Ráðherraábyrgð

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 17:42:55 (547)

[17:42]
     Björn Bjarnason :
    Herra forseti. Eins og fram kemur í greinargerð með tillögu hv. þm. Svavars Gestssonar á hún rætur að rekja til umræðna sem fóru fram á síðasta þingi vegna tillögu frá hv. þm. Páli Péturssyni um breytingar á lögunum um ráðherraábyrgð. Hann vildi að íslensku ráðherrábyrgðarlögin yrðu lagfærð og inn í þau kæmu ákvæði eins og eru í 2. mgr. 5. gr. dönsku laganna um ráðherraábyrgð þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ákvæði 1. mgr. eiga við ef ráðherra veitir þinginu rangar eða villandi upplýsingar eða leynir mikilvægum upplýsingum við meðferð máls á þingi.``
    Í umræðum í fyrra var rætt að hugmyndir hv. þm. Páls Péturssonar gengju raunar miklu lengra en þetta ákvæði í dönsku lögunum þótt hann teldi sig vera að flytja breytingar á íslensku lögunum sem sköpuðu samræmi þar á milli. Síðan hefur komið fram í máli hv. flm. Svavars Gestssonar að hann hefur safnað saman upplýsingum og látið þýða hver háttur er hafður á í ýmsum þjóðþingum við það að veita ráðherrum aðhald, bæði pólitískt aðhald og einnig aðhald sem byggist á lögum um ábyrgð ráðherra. Hann hefur einnig eins og fram kom dreift ágætri grein, sem ég hafði tækifæri til að líta yfir núna á meðan hann flutti ræðu sína, um ábyrgð ráðherra í Danmörku í ljósi Tamílamálsins. Ekkert í þessu finnst mér þess eðlis að kalli á breytingar á íslensku lögunum um ráðherraábyrgð. Ef menn vilja setja um þetta ákvæði sem Páll Pétursson gerði að umtalsefni í fyrra hlýtur það að vera til athugunar en ég sé ekki að það hafi neitt komið fram sem kallar á það að við þurfum að fara að skoða þetta mál frá grunni. Það liggja fyrir allar reglur sem þarf að hafa í lögum og stjórnarskrá til þess að þingið geti með vísan til 39. gr. stjórnarskrár um rannsóknarnefndir og síðan með vísan til laganna um ráðherraábyrgð sem hér er í gildi þá höfum við allar þær heimildir sem þarf til þess að sinna þessum málum að mínu mati.
    Hins vegar er munurinn hér á landi og í Danmörku einkum sá að hér á landi hafa menn gert miklu meira af því en í Danmörku að flytja tillögur um vantraust á ráðherra. Það kemur einmitt fram í þessari grein eftir hinn danska lögfræðing að í Danmörku hafi aldrei verið beitt vantrausti gegn einstökum ráðherrum, hvað þá heldur að mönnum hafi dottið það í hug í danska þinginu að grípa til þess úrræðis sem liggur nú fyrir hér í þinginu um það að flytja tillögu um vantraust á ráðherra og setja þá upp í stafliði til þess að menn geti farið í eins konar krossapróf við afgreiðslu málsins. Það hefði engum dottið það í hug í Danmörku og hvergi nokkurs staðar enda er sú tillaga algjörlega fráleit og leyfi ég mér að lýsa því yfir að ég tel álitamál hvort hún sé þingleg.
    En það kemur fram í grein hins danska lögfræðings að í Danmörku hafa menn að sjálfsögðu fjallað um hina pólitísku ábyrgð og þar hafa ráðherrar sagt af sér án þess að mál hafi komið fyrir þingið sem vantraust og ráðherrar hafa tekið gagnrýni þannig að þeir hafi sagt af sér og það án tillits til þess hvort um

