Atvinnuleysistryggingar

16. fundur
Fimmtudaginn 20. október 1994, kl. 12:48:20 (632)


[12:48]
     Flm. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir 50. máli, frv. til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar. Flutningskonur ásamt mér eru hv. þingkonur Guðrún J. Halldórsdóttir, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir og Kristín Einarsdóttir.
    Lagt er til með þessu frv. að eftirfarandi breytingar verði á 18. gr. laganna:
    a. 1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Sá sem gengst undir starfsþjálfun, stundar endurmenntun eða sækir námskeið til þess að öðlast hæfni í starfi sínu eða til að stunda ný störf nýtur á meðan atvinnuleysisbóta ef atvinnuleysi hefði skapað honum rétt til slíkra bóta þegar starfsþjálfun, endurmenntun eða dvölin á námskeiðinu hófst, enda njóti hann ekki launa, námslána eða námsstyrkja.
    b. 4. málsl. 1. mgr. orðast svo: Úthlutunarnefnd krefur bótaþega um sannanir um þátttöku hans á hverju missiri samkvæmt framansögðu.
    c. 5. málsl. 1. mgr. fellur brott.
    2. gr. Við 2. málsl. 5. mgr. 22. gr. laganna bætist: enda stundi hann ekki aðra endurmenntun, sbr. 18. gr.
    Frv. þetta var flutt á 117. löggjafarþingi en kom ekki til umræðu. Það var lagt fram sama dag og annar hv. þm., hv. 5. þm. Norðurl. e., lagði fram frv. í svipaða veru en hvorugt þeirra komst á dagskrá vegna þess hve langt var liðið á vorið. Hv. þm. hefur nú endurflutt sitt frv. og ég held að ég geti sagt að það sé samkynja að því leyti til að tilgangurinn er sá sami en útfærslan nokkuð með öðrum hætti. Ég geri því ráð fyrir að þegar hv. félmn. tekur málið til umræðu, eins og ég mun biðja um að verði gert með þetta frv. og hefur verið gert þegar með frv. hv. 5. þm. Norðurl. e., þá muni vera tekið tillit til þess að þarna er um tvö efnislega svipuð frv. að ræða. Hins vegar hefur verið valin kannski ögn ítarlegri leið í því frv. sem ég mæli hér fyrir.
    Fyrirkomulag atvinnuleysisbóta hefur verið mjög til umfjöllunar í kjölfar þess vaxandi atvinnuleysis sem við höfum mátt horfa upp á á undanförnum árum. Atvinnuleysi mælist nú um 3,5% og er mjög misjafnt raunar eftir landshlutum. Það merkir að hér á landi er um nokkur þúsund manns að ræða sem ganga atvinnulaus og þetta fólk býr við mjög misjafnar aðstæður.
    Með breytingum á lögum um atvinnuleysistryggingar á sl. ári var stigið skref í átt til þess að auka svigrúm atvinnulausra til að afla sér frekari menntunar og starfsþjálfunar á meðan atvinnuleysi varir. Það tel ég að hafi verið mjög heilladrjúgt. Sá böggull fylgdi þó skammrifi að aðeins var heimilt að sækja námskeið, starfsþjálfun og aðra endurmenntun í átta vikur á hverju ári. Er það varla í takt við þann veruleika sem atvinnulausir búa nú við. Það hlýtur að vera öllum til hagsbóta, jafnt atvinnulausum sem samfélaginu í heild, ef atvinnuleysistíminn er nýttur til endurmenntunar, námskeiða eða starfsþjálfunar. Ekki verður séð hvaða rök eru fyrir því að takmarka þessa heimild við átta vikna námskeið ef önnur skilyrði fyrir töku atvinnuleysisbóta eru uppfyllt.
    Í skýrslu hv. fyrrv. félmrh. um rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis, sem lá fyrir 117. löggjafarþingi, kemur m.a. fram að atvinnuleysi er útbreiddast hjá þeim hópum sem minnsta menntun hafa og hjá yngra fólki fremur en hinu eldra. Því er eðlilegt að opna þeim möguleika á námi og starfsþjálfun eftir því sem kostur er. Einnig kemur fram í sömu skýrslu að um það bil 70% atvinnulausra hafa áhuga á starfsnámi og 4% þeirra eru í starfsnámi. Þarna ber býsna mikið á milli. Áhuginn er mestur í yngstu aldurshópunum og höfðu um 80% þeirra sem eru yngri en 40 ára áhuga á starfsnámi en aðeins um 30% hinna eldri. Af þessu má ráða að slíkt nám sé líklegt til að nýtast þeim atvinnulausa um langan tíma eftir að hann hefur lokið námi og fengið vinnu.
