Úttekt á tekju- og eignaskiptingu í þjóðfélaginu

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 17:05:27 (542)

[17:05]
     Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Mér kemur ekki á óvart að hv. síðasta ræðumanni sé þungt niðri fyrir þegar hún ræðir launamálin í þjóðfélaginu vegna þess að það er full ástæða til. En ég held að það sé ekki alveg rétt sem hún heldur hér fram að það sé bara allt vitað sem stendur í þessari þáltill. og þurfi ekkert að kanna. Það er nú einu sinni svo með þetta tvöfalda launakerfi að það er ekkert vitað um hinn hlutann af því, þetta neðanjarðarlaunakerfi. Ég býst ekki við að hv. þm. Guðrún Helgadóttir viti það frekar en aðrir og það er bara mjög erfitt að fá upplýsingar um það. Þessir einstaklingsbundnu samningar sem eru bæði hjá hinu opinbera og á almenna markaðnum. Þegar menn eru að bera sig saman í kjarasamningum þá er alltaf verið að vitna til hinna strípuðu launataxta og það verður alltaf að vera ákveðið bil þar á milli hópa eftir starfsaldri og fleira og ef það á að bæta eitthvað hlut láglaunamannsins sem er á botninum þá koma aðrir á eftir. En það er ekkert vitað hvað þeir, sem eru betur staddir og hafa hærri laun, hafa í samningum undir borði við sína atvinnurekendur. Þetta er vandamálið sem blasir við varðandi kjaramálin í landinu. Ef okkur á að takast að rétta hlut launafólksins þá hygg ég að það verði aldrei gert nema við höfum meiri vitneskju um þetta neðanjarðarhagkerfi sem launamálin eru komin í. Enda er það svo og hefur verið í gegnum mörg, mörg undanfarin ár að kjaramálin hafa komið aftur og aftur inn á borð ríkisstjórnarinnar þar sem er verið að reyna að bæta hlut láglaunahópanna með alls konar jöfnunaraðgerðum til þess að launahækkanirnar fari ekki upp allan stigann. Ef við hefðum þetta allt fyrir okkur á borðinu og hefðum launakjörin sýnileg þó það væri ekki nema hjá hinu opinbera þá væri hálfur sigur unninn. Ég veit að þetta er ekkert auðvelt mál, ég geri mér það alveg fyllilega ljóst, en ég held að við hv. þm. Guðrún Helgadóttir hljótum að vera sammála um það að málin hlytu að vera auðveldari viðfangs ef við hefðum meiri vitneskju um launakjörin. Ég er alveg sammála hv. þm. enda kom það fram í minni framsöguræðu að launamálin eru komin í algjört óefni.
    Þingmaðurinn bendir á að ég hafi verið félmrh. í sjö ár og ég hefði átt að geta leyst þetta mál eins og önnur. Ég virðist ekki mega stíga hér í ræðustól án þess að það sé sagt við mig að ég hefði átt að leysa þessi eða hin málin meðan ég var ráðherra. Það er nú svo að það er ekki allt hægt að gera þó maður hafi verið ráðherra í þessi ár en ýmislegu hef ég þó reynt að þoka þarna áfram og nefndi nokkur atriði í minni ræðu sem skipta máli bæði varðandi það að fá upp á borðið launakjör hjá hinu opinbera og eins aðferðir sem ættu frekar að stuðla að því að við náum einhverjum áfanga varðandi það að jafna launakjörin milli karla og kvenna. Ég nefndi hér úttekt sem ég er sannfærð um að muni skila okkur áleiðis, það eru þessar fimm opinberu stofnanir sem er verið að gera úttekt hjá þar sem öll launakjör eiga að koma upp á borðið. Ef þar kemur í ljós verulegur launamismunur, bæði milli kynja og einstakra hópa, þá hlýtur krafan að vera sú að þetta verði gert yfir allt í opinbera launakerfinu. Ég er alveg sannfærð um það þannig að það gæti orðið okkur ákveðinn leiðarvísir hvernig við eigum að komast út úr þessum frumskógi sem kjaramálin eru komin í.
