Ofbeldisefni í myndmiðlum

15. fundur
Miðvikudaginn 19. október 1994, kl. 14:03:44 (578)

[14:03]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Varðandi þá athugasemd að menntmrn. beri að fylgja eftir lögum um kvikmyndaeftirlit, þá kom fram í upphafsspurningu minni hér að það er verið að vinna að þeim málum innan ráðuneytisins og þar með að framfylgja tillögu okkar kvennalistakvenna. En ég held að það veiti ekki af því, sérstaklega þegar koma upp mál af því tagi sem er kveikjan að þessari fyrirspurn, að það sé sérstaklega hugað að því að gera, ef ég má orða það svo, ,,rassíu`` eða gera sérstakt átak til að vinna að þessum málum. Ég hygg að hæstv. dómsmrh. geti verið mér sammála í því að þessum lögum beri að framfylgja og hafi það verið gert með of linum hætti þá höfðum við til þeirra úrræða eða þeirra möguleika sem við höfum til að gera það með þeirri lagastoð sem við höfum.