Fjáraukalög 1994

15. fundur
Miðvikudaginn 19. október 1994, kl. 14:36:00 (587)


[14:36]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég tel mikilvægt að hæstv. fjmrh. sé viðstaddur þessa umræðu. Jafnframt óskaði ég eftir því við hæstv. viðskrh. að hann yrði einnig viðstaddur umræðuna.
    Þegar núv. hæstv. ríkisstjórn hefur á árinu verið að fjalla um efnahagsstefnu sína þá hefur það verið talinn kjarni hennar á þessu ári að ná niður og viðhalda vaxtalækkun. Ríkisstjórnin bjó til viðmiðunarmark 5% vexti sem fól í sér í senn prófstein og innri kjarna þess stöðugleika og árangurs í efnahagsmálum sem ríkisstjórnin taldi helsta kost verka sinna.
    Það frv. sem hér er til umræðu staðfestir að ríkisstjórninni hefur mistekist að framfylgja þessari stefnu. Markaðurinn hefur afneitað því 5% vaxtamarki sem ríkisstjórnin setti. Sú umræða sem verið hefur síðustu daga um yfirvofandi vaxtahækkanir og yfirlýsing hæstv. viðskrh. í Ríkisútvarpinu í gær að fjárstreymi úr landi um næstu áramót muni leiða til enn frekari vaxtahækkana er auðvitað ásamt því frv. til fjáraukalaga sem hér er til umræðu staðfesting á því að vaxtastefna ríkisstjórnarinnar er ekki lengur raunhæf. Það kemur skýrt fram í greinargerð þessa frv. á bls. 28 og 32 að ríkissjóður hefur á þessu ári orðið að taka að sér að fjármagna Húsnæðisstofnun ríkisins um 7 milljarða kr. Það gleymist hins vegar í greinargerðinni að gera grein fyrir því hvers vegna ríkissjóður, sem ætlaði sér ekki í upphafi að taka að sér þetta hlutverk, hefur orðið að gera það. Jú, skýringin er sú að Húsnæðisstofnun ríkisins hefur haldið sér við 5% markið og neitað að selja nokkurt bréf sem ekki væri keypt á því vaxtastigi. Niðurstaðan hefur orðið sú að aftur og aftur og aftur hefur Húsnæðisstofnun mistekist að selja bréfin. Markaðurinn hefur ekki viljað kaupa bréf Húsnæðisstofnunar á því vaxtastigi sem tengt er hornsteininum í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, 5% vöxtum. Ríkissjóður hefur þess vegna orðið að gangast í ábyrgð fyrir hvorki meira né minna en 7 milljörðum kr. það sem af er þessu ári vegna þessa markaðsbrests 5%-bréfanna frá Húsnæðisstofnun. Þess vegna kemur það fram í þessu frv. að hrein lánsfjárþörf ríkisins er á árinu 1994 ekki rúmir 11 milljarðar eins og gert var ráð fyrir í fjárlögum fyrir þetta ár, heldur rúmir 20 milljarðar og heildarlánsþörf ríkissjóðs er á árinu 1994 ekki rúmir 27 milljarðar eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. heldur rúmir 36 milljarðar eins og fram kemur í þessu frv. til fjáraukalaga. Lántökur ríkissjóðs hafa vaxið úr 27 milljörðum í 36 milljarða.
