi forseti, legg ég til að þessu frv. verði vísað til efh.- og viðskn. og 2. umr.