Þingfararkaup alþingismanna

16. fundur
Fimmtudaginn 20. október 1994, kl. 11:28:06 (616)

[11:28]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég vil bara taka undir efni þessa frv. Það er alveg sjálfsagt mál að ganga frá því tryggilega með lögum ef brögð eru að menn, mér liggur við að segja, leggist svo lágt að taka út full biðlaun, sem þeir eiga að vísu rétt á að gildandi lögum að talið hefur verið, þó þeir séu komnir í annað og jafnvel betur launað starf, jafnvel hjá hinu opinbera. Úr því að fordæmi eru orðin fyrir því að þetta hefur gerst þá er sjálfsagt ekki um annað að ræða en taka af skarið um þetta mál í lögum. Reyndar hygg ég að það hafi verið óslitin venja allt þangað til ónefndur flokksbróðir hv. flm. braut þessa venju fyrir nokkrum árum síðan. ( GE: Við erum ekki í sama flokki.) Ég sé ekki betur en flm. séu allir úr einum flokki, ónefndum Sjálfstfl. Það mun hafa gerst sá dapurlegi atburður fyrir nokkrum árum síðan að ónefndur flokksbróðir þessara hv. þm., flm. frv., braut þá hefð sem verið hafði að ef menn gengju beint yfir í önnur jafn vel launuð eða betur launuð opinber störf þá þægju menn að sjálfsögðu ekki sín biðlaun, tækju þau ekki út. Mér er kunnugt um að þá veltu menn því fyrir sér hvort stætt væri á því að synja um greiðslu biðlauna þegar þannig stæði á en það mun hafa orðið niðurstaða lögfræðinga að á því væri ekki stætt ef viðkomandi einstaklingur krefðist þessa réttar síns að fá greidd biðlaun engu að síður þó hann væri kominn í annað jafnvel opinbert starf, þess vegna betur launað. Þessi varð sem sagt hin dapurlega niðurstaða, að þetta gerðist, jafnvel í fleiri en einu tilviki, nú er mér ekki alveg kunnugt um það. Ég veit, sem betur fer, að síðan eru önnur fordæmi fyrir hinu gagnstæða. Nægir þar að nefna að hv. fyrrv. þm. og hæstv. fyrrv. ráðherra, Steingrímur Hermannsson, lýsti því yfir opinberlega þegar hann lét af þingmennsku og gerðist bankastjóri hjá Seðlabankanum, að að sjálfsögðu mundi hann ekki þiggja biðlaun við þær aðstæður ( Gripið fram í: Jón Sigurðsson.) og einhverjir fleiri munu hafa lýst hinu sama yfir á síðustu árum. En hin dapurlegu dæmin eru fyrir hendi og úr því svo er þá er ég sammála hv. flm. um að það er öllum fyrir bestu að taka þarna af skarið, vegna þess að það getur ekki verið ætlunin að biðlaunarétturinn sé fyrir hendi ef menn eru að ganga inn í önnur jafn vel eða betur launuð störf, sem geta talist sambærileg eða jafntrygg hvað atvinnuöryggi eða annað því um líkt snertir. Sjálfsagt má segja með fullum rökum að atvinnuöryggi manna aukist að miklum mun við það að gerast opinberir starfsmenn samkvæmt ráðningakjörum, réttindum og skyldum sem þar gilda, borið saman við að vera starfandi stjórnmálamenn.
