Fjáraukalög 1994

15. fundur
Miðvikudaginn 19. október 1994, kl. 15:09:01 (590)

[15:09]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. að verðbólga mæld í framfærsluvísitölu hafi í 12 mánuði engin verið. En í fjárlagafrv. og þjóðhagsyfirliti og þjóðhagsspá kemur greinilega fram, og þetta er sýnt í fjárlagafrv., að spáð er að lánskjaravísitalan hækki um 2,5% á næsta ári. Það þykir mjög lágt. ECU-bréfin eru til fimm ára. Hefur hv. þm. nokkurn tímann heyrt talað um verðbólgu erlendis? Veit hann um það að verðbólga erlendis er meiri en hér? Veit hann að ECU-bréfin taka mið af meðalgengi annarra gjaldmiðla en íslenskra? Og veit hann það að spariskírteinin eru gefin út verðtryggð? Um hvað er hv. þm. að tala? Við ræddum þetta um daginn og meira að segja heyrði ég ekki betur en hv. þm. sem ég ræddi við þá skildu þetta. Nú kemur hv. 8. þm. Reykn. og upplýsir það að hann skilji ekki muninn á þessu. Þegar vextir á ECU-bréfum eru um 8,54 til 8,56 eru það svipaðir vextir og bjóðast á mörkuðunum í kringum okkur og koma engum á óvart enda er verðbólga þar en íslensku spariskírteinin eru gefin út verðtryggð. Ég vona að hv. þm. skilji þetta. Enda þótt verðbólga sé 0% hér mælt af framfærslu 12 mánuði aftur í tímann, þá er það svo að það er spáð að lánskjaravísitalan breytist um 2,5% og þykir mjög lágt. Því miður er óvissa fram undan vegna kjarasamninga, vegna kosninga. Ég hélt að hv. þm. mundi eftir árinu 1991 þegar það gerðist að viðskiptajöfnuðurinn var ekki í jafnvægi eins og nú, eins og í fyrra og eins og hann verður á næsta ári, heldur safnaði þjóðin upp 20 milljarða skuld. Þannig var skilið við hjá þeirri stjórn.