Gjaldeyrisvarasjóður Íslendinga

15. fundur
Miðvikudaginn 19. október 1994, kl. 13:37:49 (559)

[13:37]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil í fyrsta lagi segja frá því að það kann að vera rétt, þó að ég hafi ekki skoðað það nákvæmlega nýlega, að nokkur hluti af svokölluðum gjaldeyrisvarasjóði hafi streymt úr landi, eins og hv. þm. kýs að kalla það. En ég vil geta þess alveg sérstaklega þegar um þetta er rætt, að þetta fjármagn sem hefur farið úr landi hefur yfirleitt farið til fjárfestingar íslenskra aðila erlendis. Við höfum margoft rætt það hér á undanförnum dögum að það hefur m.a. verið gert í því sambandi að aðilar hafa verið að tryggja sig vegna framvirkra samninga. Þetta myndar að sjálfsögðu inneign Íslendinga erlendis og kemur fram t.d. í pósitívum viðskiptajöfnuði, enda eru það hinar góðu fréttir að í fyrsta skipti stefnir í það, þrjú ár í röð, að Íslendingar eru að greiða niður skuldir sínar erlendis. Það er þess vegna ekki nokkur hætta á ferðum og gengisstaða íslensku krónunnar er ákaflega góð. Menn verða, þegar þetta er rætt, að átta sig á því að það er til bóta ef við styrkjum okkar stöðu erlendis og eignumst eignir þar, því það ber auðvitað að draga það frá skuldum ef menn vilja finna út nettóskuldir Íslendinga erlendis.
    Ég vara mjög eindregið við því að stjórnmálamenn, sem vilja kalla sig ábyrga, ræði um óvissu- og hættuástand í þessu tilviki vegna þess að það er ekkert sem gefur tilefni til slíks orðalags. Ég kannast ekki við það, það verður að spyrja hæstv. viðskrh. að því hvort hann telji að viðbrögðin eigi að vera vaxtahækkun. Það eina sem hefur komið fram, og hefur bæði verið staðfest af mér og eins af seðlabankastjórum, er að vextir af skammtímaskuldbindingum hér á landi, einkum og sér í lagi í lengri endann, eru óvenjulega lágir hér á landi og lægri en í nágrannalöndunum.