Úttekt á tekju- og eignaskiptingu í þjóðfélaginu

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 16:56:37 (541)

[16:56]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Það verður að segjast eins og er að það er kyndugt að hlýða á fyrrv. félmrh. í sjö sl. ár mæla fyrir máli eins og þessu. Maður hlýtur að spyrja sjálfan sig: Hvers vegna kom þetta ekki fyrr fram?
    Við vitum öll að launakerfið í landinu er hrunið. Það er gjörsamlega handónýtt.
    Í fyrrverandi málgagni hv. 12. þm. Reykv., Jóhönnu Sigurðardóttur, stendur í dag smáfrétt um það að ég hafi æst á móti mér alla verkalýðshreyfinguna á fundi í Alþb. nýverið. Það er alveg rétt. Ég er að hugsa um að segja það sama hér og ég sagði þar. Það er í allri umræðu um launamál slíkt safn orðaleppa sem hafa enga þýðingu að það verður ekki hlustað á það lengur. Menn tala um launajöfnuð. Hvað þýðir að tala um launajöfnuð í landi þar sem stórum hópum launþega er boðið upp á 50 þús. kr. í laun á mánuði? Það er ljóst og það þarf enga könnun á því að það er ekki tæknilega mögulegt að lifa af 50 þús. kr. Manneskjur sem eru með 50 þús. kr. á mánuði --- og það eru starfsstéttir sem svo sannarlega hafa það --- væru betur settar, ef þær t.d. ættu eitt eða tvö börn, með atvinnuleysisbætur. Þær kæmust betur af en af launavinnu. Þetta eru auðvitað löngu hætt að vera laun. Þetta er ölmusa sem dugar ekki til neins. Hér er farið fram á að gerð verði könnun á hvað kostar að vera til á Íslandi. Upplýsingar um neyslu og útgjöld einhleypra, einstæðra foreldra og vísitölufjölskyldunnar. Ég verð að segja alveg eins og er, ég held ég geti sest niður með hv. þm. og sagt henni hvað þetta kostar. Það þarf ekki að setja nokkra einustu nefnd í málið fyrir nú utan að við höfum í landinu fréttabréf sem kemur út á þriggja mánaða fresti sem heitir Fréttabréf kjararannsóknarnefndar. Um árabil hefur staðið skýrum stöfum í því góða fréttabréfi að þau laun sem talin eru nauðsynleg fjölskyldum af ýmsu tagi, fjölskyldum einstæðra foreldra eða barnafjölskyldum, fólks sem er í hjúskap, séu svona um það bil tvöfalt hærri upphæð en laun eru almennt í landinu. Og að verkalýðshreyfingin skuli ár eftir ár eftir ár undirrita slíka samninga er með hreinum ólíkindum.
    Á umræddum alþýðubandalagsfundi barst einnig talið að Kjaradómi eins og hv. þm. kom inn á. Þegar gerð var þó í fyrsta skipti heiðvirð tilraun til að taka til í þeirri ruslakistu sem launamál opinberra starfsmanna eru, a.m.k. þegar komið er upp á toppinn --- hvað gerðist þá? Verkalýðshreyfingin hljóp út á torg og hélt útifund og ég man ekki betur en hv. 12. þm. Reykv., þá hæstv. félmrh., segði hátt og skýrt já við því að setja lög á þennan kjaradóm.
    Hræsnin þegar komið er að launamálum ríður nefnilega ekki við einteyming. Það er með ólíkindum hvað manni er boðið upp á. Svo rugla menn auðvitað öllu saman, hæstv. forseti. Þegar við erum á fundi í flokknum mínum eða hvar annars staðar að tala við verkalýðshreyfinguna um laun launþega erum við auðvitað að tala um það fólk sem þeirra samningar ná til. Og þegar menn komast í þrot og fara að tala um tuttugufaldan launamismun þá fara menn að tala um laun einhverra 50 bankastjóra, ef þeir eru svo margir. Það er bara allt annar hlutur. Það fólk er ekki á neinu sem kallast laun. Þetta er þóknun sem er ákveðin af einhverjum nefndum og eru auðvitað háar þóknanir en ég held að þeir séu ekki nógu margir sem njóta slíkra launa að þeir geti haft einhver veruleg áhrif á laun þúsundanna í landinu. Þar með er ég ekki að bera í bætifláka fyrir þau laun en vissulega þurfa þeir menn sem fara með mikla fjármuni, svo sem eins og bankastjórar, að vera nokkurn veginn fjárhagslega tryggðir þannig að þeir þurfi ekki að vera að hafa áhyggjur af afkomu sinni.
    En ég veit satt að segja ekki hvað á að gera við tillögu eins og þessa. Það er erfitt að vera á móti henni. En neyðin í landinu er orðin slík að við hv. þm. þorum orðið að tala í þingsölum um fátækt. Þegar ég kom á þing fyrir nokkrum árum þá minntust menn ekki beinlínis á fátækt. Í hæsta lagi voru það greiðsluerfiðleikar heimilanna. Nú blasir bara við okkur hvar og hvenær sem er ísköld fátækt fólks sem er að missa íbúðirnar sínar, fólks sem vinnur ekki fyrir sér, það er betur sett með atvinnuleysisbætur, fólks sem er að missa fjölskylduböndin út úr höndunum vegna þess að þetta eru ekkert nema erfiðleikar og neyð.