    Það hefði verið rétt fyrir hæstv. fjmrh. að ganga af meiri hógværð um þær yfirlýsingadyr sínar að undanförnu að á árinu 1995 verði mjög lítil lánsfjárþörf hjá ríkinu. Þegar fjmrh. mælti fyrir fjárlagafrv. fyrir nokkrum dögum þá var það eitt af höfuðatriðum í hans málflutningi eins og í frv. sjálfu að á árinu 1995 yrði mjög lítil lánsfjárþörf hjá ríkinu. Sama messa var sungin þegar fjárlagafrv. fyrir yfirstandandi ár var lagt fram. Niðurstaðan blasir við í þessu frv. Það eru þess vegna ekki bara yfirlýsingar fjmrh. um vexti á skammtímamarkaði sem gefnar voru sama daginn og hann mælti fyrir fjárlagafrv. Það eru ekki bara einstakar yfirlýsingar hæstv. viðskrh. í gærkvöldi sem ég mun koma að hér á eftir, heldur einnig það frv. til fjáraukalaga sem hér er lagt fram með formlegri tilkynningu til þingsins að ríkissjóður hefur orðið að greiða 7 milljarða af húsnæðisbréfum vegna þess að þau hafa ekki selst, heldur er það líka útgáfa ríkissjóðs á ECU-bréfunum sem felur í sér vantraustsyfirlýsingu á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Ég mun hér á eftir knýja hæstv. viðskrh. og hæstv. fjmrh. til þess að skýra nánar þann grundvöll sem liggur á bak við útgáfu ECU-bréfanna vegna þess að eigi þau að standast markaðssamkeppni við þau bréf sem ríkissjóður er að bjóða að öðru leyti, þá þarf að vera á Íslandi 3,5% verðbólga. Útgáfa ECU-bréfanna felur þess vegna í sér spásögn fjmrn. um það að hér verði 3,5% verðbólga eða þá að fjmrn. er að tilkynna markaðnum að það sé ekki traust á íslensku krónunni vegna þess að ef hvorugt gerist, ef hvorki verður hér 3,5% verðbólga né breyting á gengi krónunnar, þá eru ECU-bréfin einfaldlega ekki söluhæf vara. Ríkissjóður hefur þess vegna með útgáfu verðbréfanna sjálfra tilkynnt markaðnum að annað tveggja skuli hann ekki treysta gengi krónunnar eða hann skuli ekki treysta verðbólguspánni nema þá bréfin séu bara gefin út í gamni til þess að enginn kaupi þau.
    Það er þess vegna algerlega óhjákvæmilegt að bæði hæstv. fjmrh., sem er reyndar starfandi forsrh., og hæstv. viðskrh. skýri hér í umræðunni í dag hvað er eiginlega að gerast, hvert er samhengið í öllum þessum yfirlýsingum og öllum þessum ákvörðunum hæstv. ríkisstjórnar.
    Mér hefur reyndar verið tjáð --- og er nú leitt að hæstv. forsrh. skuli ekki vera kominn til þings þannig að hægt sé að spyrja hann beint, en ég ber þá þá spurningu fram nú þótt hann sé fjarverandi --- mér hefur verið tjáð að hæstv. forsrh. hafi á vettvangi ríkisstjórnarinnar eða í samræðum við einstaka ráðherra gagnrýnt útgáfu ECU-bréfanna. Hæstv. forsrh. hafi verið mjög óánægður með útgáfu ECU-bréfanna og ég skil það vel vegna þess að útgáfan felur það í sér að stefnuræða forsrh. hér á þinginu hafi verið marklaus. Bæði yfirlýsingarnar um stöðugleika krónunnar og yfirlýsingarnar um verðbólguna. Það er þess vegna nauðsynlegt að fá það skýrt fram hér hvort hæstv. forsrh. er sáttur eða ósáttur við útgáfu fjmrn. á

umræddum ECU-bréfum.
    Áður en ég kem nánar að því vil ég spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann hafi tekið ákvörðun um það að ríkissjóður muni ekki enn frekar hlaupa undir bagga með Húsnæðisstofnun. Eru þeir 7 milljarðar sem ríkissjóður hefur orðið að láta af hendi vegna Húsnæðisstofnunar af því að enginn vil kaupa bréf Húsnæðisstofnunar á 5% vöxtunum, er það hámarkið? Þá er ég ekki bara að tala um árið í ár heldur líka fram yfir áramót. Ef svar hæstv. fjmrh. er á þann veg að ríkissjóður ætli ekki að borga meira en þessa 7 milljarða er alveg ljóst að vaxtastigið á bréfum Húsnæðisstofnunar hlýtur að hækka því að stofnunin hefur ekki getað fjármagnað sig með því að selja bréf á 5%.
