Lánskjör og ávöxtun sparifjár

16. fundur
Fimmtudaginn 20. október 1994, kl. 12:21:35 (628)

[12:21]
     Flm. (Eggert Haukdal) :
    Virðulegi forseti. Ég bað ekki hæstv. viðskrh. að vera við þessa umræðu og eins og sjá má mætti hann ekki. Hann var við í fyrra og tók þá betur í málið en fyrirrennari hans hafði gert sem var jafnan staður í þessum málum og enda þótt hann sé ekki viðstaddur vona ég að hann fái fréttir af umræðunni og taki við sér í þessu máli. Þar sem hv. 6. þm. Norðurl. e., Jóhannes Geir Sigurgeirsson, formaður efh.- og viðskn., er mættur er í salinn vil ég mega vænta þess að hann taki með meiri rögg á þessu máli heldur en var í tíð fyrirrennara hans, fráfarandi formanns í fyrra. Margir ágætir nefndarmenn í fyrra vildu láta málið ganga fram. Þar á meðal veit ég að hv. þm. var einnig en það gekk nú samt ekki en vonandi gengur það núna.
    Hvernig stendur á því að Seðlabankinn beitir þeim rökum að lánskjaravísitalan sé vernduð af stjórnarskránni? Hvernig kemst hann upp með þetta? Þó er búið að breyta henni, breyta henni til stórtjóns fyrir launþega og kaupgjaldsbreytingar eru færðar inn í vísitöluna. Er þetta ekki líka stjórnarskrárbrot? Þyrfti ekki þessi blessaður Seðlabanki, sem er yfir öllu hér á landi, að skoða röksemdafærsluna hjá sér í þessum málum?
    Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu. Ég vona að hlutir gangi nú þannig fram að hv. nefnd taki rösklega á málinu og afgreiði málið inn til þingsins og menn fái að taka afstöðu í málinu.