    Það er að vísu svo að það vakna vissar tæknilegar spurningar eða praktískar í sambandi við það hvernig á að afmarka takmörkun þessara réttinda. Hér er valin sú leið að biðlaunarétturinn skuli falla niður ef alþingismaður taki við starfi í þjónustu ríkis, sveitarfélags eða fyrirtækis, sem að meiri hluta er í eign ríkisins. Ég ætla ekkert að útiloka að þetta sé sú skilgreining sem er skárst í þessum efnum. Það vakna þó vissulega spurningar um hvort til að mynda eigi að ráða þarna úrslitum að hlutafélag --- þetta velti á því hvort hlutafélag sé að meiri hluta, 51% eða meira, í eigu ríkis eða ekki. En auðvitað er þarna á ferðinni ákveðinn vandi, skilgreiningarvandi, sem mér er alveg ljós. Það hefur væntanlega verið mat flutningsmanna að það þýddi ekki að reyna að koma þessu við gagnvart ráðningarkjörum sem eru á almenna vinnumarkaðnum hjá einkafyrirtækjum, þó manni hefði auðvitað fundist það að mörgu leyti réttast. En það er einnig nauðsynlegt, held ég, að hafa vissa hliðsjón af skilgreiningu biðlaunaréttarins eins og hann er í öðrum lögum, til að mynda lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Þar er lagt upp úr því að rétturinn sé til staðar ef ráðningarkjör, atvinnuöryggi og annað því um líkt er ekki algjörlega sambærilegt á nýja vinnustaðnum. Þessa deilu þekkja menn úr umræðu hér um einkavæðingu fyrirtækja og eru væntanlega dómsmál í gangi, ef ég man rétt, sem tengjast því hvort biðlaunarétturinn sé til að mynda virkur eftir sem áður þó að eingöngu eigi sér stað formbreyting á opinberu fyrirtæki, það verði hlutafélag í stað venjulegs ríkisfyrirtækis áður. Auðvitað getur vel verið að nauðsynlegt sé að hafa hliðsjón af því sem þar verður ákvarðað með dómi í samhengi við annað.

    Ég vil svo nota tækifærið, hæstv. forseti, úr því að þessi ágæta, merka löggjöf um þingfararkaup er komið hér á dagskrá á annað borð að segja þá skoðun mína, að það er eiginlega ekki vansalaust að ekki skuli hafa tekist að ná fram heildarendurskoðun á þeim lögum. Hún er afar brýn. Lögin eru í raun og veru algerlega úrelt eins og þau eru í dag. Þau taka mið af allt öðrum þjóðfélagsháttum og allt öðrum aðstæðum, allt öðruvísi starfsemi Alþingis, heldur en því sem tíðkast í dag. Þau eru sniðin að miklu skemmri starfstíma þingsins og fleiru slíku sem við þingmenn þekkjum og er mikill bagi að því að menn skuli ekki hafa mannað sig upp í það að fara í nauðsynlega og brýna endurskoðun á þessum lögum, sem og reyndar ýmsu öðru sem lýtur að starfskjörum og skilyrðum í þessari stofnun. Það er því kannski borin von að ætlast til þess að sá kjarkur sem hv. 1. flm. sýnir með því að opna þessi mál hér verði öðrum mönnum til eftirbreytni í því að menn haski sér í það að fara í þessa nauðsynlegu endurskoðun. En ég vil alla vega leyfa mér að minna á þetta og vekja á því athygli og vona að það komist þó einhvern tímann af stað einhver vinna í þeim efnum. Menn verða kannski feimnir við það á þessum vetri af ástæðum sem ég þarf ekki að nefna, en staðreyndin er náttúrlega sú að það dugar ekki endalaust að þessi stofnun, hið virðulega Alþingi Íslendinga, sé svo spéhrætt og óttist svo mjög allar umræður um sjálft sig og sín störf og starfsskilyrði og aðstæður, að menn slái endalaust á frest öllum úrbótum eða nauðsynlegri þróun mála sem lúta að starfsskilyrðum, kjörum, réttindum, vinnuaðstæðum og öðru slíku sem hér á þinginu er.
