Gjaldeyrisvarasjóður Íslendinga

15. fundur
Miðvikudaginn 19. október 1994, kl. 13:42:39 (562)

[13:42]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það eru alveg ný tíðindi ef ríkisstjórnin hefur gert ráð fyrir því að gjaldeyrisvarasjóðurinn mundi minnka um fjórðung á árinu. Það hefur a.m.k. gleymst að upplýsa það hér í þingsölum, hvað þá heldur gagnvart þjóðinni. Og þó að þjóð borgi skuldir sínar erlendis, og það er alveg rétt að það er gott og blessað, þá er það ekki styrkleikamerki að borga skuldir sínar með því að ganga á gjaldeyrisvarasjóðinn. Gjaldeyrisvarasjóðurinn er til þess að mæta skyndilegum áföllum. Hann á að vera traustur og hann á að byggja upp. Þjóð sem er að borga erlendar skuldir sínar með því að ganga á fjórðung af gjaldeyrisvarasjóðnum er ekki að styrkja stöðu sína. Hún er einfaldlega að ganga á forða sinn.
    Það er svo athyglisvert að hæstv. fjmrh. hefur þrátt fyrir ítrekun mína ekki viljað tjá sig um yfirlýsingu viðskrh. í gær og það er þess vegna óhjákvæmilegt að þau mál komi hér til umræðu nánar í dag. Það vill svo vel til að fjáraukalög og lánsfjárlög eru hér á dagskrá. Við höfum óskað eftir því að hér verði tvöfaldur umræðutími um bæði þessi mál og þá gefst tækifæri til þess að ræða nánar við hæstv. viðskrh. og hæstv. fjmrh.