Gjaldeyrisvarasjóður Íslendinga

15. fundur
Miðvikudaginn 19. október 1994, kl. 13:35:21 (558)


[13:35]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég beini orðum mínum til starfandi forsrh. og hæstv. fjmrh. Tilefnið er að hæstv. viðskrh. hóf í gær umræður um fjárstreymi úr landi og yfirvofandi vaxtahækkanir vegna þess fjárstreymis. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh., starfandi forsrh., hvort hann geti staðfest að gjaldeyrisvarasjóður Íslendinga hafi minnkað um fjórðung það sem af er þessu ári. Gjaldeyrisvarasjóðurinn hafði verið tæpir 32 milljarðar í upphafi ársins, en hafi á þeim tíma sem liðinn er frá áramótum fallið um 8 milljarða. Það að gjaldeyrisvarasjóður þjóðarinnar minnki um fjórðung á svo skömmum tíma eru auðvitað alvarleg tíðindi og hlýtur að leiða til umhugsunar um það hvernig stjórnvöld bregðist við slíkri stöðu. Þegar það bætist svo við að yfirmaður Seðlabankans, hæstv. viðskrh., lýsir því yfir í ríkisfjölmiðlum í gær, að yfirvofandi sé áframhaldandi verulegt fjárstreymi úr landi vegna breytinga um áramót, þá er komin upp sú staða að gífurleg óvissa og jafnvel hættuástand getur skapast varðandi gjaldeyrisvarasjóð þjóðarinnar. Hæstv. viðskrh. benti einna helst á vaxtahækkun sem viðbrögð við þessu hruni gjaldeyrisvarasjóðsins og yfirvofandi fjárstreymis úr landi og ég vildi spyrja starfandi forsrh., ráðherra efnahagsmála og fjmrh., hvort hann geti staðfest þessar tölur um stöðu gjaldeyrisvarasjóðsins og hvert sé álit hans á yfirlýsingu hæstv. viðskrh. í gær.