Þingfararkaup alþingismanna

16. fundur
Fimmtudaginn 20. október 1994, kl. 11:46:16 (619)

[11:46]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil biðja hv. þm. velvirðingar á því ef ég hef haft of sterk orð um þetta en hann endurtók þau ummæli sín að það væri spéhræðsla þingsins sem réði því að hér væri um að ræða að við þyrðum ekki að standa að eðlilegum úrbótum á aðstöðu þingsins. Ég held að þetta sé líka misskilningur, ég held að það sé ekki spéhræðsla sem þessu ræður, það sem mestu ræður um það að þingið hefur ekki treyst sér til þess að taka á þessum aðstæðum er að við búum almennt við samdrátt í þjóðfélaginu og þingið verður að taka afleiðingunum af því eins og aðrir. Ég vil ekki halda því fram hér og nú að þingið búi við aðstæður sem séu lítillækkun við þingið, það finnst mér of langt gengið. Ég get vel hugsað mér betri aðstæður og þegar betur árar í þjóðfélaginu get ég vel hugsað mér að taka þátt í því með hv. þm. að bæta aðstöðu þingsins en það er fyrst og fremst þessi aðstaða sem við búum við núna. Við búum við samdráttartíma og þingið verður að taka þátt í því að lifa við þær aðstæður eins og aðrir í þjóðfélaginu.