Gjaldeyrisvarasjóður Íslendinga

15. fundur
Miðvikudaginn 19. október 1994, kl. 13:44:02 (563)

[13:44]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ef það skyldi hafa farið fram hjá öðrum en hv. þm. hvað hér hefur verið sagt, þá skal ég reyna að endurtaka það. Það sem skiptir máli er að það er afgangur af viðskiptajöfnuði Íslendinga gagnvart öðrum löndum. Og hvað þýðir það? Það þýðir að það er meira flutt úr landi en inn í landið. Það þýðir jafnframt, af því að það er ekki eingöngu verið að tala um vöruskiptajöfnuð, að Íslendingar eru að greiða niður skuldir annars staðar eða eignast innstæður, sem er ekkert nema eðlilegt að gerist, ekkert nema eðlilegt. Þegar við opnuðum þennan markað, þá vissu allir og áttu von á þessu. Það hefur ekkert gerst í ár sem menn áttu ekki von á að mundi gerast. Það sem er í raun styrkleiki okkar, það að við erum að borga niður skuldir, kemur hérna fram hjá hv. þm. eins og stórkostlegur veikleiki. Ég vara við umræðum af þessu tagi, því ef menn telja þetta vera ábyrga menn sem lýsa þessu yfir, þá gæti fólk trúað því að eitthvað sé að en það er síður en svo, að sjálfsögðu.