    Ég nefndi einnig starfsmatið sem kveðið er á um í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar. Ég er alveg sannfærð um að það getur líka, hv. þm., skilað okkur áleiðis ef kerfisbundið yrði farið í slíkt starfsmat á störfum ríkisstarfsmanna. Ég hygg að við verðum í báðum þessum tilvikum sem ég nefndi að byrja hjá hinu opinbera til þess að geta síðan leitt þetta yfir á almenna vinnumarkaðinn.
    Ég lýsti því yfir, sem hefur komið fram, að meira að segja Ríkisendurskoðun hefur lýst því yfir að launakerfið sé hrunið þannig að það viðurkenna það allir aðilar en það er eins og enginn geti tekið á þessu máli á raunhæfan hátt sem skilar okkur einhverjum árangri í að bæta kjör. Þessi tillaga sem hér er flutt er viðleitni til þess að reyna að varpa meira ljósi á þetta með þeim upplýsingum sem hér er beðið um. Það má vel vera að það komi í ljós um einstaka liði þarna að það sé t.d. ekki hægt að fá upplýsingar um þróun launaskriðs á almenna markaðinum. Ég býst við að launaskriðið sé eitt af því sem falið er mjög djúpt í þessu neðanjarðarhagkerfi. En ég hygg líka að ýmis þeirra gagna, sem við leitum í þegar við erum að ná fram slíkum upplýsingum, séu mjög ófullkomin eins og t.d. skattframtölin. Ég held að það sé mjög bagalegt, t.d. líka fyrir kjararannsóknarnefnd sem hv. þm. vitnaði í, að hafa ekki vinnutímann á bak við þetta á launaseðlum sem atvinnurekendur láta frá sér. Ég held að það sé mjög bagalegt þegar við erum að reyna að meta stöðuna í þessu efni að það sé svona ófullburða statistik í þessu efni.
    Ég man það að ég var einhvern tímann með frv. um það efni sem ekki náði fram að ganga, það að opna fyrir meiri upplýsingar fyrir kjararannsóknarnefnd þannig að við hefðum gleggri yfirsýn yfir þessi launamál en það náði ekki fram að ganga. Þannig að ég tek ekki óstinnt upp það sem hv. þm. sagði áðan, ég býst við að við séum báðar sammála um að launamálin eru komin í mikil óefni og þetta er auðvitað orðin þjóðarskömm þessi launakjör upp á 50--60 þús. kr. sem ekki einu sinni einn einstaklingur getur lifað af, hvað þá einstætt foreldri eða fjölskyldur. Það hefur alltaf verið farið út í það, ekki bara í tíð þessarar ríkisstjórnar heldur síðustu ríkisstjórnar og þar áður og þar áður, að bæta upp launakjörin í gegnum ýmsar jöfnunaraðgerðir en menn hafa ekki treyst sér í beinar launahækkanir af því að þetta skríður upp eftir öllum launastiganum af því að menn þekkja ekki hinn handlegginn, hitt launakerfið, sem er þetta neðanjarðarlaunakerfi.
    Þannig að ég vildi árétta það, virðulegi forseti, að gefnu tilefni vegna ræðu hv. þm. að hér er einungis verið að leita leiða til þess að opna fyrir þetta tvöfalda launakerfi og hafi þingmaðurinn einhverjar betri leiðir til þess þá vil ég auðvitað hlusta á það og breyta þessari tillögu í samræmi við það. Ég held að við hljótum að vera sammála um það, hv. þm. Guðrún Helgadóttir og ég, að það hljóti að vera lykillinn að þessu til þess að koma á einhverju jafnrétti í tekjuskiptingunni að reyna allt sem hægt er til þess að opna fyrir þetta tvöfalda launakerfi og hafa sýnilegar heildarlaunagreiðslur og heildarlaunakjör á vinnumarkaðnum.