    Líka er athyglisvert og ég vil spyrja um afstöðu fjmrh. og viðskrh. til þess að önnur sönnunin fyrir því að vaxtastefnan er hrunin er að Seðlabankinn hefur orðið að kaupa húsbréf sem nemur 4 milljörðum. Eiríkur Guðnason, bankastjóri Seðlabankans, sá eini af bankastjórunum þremur sem hefur faglega þekkingu á peningamarkaði, þó hinir hafi kannski ágæta þekkingu á málinu almennt séð, lýsir því skýrt yfir í viðtali við sjónvarpið í fyrradag að ríkissjóður hafi gripið inn í og keypt húsbréfin til að reyna að halda vaxtastefnu ríkisstjórnarinnar uppi. Líka er athyglisvert að Birgir Ísleifur Gunnarsson, bankastjóri Seðlabankans, segir í viðtali við Morgunblaðið í dag að ástæðan fyrir því að Seðlabankinn hafi keypt 4 milljarða af húsbréfum sem hann hafi ekki ætlað sér að kaupa sé sú að það hafi verið, svo vitnað sé orðrétt í seðlabankastjórann: ,, . . .  ákveðinn tappi í þeirri vaxtaþróun sem hér hafi orðið.`` Eða með öðrum orðum af því að tappi varð í vaxtastefnu ríkisstjórnarinnar varð Seðlabankinn að kaupa húsbréf sem nemur 4 milljörðum. Orðalag seðlabankastjórans er yfirlýsing um að markaðurinn hafi heldur ekki hvað þessa prófraun snertir haft trú á vaxtastefnu ríkisstjórnarinnar. Markaðurinn keypti ekki bréf Húsnæðismálastofnunar sjálfrar á 5%. Markaðurinn var ekki tilbúinn að kaupa húsbréfin miðað við það markmið þannig að Seðlabankinn varð að kaupa fyrir upp undir 4 milljarða. En nú getur Seðlabankinn ekki meir einfaldlega vegna þess eins og fram hefur komið að þanþol Seðlabankans til að kaupa meira af bréfum til að halda uppi óraunhæfum grundvelli vaxtastefnu ríkisstjórnarinnar er þrotið. Hvað gerist þá? Jú, þá byrja vextirnir af húsbréfunum að hækka og þeir hækka svo ört að báðir bankastjórar Seðlabankans, Eiríkur Guðnason og Birgir Ísleifur Gunnarsson, hafa lýst því yfir síðustu daga að þeir geti ekki einu sinni skýrt það hvað vaxtahækkunin á húsbréfunum sé ör. Bæði í viðtali við sjónvarpið og í viðtali við Morgunblaðið kemur þessi afstaða seðlabankastjóranna fram. Með öðrum orðum hafa seðlabankastjórarnir gefist upp á að tjá sig um vaxtahækkanirnar sem eru að gerast hér á markaðnum.
    Síðan kemur þriðja röksemdin fyrir því að vaxtastefna ríkisstjórnarinnar sé hrunin. Hún er í yfirlýsingu seðlabankastjórans Eiríks Guðnasonar í sjónvarpinu í fyrrakvöld. Þar er þessi faglegi bankastjóri Seðlabankans er spurður að því: Erum við þá að horfa fram á það að vextir fari hækkandi? Hvað segir seðlabankastjórinn? Lýsir hann yfir trausti á vaxtastefnu ríkisstjórnarinnar? Gefur hann svar sem dregur úr ótta manna við að vextir kunni að hækka? Nei, seðlabankastjóri Eiríkur Guðnason segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Ég veit ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér.``
    ( Viðskrh.: Það er öfugt við hv. þm.) Já, ráðherra viðskiptamála sem spáði vaxtahækkun í ríkisfjölmiðlunum í gær, getur hlegið að því og gefið í skyn að ég viti eitthvað um framtíðina, ráðherrann sem sjálfur var að segja þjóðinni í gærkvöldi að fyrir höndum væri vaxtahækkun. Ráðherrann, sem sjálfur sagði þjóðinni í gærkvöldi að fyrir höndum væri útstreymi til útlanda, ætti að hætta að hlægja í þingsalnum sérstaklega í ljósi þess sem hæstv. fjmrh. sagði hér fyrr í dag að engir ábyrgir menn töluðu með þeim hætti. En seðlabankastjóri treystir sér ekki til að gefa út yfirlýsingu um að vextirnir verði stöðugir. Ekki einu sinni að þeir verði stöðugir hvað þá heldur að þeir lækki. Nei, hann treystir því ekki til að lýsa því skýrt yfir að þeir muni ekki hækka. Og ef Seðlabankinn hefur ekki svo mikla trú á vaxtastefnu ríkisstjórnarinnar að hann sé tilbúinn með yfirlýsingum að styðja hana er ekki mikið eftir orðið af henni. Þegar Seðlabankinn hefur heldur ekki það mikla trú á vaxtastefnu ríkisstjórnarinnar að hann treysti sér til að kaupa meira af húsbréfum er heldur ekki mikið eftir af henni. Þegar Seðlabankinn er kominn á það stig að hann treystir sér ekki yfir höfuð til að safna meira af ríkispappírum til sín enda kominn með 25 milljarða af ríkispappírum í geymslu í Seðlabankanum þá er heldur ekki orðið mikið eftir af vaxtastefnu ríkisstjórnarinnar.