Ég vona að mér verði ekki lagt það upp sem illgirni eða innlegg í komandi kosningabaráttu að á meðan allt þetta hefur gerst hefur hv. 12. þm. Reykv., sem nú er hinn nýi frelsari þjóðarinnar, verið félagsmálaráðherra. Hún hefur líka verið ráðherra jafnréttismála. Sjaldan hefur launamunur milli kynjanna verið eins ömurlegur og hann er í dag. Það fór eins og ég spáði hér fyrir mörgum árum að eftir því sem fleiri konur koma inn á vinnumarkaðinn því lægri verða launin. Sérsköttun hjóna er einhver mesta vitleysa sem framin hefur verið í þessum hv. sal. Auðvitað eiga einstaklingar að hafa laun sem einstaklingar. Það er hins vegar jafnsjálfsagt að tveir einstaklingar sem bera fjárhagslega ábyrgð hvor á öðrum eins og hjón gera borgi skatta af sameiginlegum sjóðum. Svo einfalt er það. Og það hefur ekkert með jafnrétti að gera að sérskatta hjón vegna þess að lögum samkvæmt hafa þau gagnkvæma framfærsluskyldu. En það er ekkert sem leyfir að einstaklingi sé misboðið í launum af því að hann sé í hjúskap. Það er allt annað mál.
    Ég hef margsinnis bent á það að á meðan barnakennarar voru af karlkyni voru þeir vel launuð stétt í landinu. Eftir því sem konum fjölgaði í stéttinni hrundu launin. Og eins og ég einhvern tímann leyfði mér að segja í þingsal: til þess að vera heimavinnandi húsmóðir þyrfti maður að vera giftur a.m.k. þremur barnakennurum til þess að komast af. Á mínum ungdómsárum var einn alveg nóg.
    Ég held að við verðum smátt og smátt og loksins að fara að reyna að horfast í augu við það í hvert óefni við erum að komast og tillaga um það að hér fari enn ein nefndin, Hagstofa Íslands og Þjóðhagsstofnun og fjmrn. og aðilar vinnumarkaðarins, eigi að fara að gera úttekt á tekju- og eignaskiptingu og kostnaði við að vera til á Íslandi er óþarfi. Þetta er allt saman vitað í ótal skýrslum. Þessi nefnd getur alveg sparað sér allt erfiði. Svo gætum við meira að segja, venjulegt fólk, bara ósköp vel sest niður með hv. 12. þm. Reykv. og sagt henni hvernig þetta er. Ég hélt að það stæði henni næst að vita það hafandi verið félmrh. hæstv. í sjö ár og ég legg til að við reynum að eiga hér --- því miður eru allt of fáir staddir hér --- einhverja vitræna umræðu um það ástand sem er orðið í launamálum og tekjuskiptingunni í landinu. (Forseti hringir.) Ég verð líklega að taka til máls aftur því ég hef miklu meira að segja, herra forseti.