Ráðherraábyrgð

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 18:05:13 (552)


[18:05]
     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta er einmitt kjarni málsins. Það er annars vegar pólitísk ábyrgð og hins vegar lagaleg ábyrgð. Ríkisendurskoðun mun kveða upp úr um hina lagalegu ábyrgð og það hvort viðkomandi ráðherrar hafa staðið þar rétt að málum. En Ríkisendurskoðun mun ekki kveða upp úr um hina siðferðilegu ábyrgð. Þeir hafa auðvitað sagt það eins og rétt er að það er ekki þeirra verksvið. Þeirra verksvið er að kanna það hvort farið er eftir lögum og reglum. Hins vegar er það okkar hér á Alþingi að annast hina pólitísku ábyrgð og kveða upp úr um það hvort viðkomandi ráðherrar hafa farið yfir strikið í siðferðilegum efnum. Við verðum að axla þá ábyrgð að kveða upp úr um það. Það gerir enginn annar nema auðvitað þjóðin í kosningum.