Héraðsskólinn að Núpi

16. fundur
Fimmtudaginn 20. október 1994, kl. 10:40:14 (603)

[10:40]
     Ágústa Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um málefni héraðsskólans að Núpi en hún er á þskj. 52. Flm. eru Jóna Valgerður Kristjánsdóttir og Kristinn H. Gunnarsson. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela menntmrh. að skipa nefnd til að gera tillögur um framtíð Núpsskóla í Dýrafirði. Í nefndinni eigi sæti fulltrúar menntmrn. og heimamanna. Nefndin skili tillögum fyrir 1. mars 1995.``
    Virðulegi forseti. Rekstur héraðsskóla hefur verið á undanhaldi hin síðari ár. Sú staðreynd að flestir grunnskólar reyna nú að bjóða fram kennslu í efstu bekkjum grunnskólans í heimabyggð hefur valdið því að sífellt fækkar þeim nemendum sem sækja það nám í héraðsskólum. Vegna nemendafæðar var hætt við að reka Héraðsskólann að Núpi haustið 1992. Ekki hefur verið gerð tilraun til þess að taka þann rekstur upp að nýju. Staðurinn hefur skipað veglegan sess í skólastarfi í landinu og þar er mikill og góður húsakostur í eigu ríkisins sem stendur ónotaður. Það ætti að vera hagur ríkissjóðs að nýta hann sem best. Því er mikil nauðsyn á að Alþingi láti málið til sín taka og finni skólanum verkefni að nýju. Þar kemur ýmislegt til greina, svo sem skólastarf í nýjum búningi, skólabúðir í einhverju formi, námskeiðahald ýmiss konar eða leigja aðstöðu til ferðaþjónustu eða fyrirtækjarekstrar. Á sl. sumri var húsnæði skólans leigt til hótelrekstrar og virðist hafa gefist vel. Það skiptir miklu að nýta þessar eignir og halda þeim við. Það er allra hagur og getur einnig skapað ný atvinnutækifæri. Tillaga þessi var flutt á síðasta þingi en hlaut ekki afgreiðslu og er nú endurflutt óbreytt.
    Á síðasta þingi var málinu vísað til hv. menntmn. Nefndin sendi tillöguna til umsagnar hjá ýmsum aðilum og ætla ég hér, með leyfi forseta, að vitna í nokkrar þær umsagnir sem nefndinni bárust. Þá er fyrst að telja umsögn Bandalags ísl. sérskólanema þar sem framkvæmdastjórnin lýsir stuðningi sínum við tillöguna og bendir á að húsnæði húsmæðraskólans á Varmalandi var nýlega falið Kennaraháskóla Íslands til afnota sem mun nota það húsnæði til þess að þjóna fjarskóla við skólann, nýrri deild við skólann.
    Kvenfélagasamband Íslands telur æskilegt að skólaminjasafni verði fundinn staður, t.d. á gömlu virðulegu skólasetri eins og Núpsskóla. Ferðamálaráð Íslands fjallaði um málið og fékk jákvæða umsögn

og benti á að hugsanlega gæti húsnæði skólans komið að gagni við vaxandi uppbyggingu ferðaþjónustu á Vestfjörðum. Menningar- og fræðslusamband alþýðu fjallaði einnig um málið allítarlega og telur rétt að tillagan verði samþykkt. Samband ísl. sveitarfélaga mælir með því að þáltill. verði samþykkt. Svo er einnig með ferðamálasamtök Vestfjarða og ferðamálasamtökin telja brýnt að umrædd nefnd verði skipuð sem fyrst. Kennarafélag Kennaraháskóla Íslands telur mikilvægt að svo þekktu skólasetri og verðmætum eigum ríkisins verði fundið verðugt viðfangsefni og lýsir því fylgi við tillöguna.
    Að lokum er hér umsögn Kennarasambands Íslands sem tekur undir þessa tillögu, enda er mikilvægt að reisa þetta menntasetur til nýrrar virðingar og finna því ný verkefni og um leið nýta ágætan húsakost og aðstöðu sem þar er fyrir hendi.
    Af framansögðu er ljóst að tillögunni hefur verið afar vel tekið af umsagnaraðilum og vænti ég þess að tillagan fái að þessu sinni fullnaðarafgreiðslu þingsins.
    Ég vil að loknum þeim umræðum sem hér verða um málið leggja til að tillögunni verði vísað til síðari umr. og hv. menntmn.