    Ég óttast ekkert ef sú umræða færi fram á heiðarlegum og hreinskiptum nótum og væri kynnt með eðlilegum hætti og bærist út í þjóðfélagið með eðlilegum hætti, að þá hefði almenningur í landinu ekki skilning á því að auðvitað hlýtur löggjöf, starfsskilyrði og starfsaðstæður hér í þessari stofnun að þurfa að þróast eins og annað í þjóðfélaginu. Ég veit t.d. ekki hvort þjóðinni er það almennt ljóst að hér á þessum stóra vinnustað, þar sem hátt á annað hundrað manns starfa a.m.k., eru t.d. vinnuaðstæður og aðbúnaður að starfsfólki og þingmönnum þannig að það getur auðvitað alls ekki talist sæmandi á vinnustað af þessu tagi, þar sem starfsdagur er oft geipilangur og nálgast að vera eins og hver annar vaktavinnustaður, að það skuli ekki vera til að mynda ein einasta sturta eða búningsaðstaða eða hvíldaraðstaða af nokkru tagi. En það er nú svo að á þeim 11 árum rúmum sem ég hef setið hér þá hefur þetta þjóðþrifamál stundum borið á góma, hvort það væri ekki hugsanlega unnt að koma upp einhverri aðstöðu af þessu tagi fyrir þingmenn, að þeir gætu skipt um föt eða brugðið sér í sturtu, svo ekki sé nú talað um starfsfólkið, sem hér er oft nánast sólarhringunum saman. En menn hafa jafnharðan runnið á rassinn með öll áform um að bæta úr slíku af ótta við að af því hlytist mikil fjölmiðlaumræða, mikill hvellur og það yrði lagt út á hinn versta veg, að þarna væri nú þessum fjöndum rétt lýst, nú ætluðu þeir að fara að mylja undir sjálfa sig með því að útbúa sér slíka aðstöðu.
    Sem sagt, jafnoft og þetta hefur verið tekið upp hefur það verið lagt til hliðar. Svona er nú ástandið. Ég er nú farin að ímynda mér að það verði búið að malbika hraðbrautir á tunglinu áður en fyrsta sturtan lítur dagsins ljós á þessum nefnda vinnustað. Þannig er nú ástandið.
    Ég leyfi mér að nota tækifærið og koma þessu hér að í leiðinni, þessu áhugamáli mínu, að menn hleypi nú í sig svolítilli hörku og kjarki og skoði það til að mynda hvort ekki væri tímabært að hefja aftur starf sem lyti að ýmsum þáttum af þessu tagi. Þá á ég við í báðar áttir, með sama hætti og hér er lagt til, að menn þurfa auðvitað að hafa þessar reglur hófsamar og koma í veg fyrir misnotkun af því tagi sem taka biðlauna af hálfu manna sem komnir eru í önnur og enn betri störf og allt það, en þá sé ekki hinni hliðinni gleymt sem lýtur að því að búa mönnum jafnframt almennileg starfsskilyrði og aðstæður hér. Það er mjög brýnt.
    Ég hefði helst haldið að það væri ráðlegt að reyna að setja einhverja milliþinganefnd eða eitthvert apparat í þetta verkefni og síðan væri þetta lögfest þannig að það tæki svo gildi að undangengnum kosningum fyrir nýtt þing sem tæki til starfa, þannig að menn væru í þeim skilningi ekki að ákveða þetta sjálfum sér til handa heldur þeim sem yrðu hér starfandi í framtíðinni. Það var unnið mjög merkt starf að því að endurskoða og bæta hér starfsskilyrði þingmanna á ákveðnu tímabili og þess hefur séð stað í ýmsum greinum, m.a. undir forustu hæstv. fyrrv. forseta sameinaðs þings, þess sem nú stýrir fundi, og forvera þess forseta og eiga þeir þakkir skildar fyrir það. Þá urðu til að mynda ýmsar framfarir í starfsemi þingnefndanna og ýmsum aðbúnaðarmálum. En ýmislegt er samt óunnið og nú held ég að það sé aftur orðið tímabært að fara yfir þau mál og sinna þeim og þar á meðal að endurskoða þessi lagaákvæði, sem er löngu tímabært.
    Ég hef svo ekki um þetta fleiri orð, hæstv. forseti, en ítreka að ég er sammála efni þessa frv. og tel sjálfsagt mál að það fái hér afgreiðslu. Það hefur að vísu stundum viljað brenna við að hv. 1. flm. hefur þurft að flytja mál sín nokkuð oft til að fá þau afgreidd, jafnvel þótt hann hafi haft við þau víðtækan stuðning, samanber hið fræga frv. hans um lánskjör og ávöxtun sparifjár, sem hv. þm. hefur flutt hér af mikilli eljusemi árum saman og með mörgum þungavigtarmeðflutningsmönnum, en ekki náð afgreiðslu að síður. En ég vona að þetta litla mál fái nú að njóta þess heiðurs að verða afgreitt á þessu þingi.