    Til viðbótar við þetta allt saman birtist hæstv. viðskrh. í viðtali við Ríkisútvarpið í gærkvöldi. Þar segir hæstv. viðskrh. orðrétt og ég ætla að lesa það fyrir hæstv. fjmrh. vegna þess að það var alveg greinilegt fyrr í dag að hæstv. fjmrh. hafði ekki heyrt þessa yfirlýsingu viðskrh. Orðrétt segir viðskrh. í viðtali við Ríkisútvarpið í gær þegar hann er spurður að því hvort fjárstreymi úr landi muni ýta undir vaxtahækkun, með leyfi forseta:
    ,,Já, það er umtalsvert fjárstreymi úr landi. Það er vegna þess að nú, þrátt fyrir allt tal um háa vexti á Íslandi, þá er það orðið svo að það eru betri skilyrði [það eru betri skilyrði, segir viðskrh.] í nálægum löndum til að ávaxta fé heldur en hér.``
    Það er bara tilkynning frá viðskrh. um að vextir á Íslandi séu orðnir of lágir til að ávaxta fé sitt. En hæstv. viðskrh. var ekki búinn með yfirýsingar sínar. Hann sagði til viðbótar:
    ,,Það eru borgaðir hærri vextir og lausafjárstaða bankanna hefur verið góð, þ.e. þeir hafa sóst mjög eftir því að fá lánsfé. Fjárfesting hefur hins vegar ekki aukist í landinu þrátt fyrir vaxtalækkun. Þannig að bankarnir eru með talsvert mikið af innlánsfé sem þeir koma ekki út með eðlilegum hætti.`` Ég endurtek

líka þessa setningu fyrir fjmrh., ,,sem þeir koma ekki út með eðlilegum hætti``. Er hægt fyrir viðskrh. nokkurs lands að gefa skýrari yfirlýsingu um þörf vaxtahækkunar en að segja að bankarnir komi ekki út peningunum með eðlilegum hætti. Hæstv. viðskrh. var ekki búinn heldur bætti hann um betur. Hann sagði orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Þeir hafa verið að nota þetta fé til að kaupa skammtímaríkispappíra á Íslandi. Nú er ávöxtunarboðið á skammtímaríkispappírum í nágrannalöndunum eins og t.d. í Svíþjóð orðið það vænlegt að menn freistast til að fara með fé sitt út.`` Síðan segir hæstv. viðskrh. orðrétt ,,að allt bendi þess vegna til þess að um áramótin þegar opnað verður algerlega og engar hindranir verða milli íslenska peningamarkaðarins og hins erlenda að fjármagn leiti úr landi sem leitt geti til vaxtahækkunar.``
    Virðulegi fjmrh., þegar viðskrh. eins lands, sem er yfirmaður Seðlabankans á Íslandi vegna sérkenna íslenskrar stjórnskipunar --- sem tíðkast nú reyndar ekki víða --- tilkynnir formlega að fyrir höndum sé verulegt fjárstreymi úr landi, skýrir það með því að ekki séu nógu góð vaxtakjör sem bjóðast á Íslandi, lýsir því skýrt yfir að fjárstreymið muni leiða til vaxtahækkunar, þá er auðvitað alveg ljóst að það er ekki bara markaðurinn í húsbréfunum, ekki bara salan á bréfum Húsnæðisstofnunar ríkisins, heldur einnig ummæli viðskrh. sjálfs sem sýna það greinilega að 5% vaxtamark ríkisstjórnarinnar er hrunið.
