Lánskjör og ávöxtun sparifjár

16. fundur
Fimmtudaginn 20. október 1994, kl. 12:11:56 (626)

[12:11]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram hér að ég met það við hv. þm. að hann hefur alltaf verið mjög glöggur á hin neikvæðu áhrif sem vísitölutrygging verðskuldbindinga hafði í för með sér. Hann hefur alltaf verið mjög glöggur á þessi neikvæðu áhrif og þau hafa vissulega verið margvísleg. En hinu er ekki að neita að vísitölutryggingin hafði þó áhrif á sparnaðinn, óðaverðbólgan hafði haft mjög neikvæð áhrif á ráðdeild hér á Íslandi og sparnað. Og það er ekki hægt að bera á móti því að eftir að þessi ákvæði voru tekin upp með Ólafslögum, þá jókst sparnaðurinn sem var mjög mikilvægt skref í því að efla innlendan sparnað. Og ég vil einnig taka undir það að nú fyrst má segja að séu að skapast aðstæður til þess að koma til móts við baráttumál hv. þm. vegna þess að þjóðfélagið hefur þróast þannig í sínum efnahagsmálum að nú eru aðstæður til þess að afnema lánskjaravísitöluna og ég held þess vegna að aðstæður hafi skapast til að komast til móts við þetta baráttumál þingmannsins.