Lækkun vaxta í bankakerfinu

15. fundur
Miðvikudaginn 19. október 1994, kl. 13:57:45 (573)

[13:57]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt að segja það að ég tel rétt að stefna að lækkun útlánsvaxta. En við skulum átta okkur á því að það er við fleiri erfiða aðila að glíma en bara banka og lánastofnanir. Öflugustu sparendur í landinu og þeir sem eiga mest fjármagn eru lífeyrissjóðirnir. Stjórn þeirra er í höndum aðila vinnumarkaðarins, sömu manna og sitja á biðstofu hæstv. forsrh. til að biðja um lækkun vaxta. Ætli nokkrir aðilar ráði jafnmiklu um að menn nái árangri til lækkunar vaxta og þeir sem stjórna voldugustu fjármálastofnunum landsins, lífeyrissjóðunum? Ég verð að segja það eftir þá reynslu sem ég hef af því haft að mér finnst ekki að þeir aðilar standi jafnöfluglega við bakið á ríkisstjórninni til vaxtalækkunar og ástæða væri til miðað við þau orð sem þessir sömu aðilar hafa haft í frammi við ríkisstjórnina á fundum með henni þar sem þeir hafa krafist þess mjög eindregið að ríkisstjórnin beitti sér fyrir vaxtalækkun í landinu.