Fjáraukalög 1994

15. fundur
Miðvikudaginn 19. október 1994, kl. 15:11:01 (591)

[15:11]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það verður að segja fjmrh. til hróss að þegar sannleikurinn er reiddur fram og blekkingarleikur ríkisstjórnarinnar tættur í sundur þá skiptir hann skapi og það er manndómur að því. Þessi ræða hæstv. fjmrh. var samfelld röksemdafærsla fyrir því að 5% vaxtaviðmiðun ríkisstjórnarinnar væri hrunin vegna óvissunnar í kjaramálum, vegna óvissunnar í efnahagsmálum, vegna spár um hækkun lánskjaravísitölu og fleiri þátta sem hæstv. fjmrh. reiddi hér fram. Og vegna þess að markaðurinn er ekki tilbúinn að kaupa 5% verðtryggðu bréfin varð ríkissjóður að búa til þessa uppfinningu. Ef markaðurinn hefði verið tilbúinn að trúa orðum fjmrh. þá gat hann auðvitað haldið áfram að gefa út spariskírteinin með 5% vöxtunum. Hvers vegna gerði fjmrh. það ekki? Var það bara vegna þess, svo maður noti nú það orðalag sem annars staðar var notað um annað tilefni, að menn vildu hafa ,,varíasjónir í sexúallífið`` vegna þess að eina röksemd fjmrh. sé að þetta væri til að auka fjölbreytnina? (Gripið fram í.) Ríkissjóður leikur sér ekki að því að auka fjölbreytni í ríkispappírum. Hann gerir það af illri nauðsyn vegna þess að gömlu pappírarnir seljast ekki. En það er hins vegar athyglisvert að þrátt fyrir það að hæstv. fjmrh. hafi komið upp hér tvisvar og farið mikinn þá hefur hann ekki svarað einu orði, hinu atriðinu sem ég spurði um. Það var spurningin um afstöðu hæstv. forsrh. til útgáfu ECU-bréfanna. Ég spurði að því hvort hæstv. forsrh. hefði verið sáttur við þessa útgáfu, hvort hann hefði lýst sérstakri ánægju með útgáfu þessara ECU-bréfa eða hvort það sé rétt sem heyrst hefur að hæstv. forsrh. hafi verið óánægður með þessa útgáfu. Það var auðvitað mjög athyglisvert að hæstv. fjmrh. forðaðist að nefna það einu orði. ( Fjmrh.: Þetta er þingmaður sem segir sex.)