Úttekt á tekju- og eignaskiptingu í þjóðfélaginu

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 17:21:43 (544)

[17:21]
     Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er auðvitað hægt að segja mjög margt þegar verið er að ræða launakjörin í landinu. Ég get tekið undir margt af því sem hv. þm. sagði, en hv. þm. sagði: Það þarf að setjast yfir það hvað fólk þarf til þess að geta lifað. En í sinni fyrri ræðu sagðist hún hafa alveg upplýsingar um það og það þyrfti ekkert að setjast yfir það. Ég held nefnilega að það þurfi einmitt að gera, að setjast yfir þetta hjá einstaka hópum, einstæðum foreldrum, einstaklingum og vísitölufjölskyldum. Við erum með neyslukönnun frá 1990 sem ég hygg að sé það nýjasta og það er verið að tala um meðalneyslu á heimili á ári. Og það gefur okkur ekki mynd af því hvað einstæðir foreldrar þurfa, heldur er þetta bara úrtak þar sem verið er að skoða meðalneyslu. Þar kemur fram að t.d. á höfuðborgarsvæðinu er þetta 2,5 millj. og þegar er komið í kaupstaðina, þá er þetta 2,2 og önnur sveitarfélög 1.985 þús. á ári þannig að þetta virðist vera mjög mismunandi eftir stöðum. Ef við erum að tala um að það kosti 2,5 millj. og ég sé ekki í þessari úttekt að það sé verið að tala um afborganir af lánum eða neitt slíkt. Við erum að tala hér um 50--60 þús. kr. laun, kannski innan við millj. á ári, þá sér maður það að fólkið lifir í stórum stíl undir hungurmörkum hér í þjóðfélaginu. Það er alveg rétt sem hv. þm. segir að það er náttúrlega orðið eitthvað að þegar lægstu launin eru orðin það sama og atvinnuleysisbæturnar þannig að kerfið virkar vinnuletjandi þannig að það er alveg full ástæða til þess að skoða þessi mál. Hv. þm. nefndi að það megi ekki hækka neitt launin en ef við hefðum þetta á borðinu, sem ég er að tala um, þá er alla vega hægt að frysta hæstu launin með góðu móti ef við hefðum til þess svigrúm til þess að hækka lægstu launin hér í friði. Og spurning er hvort ekki sé tímabært að verkalýðshreyfingin sjálf taki sér tak eins og hv. þm. nefndi og hvort þurfi ekki að skoða skipulag verkalýðshreyfingarinnar sjálfrar og koma hér á, eins og hefur verið nefnt í hennar röðum fyrir held ég áratugum síðan, að koma hér á starfsgreinasamböndum sem semja við launþega.