meirihlutastjórnir eða minnihlutastjórnir hafi verið að ræða þótt það sé að sjálfsögðu sérstakt atriði í þessu máli eins og hér liggur fyrir.
    Þegar við ræðum það eftirlitskerfi sem við getum haft hér þá vil ég minna á lögin um umboðsmann Alþingis og lögin um Ríkisendurskoðun. Nú vitum við það að vegna pólitískra deilna sem hér hafa verið hefur verið ákveðið af öðrum stjórnarflokkanna að skjóta málum, sem hafa verið til umræðu og varða störf ráðherra, til Ríkisendurskoðunar og það er réttilega vikið að því í greinargerð hv. þm. þar sem hann skrifar sérstakan kafla, Of oft kallað á Ríkisendurskoðun, heitir sá kafli. Ég tek undir með hv. þm. varðandi þetta.
    Ég held einnig að það þurfi að endurskoða lögin um Ríkisendurskoðun að því leyti að menn eigi að hafa þar andmælarétt að einhverju leyti. Ef það á að fara að breyta Ríkisendurskoðun með þeim hætti að verið sé að vísa til hennar málum eins og gert hefur verið þá þarf að huga að því að menn geti haft þar einhvers konar andmælarétt á meðan mál eru til skoðunar því það liggur ekki endilega sjálfkrafa fyrir að Ríkisendurskoðun eigi að taka við öllum tilmælum sem til hennar koma um rannsóknir og athuganir. Það er spurning ef menn ætla að nota embætti Ríkisendurskoðunar með þessum hætti sem hv. þm. kallar ,,of oft kallað á Ríkisendurskoðun`` hvort ekki eigi að setja í lögin um Ríkisendurskoðun einhverja reglu sem varðar rétt manna til þess að hafa þar uppi andmæli og koma að málstað sínum áður en endurskoðunin hefst. Ég á ekki við að það eigi að takmarka rétt Ríkisendurskoðunar til þess að ganga að eigin frumkvæði inn á skrifstofur manna og skoða það sem þar er að gerast eða fara ofan í gögn en ef menn ætla að leggja að jöfnu annars vegar Ríkisendurskoðun og hins vegar lög um umboðsmann Alþingis þar sem það er alveg skýrt sett fram eins og menn sjá þegar þeir skoða lögin um umboðsmann Alþingis hvaða reglur gilda og hvernig menn geta komið fram andmælum og eftir hvaða reglum skal farið hjá umboðsmanni þegar hann tekur á þessum málum. Verður einnig að gera þá kröfu, finnst mér, til hæstv. ráðherra þegar mál koma fyrir í þinginu í skýrslum umboðsmanns eins og gert hefur verið að þeir taki mið af því og þeirri gagnrýni. Það er mjög rík skylda okkar þingmanna að fylgja því eftir.
    Tamílamálið hefur verið til umræðu hér og ef við lesum þau gögn sem þar eru til skoðunar þá vitum við að það spratt allt út af ábendingum frá umboðsmanni danska þingsins. Hér á landi þurfum við kannski að koma á laggirnar strangara kerfi í meðferð þingsins varðandi álitamál sem koma fram í skýrslum umboðsmanns Alþingis og snerta störf ráðherra.
    Það hafa verið sett núna stjórnsýslulög sem umboðsmaður hvatti til að yrðu sett. Þau eru skýr og auðvelda hvernig menn taka á þessum málum og veita honum nauðsynlegar starfsreglur. Mannréttindasáttmáli Evrópu hefur einnig verið settur í lög en umboðsmaður taldi nauðsynlegt að hann yrði lögfestur. Við höfum því komið á lagaforsendum og við höfum þau tæki sem þarf til þess að taka á þessum málum ef menn vilja. Ég held það skorti ekki tækin og ég held það skorti ekki fleiri lagaákvæði. Það skortir kannski eitthvað annað og ég held að tillögur eins og þær sem hér liggja fyrir um vantraust á einstaka ráðherra með þeim hætti sem það hefur verið lagt upp sé ekki það sem við þurfum ef við ætlum virkilega að fjalla um þessi mál í alvöru.
    Ég tel að hv. flm., eins og hann hefur búið þetta mál fyrir okkur og með mjög vönduðum hætti, sýni með því að hann vilji að á þessu máli sé tekið málefnalega og í alvöru. Ég er reiðubúinn til að gera það í þeirri þingnefnd sem ég starfa, allshn., og mér finnst sjálfsagt að við ræðum þetta en við verðum líka að velta því fyrir okkur og út úr þeirri athugun hlýtur að koma hvaða lagaforsendur okkur skortir, hvaða ný tæki okkur skortir til þess að nota í þessu efni. En mér finnst að við getum ekki sem stjórnmálamenn og alþingismenn í þingræðislandi skotið okkur á bak við einhverjar slíkar reglur því að að lokum erum það við sem berum pólitíska ábyrgð á setu manna í ríkisstjórn.