Gjaldeyrisvarasjóður Íslendinga

15. fundur
Miðvikudaginn 19. október 1994, kl. 13:40:41 (560)

[13:40]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. er örugglega eini fjármálaráðherra á Vesturlöndum sem telur það styrkleikamerki að fjármagn streymi frá landi hans. Það er nú almennt talið veikleikamerki um hagstjórn ef fjármagn leitar í stórum stíl frá einu landi til annarra landa. Sú staðreynd að gjaldeyrisvarasjóðurinn hafi hrunið um fjórðung á þessu ári, vegna þess að íslenskir fjárfestar hafi kosið að ráðstafa fé sínu erlendis, er auðvitað staðfesting á því að markaðurinn, hinn harði húsbóndi sem ráðherrarnir vitna oft til, hefur ekki trú á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Þess vegna er gjaldeyrisvarasjóðurinn að minnka og þess vegna hafa um 6 milljarðar streymt úr landi það sem af er ársins vegna þeirrar ástæðu einnar saman. Þegar að bætist svo við að um áramótin verður opnað á algerlega frjálsan flutning fjármagns úr landi og viðskrh. telur í viðtali við útvarpið í gær að það muni leiða til vaxtahækkunar, þá er auðvitað alveg ljóst að hæstv. fjmrh. verður að huga betur að þeirri stöðu sem komin er upp.