    Ég vil þess vegna biðja hæstv. fjmrh. að tjá sig um þessi ummæli viðskrh. og biðja viðskrh. að útskýra þau nánar í þingsalnum. Vegna þess að eftir allt það sem hefur verið sagt á undanförnum dögum um vaxtamálin og ríkisfjármálin er auðvitað óhjákvæmilegt að hæstv. viðskrh. standi fyrir máli sínu á þinginu.
    Svo bætist inn í þessa mynd að í ljós hefur komið að gjaldeyrisvarasjóðurinn hefur hrunið um fjórðung það sem af er ársins. Gjaldeyrisvarasjóður Íslendinga hefur hrunið um fjórðung. Í upphafi ársins var gjaldeyrisvarasjóðurinn um 31 milljarður. Hann hefur lækkað og gjaldeyrisforði landsmanna þar af leiðandi minnkað um 8 milljarða. Fjárstreymið úr landi, sem viðskrh. var að spá að mundi hefjast um næstu áramót, mun þess vegna óhjákvæmilega hafa það í för með sér ef ekkert verður að gert að gjaldeyrisforðinn haldi áfram að minnka. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. viðskrh. og hæstv. fjmrh.: Ætla þeir ekkert að aðhafast ef horfur eru á því eins og viðskrh. hefur lýst yfir að fjárstreymi verði úr landi um áramót og gjaldeyrisvarasjóðurinn muni áframhaldandi minnka? Út af fyrir sig er rétt hjá hæstv. fjmrh. að það er gott að greiða niður erlendar skuldir. En það þætti ekki góður búskapur á heimilum að greiða niður skuldir heimilisins eingöngu með því að fara í þann helga heimilissjóð sem fjölskyldan hefði geymt sér vegna skyndilegra áfalla. Gjaldeyrisforði landsmanna, gjaldeyrisvarasjóðurinn, er til þess að mæta skyndilegum áföllum í búskap okkar Íslendinga sem hæglega geta orðið hjá þjóð sem býr við fiskveiðar, hugsanlegan aflabrest, eða skyndilegar verðsveiflur á erlendum mörkuðum. Það sýnir ekki traustleika efnahagsstefnunnar að láta það gerast að gjaldeyrisvarasjóðurinn minnki á þennan hátt.
    Það er vont að virðulegur fjmrh. skuli vera í símanum en ég skil vel að hann þurfi að fara í símann undir þessari umræðu. Það er alveg greinilegt að hann hefur ekki hugsað sig það í gegnum þessi mál að hann þurfi að hlaupa til og leita til aðstoðarmanna sinna til að geta staðið fyrir svörum í þingsalnum. En ég hélt að eftir allt sem ráðherrann er búinn að segja að hann væri með þetta á hreinu. ( FrS: Ég var að reyna að hringja í borgarstjórann í Reykjavík.) Hringja í borgarstjórann í Reykjavík? ( Gripið fram í: Það þýðir nú ekki að leita í sjóðina þar, þeir eru ekki til staðar.) Fjmrh. lét birta þessa auglýsingu hér. ,,Nú getur þú fjárfest í ECU á Íslandi.`` Hér er mynd af myndarlegri belju sem ég kallaði svo hér í ræðustólnum og taldi vera erlenda en var svo upplýstur af forseta Búnaðarfélagsins að væri íslensk. Það er rétt að hafa það á hreinu. En auglýsingin er mjög merkileg og útgáfa ECU-bréfanna er mjög merkileg. Það sýnir satt að segja skortinn á umræðu um fjármál á Íslandi að þetta skuli ekki hafa orðið tilefni til verulegrar umræðu í fjölmiðlum og annars staðar að fjmrh. gefur út þessi bréf. Eins og ég vék að áðan eru kjörin á bréfunum þannig að eigi fjárfestar að kaupa þau en ekki fara inn á önnur bréf sem fjmrh. er að bjóða á um 5% þá verður annað tveggja að vera