Þingfararkaup alþingismanna

16. fundur
Fimmtudaginn 20. október 1994, kl. 11:43:30 (618)

[11:43]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Lágkúrulegur ótti við almenningsálitið eru orð hv. þm. sjálfs, ég viðhafði þau ekki. ( TIO: Þú gafst það í skyn.) Ekkert svoleiðis. Ég sagði að ég teldi að spéhræðsla þessarar stofnunar væri of mikil og hún óttaðist að ef einhver mál af þessu tagi bæri á góma, yrðu fréttnæm, þá yrði af því fjölmiðlahvellur og menn bogni undan slíku. Ég er þar ekkert að tala um einhvern lágkúrulegan ótta einstakra þingmanna við almenningsálitið. Það er alger misskilningur, ég var að tala um stofnunina sem slíka, Alþingi. Við verðum nefnilega að átta okkur á því að jafnt og við erum sem þingmenn og einstaklingar pólitískar verur í sjálfu sér, þá er Alþingi Íslendinga líka stofnun eins og hver önnur í fyrirtækinu og lýtur ákveðnum lögmálum sem slík, hefur starfsemi með höndum, þarf aðstöðu og aðbúnað. Það eru jú stjórnendur stofnunarinnar og við þingmenn sem berum þar ábyrgð á.
    Ég er að sjálfsögðu ekki að tala hér um neinn lúxus eða bruðl eða óhófssemi í kröfugerð fyrir hönd Alþingis, síður en svo, og það er rétt sem hv. þm. segir, að auðvitað þurfum við að skera mörgum öðrum aðilum í þjóðfélaginu allt of þröngan stakk. Vorkenni ég þó kannski öðrum meir heldur en ýmsum stofnunum, þá meina ég almenningi í landinu og þeim sem lakasta hafa stöðuna. Staða Alþingis er auðvitað sérstaklega viðkvæm í þessum efnum, þar sem hér liggur fjárveitingavaldið. Það er alveg augljóst mál að þetta hlutverk er mjög vandmeðfarið. Að vera annars vegar að skammta öðrum aðilum rekstrarfé og fjárveitingar en þurfa hins vegar að taka ákvarðanir um eigin aðstöðu og rekstur. Það er nú einu sinni sá kaleikur, það hlutskipti sem Alþingi hefur í lífinu og verður að axla þá ábyrgð. Ég er ekki meðmæltur því að menn fari einhverjar krókaleiðir, að búa til kjaradóm eða eitthvað því um líkt sem skuli ákveða hvað eigi að gera á Alþingi og hvort það megi kaupa stóla eða borð. Auðvitað verða menn að hafa kjark í sér og manndóm í sér og treysta sjálfum sér til þess að taka skynsamlegar og hófsamlegar ákvarðanir í þeim efnum.
    Ég segi líka á hinn bóginn að Alþingi má ekki vanmeta sjálft sig eða lítillækka með því að búa svo illa að sér hvað starfsaðstæður snertir að í því felist í raun og veru lítilsvirðing við það starf sem hér fer fram. Ég held við verðum að þora að búa þinginu sæmilegar aðstæður og ég er viss um að við höfum stuðning þjóðarinnar til þess því hún vill búa sómasamlega að Alþingi, hófsamlega að sjálfsögðu en sómasamlega.