Úttekt á tekju- og eignaskiptingu í þjóðfélaginu

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 17:13:16 (543)

[17:13]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Það er ósköp eðlilegt að nokkrar vomur komi á hv. 12. þm. Reykv. þótt ég viti ósköp vel að henni gengur gott eitt til og við höfum svo sem oft í gegnum tíðina verið sammála um kjör hinna lægst launuðu í landinu. En samningar undir borð eru fyrir þá sem eru þó í skárri kantinum á launakerfinu. Ég veit ósköp vel um alls kyns skrifstofufólk sem er misjafnlega hátt sett í hinu opinbera kerfi sem hefur alls konar fríðindi og auðvitað karlmenn miklu frekar en kvenfólk vegna þess að konur hafa einfaldlega minni tíma til þess að inna af hendi eftirvinnu og annað slíkt. En hið raunverulega láglaunafólk sem hefur laun langt undir því sem hægt er að lifa af það hefur enga samninga undir neinum borðum. Það verður annaðhvort að fara í félagsmálastofnun og fá viðbót eða það verður að vinna tvöfaldan vinnutíma ef ekki þrefaldan til þess að það eigi kost á því að hafa í sig og á. Við sjáum auðvitað hver afleiðingin er, vanskil í húsnæðiskerfinu og vanskil alls staðar, í bönkum og hvareina.
    Það er viðtekin kenning og mjög þekkt sem vinur okkar Keynes margskrifaði um að það er fátt dýrara og hættulegra á samdráttartímum en að draga úr framkvæmdum. Það býður auðvitað upp á hvers kyns spillingu af öllu tagi eins og við vitum ósköp vel að við búum við í þessu þjóðfélagi. Fólk reynir að svíkja undan skatti, það reynir að vinna svart. Það neytir allra bragða til að hafa í sig og á vegna þess að þjóðfélagið greiðir ekki laun fyrir vinnu þessa fólks. Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt og er vanvirða við alla þá sem í hlut eiga.
    Þegar verið er að tala um launastiga í einhverri alvöru þá verð ég að segja alveg eins og er að það fer í taugarnar á mér að menn skuli kalla 50--60 þús. kr. mánaðartekjur laun. Þetta eru engin laun. Þetta er í besta falli styrkur. Og þetta fólk ætti auðvitað bara að hætta að vinna og taka frekar atvinnuleysisbætur, það munar svo sem ekki miklu á. Og eins og ég sagði áðan eigi fólk tvö, þrjú, fjögur börn þá er tvímælalaust skárra að vera á atvinnuleysisbótum. Hvers konar þjóðfélag er það orðið ef það borgar sig betur að vinna ekki? Það vill nú svo til að ég vann í 10 ár í stofnun sem hæstv. fyrrv. ráðherra, Haraldur Guðmundsson, er hugmyndasmiður að velferðarkerfinu, einn af mörgum, og þar er auðvitað grundvallarhugmyndin sú að bætur og velferðarkerfið megi aldrei verka vinnuletjandi. Það eigi alltaf að vera ögn betra að taka vinnulaun. Þetta er að breytast. Ég vil bara spyrja hæstv. forseta: Er enginn nema ég hér inni hræddur um að við séum á sömu leið inn í nýja öld og Danir eru núna þar sem 40% af þjóðinni er á opinberu framfæri? Það eru 40% Dana sem taka laun án þess að vinna. Mér finnst satt að segja skelfileg tilhugsun ef við erum að sigla inn í að búa við, þó það verði ekki meira en eins og núna, svona u.þ.b. 6,8% atvinnuleysi, mér finnst það skelfilegt. Ég held það hæfi Íslendingum illa. Ég held að síst verði Evrópska efnahagssvæðið til þess að bæta úr því. Það vill nú til að það er sennilega eins og við hv. 4. þm. Reykv. höfum löngum haldið fram í andarslitrunum, hygg ég, svoleiðis að það kemur kannski ekki að sök.
    En ég held að það sé kominn tími til að við setjumst niður og við bara horfumst ískalt í augu við hvað fólk þarf til að geta lifað og reynum að koma launakerfinu einhvers staðar nálægt því. Annaðhvort verður fólk að borga húsaleigu eða verður að kaupa sér íbúð. Hvað á manneskja að gera sem fær 50 þús. kr. á mánuði? Mér þykir hún góð ef hún getur borgað annaðhvort húsaleigu eða af einhverjum skuldabréfum. Hún hefur hvorki í sig né á, það er enginn afgangur. Og þetta er bara óraunhæft og býður upp á --- ég veit ekki upp á hvað, að fólk neyti allra bragða til þess að verða sér úti um fé, jafnvel á óheiðarlegan hátt ef ekki vill betur, með því að telja ekki fram til skatts og hverra ráða sem fólk kann nú annars að grípa til.
    Hér var um daginn talað um hátekjuskatt. Það er eitt af þessum orðum sem enginn hefur hugsað um hvað þýða. Ég leyfði mér að orða það svo í umræðu um fjárlög að mér væri ekki eins sárt um að hátekjuskattur væri lagður niður þó að mér væri vel ljóst að minn flokkur hefði ályktað um hátekjuskatt vegna þess að mér fyndist óljóst hvað menn teldu háar tekjur. Fyrst er að vita það, svo er hægt að leggja á hátekjuskatt. Sannleikurinn er bara sá að þær tölur sem við erum að tala um í lægstu launaflokkunum nálgast ekki að vera tekjur og öll mið- og millilaun í þessu landi eru heldur ekki til að lifa af. Barnakennarar eru með 70--80 þús. kr. í grunnlaun. Prófessorar við háskólann skreiðast kannski eftir áratuga störf upp í 110--120 þús. Þetta fólk er varla matvinnungar eða fært um að eignast húsnæði og það þýðir ekkert að vera að tala í þessum klisjum, þetta sé hátekjufólk, svo sé eitthvað sem heiti lágtekjufólk. Sem betur fer er fólk í svokölluðum lágtekjustörfum sem hefur miklu skárri laun en ýmist fólk í milliflokkum. Það fer allt eftir því hvað fólk getur átt kost á mikilli eftirvinnu, næturvinnu, helgidagavinnu og hvað þetta heitir allt saman þannig að lái mér hver sem vill þó að ég verði stundum svolítið þreytt á að hlusta á þessar klisjur. Það verður að hækka lægstu launin og eins og þarna kom fram á fundinum sem ég minntist á áðan, og lækka hæstu launin. Þetta segja menn. Og ég sagði: Allt í lagi félagar. Hvaða laun viljið þið lækka í venjulegum launaskala? Laun kennara? Laun fulltrúa hjá ríkinu? Menn höfðu ekki kjark til að segja já við því. Sannleikurinn er sá að auðvitað er ekki hægt að lækka nein laun og öll kjarabarátta hlýtur að byggjast á því að hverri hækkun sé fagnað og heldur sé nú reynt að tosa hina lægst launuðu upp til að vera einhvers staðar í námunda við þá sem vellaunaðir eru ef þeir eru einhverjir orðnir. En nú hefur komist í tísku að ráðast á þá sem hafa einhverja möguleika á sæmilegum launum og reyna að draga þá niður til hinna lægst launuðu. Þetta þótti ekki góð verkalýðsbarátta hér á árum áður er ég ansi hrædd um. Menn verða að hætta að tala í þessum klisjum og horfast í augu við veruleikann eins og hann er áður en hvert einasta heimili á Íslandi verður gjaldþrota nema fjölskyldnanna fjórtán sem virðast hafa það því betra sem hinir hafa það verra.