fyrir hendi: Annaðhvort að yfirvofandi sé breyting á gengi íslensku krónunnar, sem gerir bréfin hagstæð þegar fram í sækir, eða að fjmrn. er að spá 3,5% verðbólgu á Íslandi til að vega upp muninn sem er á þessum vaxtakjörum og þeim sem fjmrn. býður að öðru leyti. Nú spyr ég hæstv. fjmrh.: Hvers vegna ákvað ríkissjóður að gefa út ECU-bréfin? Hvers vegna ákvað ríkissjóður að gera það með þeim hætti að annað tveggja verður að vera, breyting og þá gengisfelling á íslensku krónunni, eða aukin verðbólga, til að þetta séu hagkvæmir pappírar í samanburði við aðra sem eru hér á markaði? Eða er það þannig að Lánasýsla ríkisins, helstu ráðgjafar fjmrh. í peningamálum, séu líka komnir í hóp seðlabankastjórans, líka komnir í hóp Húsnæðisstofnunar, líka komnir í hóp markaðarins, sem trúir heldur ekki lengur á 5%-vaxtastefnu ríkisstjórnarinnar? Þess vegna hafa þessir ráðgjafar fjmrh. í Lánasýslu ríkisins mælt með því að bréf af þessu tagi væru gefin út.
    Ég endurtek spurningu mína: Var það með glöðu samþykki hæstv. forsrh. að bréfin voru gefin út eða er það rétt sem heyrst hefur að hæstv. forsrh. hafi lýst óánægju sinni með þessa útgáfu vegna þess að hann skildi sneiðina? Hann skildi það að með formlegri útgáfu bréfanna var fjmrn. að gera að engu yfirlýsingar hæstv. forsrh. um bata, stöðugleika og árangur.
    Virðulegi forseti. Stærsta breytingartalan í því frv. sem hér er til umræðu eru þeir 7 milljarðar sem fjmrn. hefur orðið að greiða vegna þess að 5%-bréf Húsnæðisstofnunar hafa ekki selst.
    Stærstu breytingarnar sem felast í þessu frv. eru þær sem birtast á lánsfjárþörf ríkisins. Allt það,

sem hér kemur fram, yfirlýsingar ráðherranna sjálfra, útgáfa ECU-bréfanna og afstaða markaðarins ber allt að sama brunni. Það 5% vaxtaþak, sem ríkisstjórnin setti sér sem viðmið, er hrunið. Fram undan er þess vegna tími mikillar óvissu þar sem væntingarnar um vaxtahækkun munu einkenna aðgerðir markaðarins og ríkissjóður sjálfur með útgáfu ECU-bréfanna er mættur í dansinn. Viðskrh. sjálfur hefur með yfirlýsingum sínum í gærkvöldi tilkynnt íslenskum fjárfestum að betri vaxtakjör bjóðist erlendis, um áramót verði opnað og öllum gert frjálst að fjárfesta erlendis og þess vegna sé skynsamlegra fyrir íslenska fjárfesta að bíða og búa sig undir að njóta hinna góðu vaxtakjara sem eru erlendis. Auðvitað getur engin ábyrg ríkisstjórn horft upp á, hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskrh., að gjaldeyrisforði landsmanna tæmist vegna þess að um áramótin munu svo margir vilja fjárfesta erlendis og nýta sér þessi góðu kjör. Þegar engin hindrun verður lengur á milli íslenska peningamarkaðarins og hins erlenda er traust manna á íslenskri hagstjórn eina vörnin. Ef það traust er ekki fyrir hendi tæmist gjaldeyrisvarasjóðurinn. Þá streyma peningarnir úr landi og menn fjárfesta annars staðar. Orð ráðherra munu þess vegna ekkert duga í þeim efnum, það eru verkin sem munu tala. Mælingarnar á gjaldeyrisvarasjóðnum á næstu mánuðum verða þess vegna skýr ábending um það hvaða álit menn hafa á vaxtastefnu ríkisstjórnarinnar.