    Ég er í hópi þeirra sem telja að við á Íslandi eigum ekki að sætta okkur við neitt sem kallað er eðlilegt atvinnuleysisstig. Við eigum ekki að sætta okkur við þá sýn sem ungt fólk í Evrópu hefur að allt of stór hluti þess muni þurfa að búa við atvinnuleysi í framtíðinni. Þannig er gengið út frá því að það fólk sem hér er lagt til að eigi kost á því að stunda nám meðan á atvinnuleysi stendur sé að búa sig undir vinnu í framtíðinni.
    Í frv. þessu er gert ráð fyrir að unnt verði að stunda nám á grunnskólastigi, framhaldsskólastigi og annað nám sem úthlutunarnefnd metur í eitt missiri í senn á meðan atvinnuleysi varir. Atvinnulausir geta ekki á sama tíma þegið námslán eða námsstyrki og notið atvinnuleysisbóta samkvæmt frv. og gerir það ekki ráð fyrir að lánshæft nám sé stundað. Verulegur munur er á stöðu þeirra sem stunda nám á meðan á atvinnuleysi stendur og annarra námsmanna. Atvinnulausir geta ekki hafið nám fyrr en þeir eru komnir á atvinnuleysisbætur og þurfa að uppfylla öll sömu skilyrði og aðrir sem þiggja atvinnuleysisbætur. Þeir sem stunda nám meðan atvinnuleysi varir eru þar með að nýta tíma, sem er flestum mjög erfiður, til jákvæðrar uppbyggingar jafnframt því að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði. Markmiðið er að auka tækifæri þeirra sem eru þegar atvinnulausir til að nýta tímann á sem uppbyggilegastan hátt sér og sínum til hagsbóta.
    Þetta finnst mér mikilvægt að komi hér fram vegna þess að að ósekju held ég að atvinnulausir séu stundum vændir um það að nýta sér atvinnuleysið. Þetta finnst mér mjög furðulegur hugsunarháttur. Ég get ekki ímyndað mér að þeir séu margir ef nokkrir sem velja sér það að vera atvinnulausir og búa við þau kjör sem atvinnulausum eru búin hér á landi. Mér finnst þetta því nokkuð sérkennilegt. En til að taka af öll tvímæli er þessu þannig fyrir komið hér að ekki er hægt á nokkurn hátt að opna fyrir neina misnotkun á þessu kerfi og það tel ég fulla ástæðu til að taka hér með.
    Frv. gerir ráð fyrir að endurskoðað verði á hverju missiri hvort hinn atvinnulausi uppfylli þau skilyrði bótaréttar að stunda nám eða starfsþjálfun. Ef atvinnuástand batnar á meðan á námi stendur er með þessum hætti unnt að miða endurkomu hins atvinnulausa á vinnumarkaðinn við að ekki verði óeðlilegt rof á námi hans. Þannig gefist honum kostur á að ljúka sem svarar eins missiris námi áður en hann hefur á ný virka atvinnuleit. Beri atvinnuleit ekki árangur og atvinnuástand batnar ekki er hægt að bæta við öðru missiri og meta stöðuna á nýjan leik í lok þess.
    Með frv. er aðeins stigið eitt skref af mörgum sem nauðsynleg eru í átt til virkari nýtingar atvinnuleysisbóta. Framkvæmd þessara breytinga hefur ekki verulegar breytingar í för með sér á núverandi löggjöf og ætti að vera tiltölulega auðvelt að koma þeim í kring. Þær ættu því að gagnast þeim sem þegar eru á atvinnuleysisskrá án þess að þeir þurfi að bíða eftir þeirri uppstokkun sem óhjákvæmilega þarf að gera á atvinnuleysisbótakerfinu. Í fyrrnefndri skýrslu fyrrv. félmrh. er hreyft nokkrum hugmyndum í þá veru og einnig sé ég sérstaka ástæðu til að vekja athygli hugmyndum Jóns Erlendssonar hjá Upplýsingaþjónustu Háskólans um ,,virkar`` atvinnuleysisbætur.
    Varðandi athugasemdir við einstakar greinar frv. þá vísa ég til greinargerðar og athugasemdar við frv. og treysti því að hv. félmn., sem ég legg til að fái þetta frv. til umfjöllunar að lokinni þessari umræðu, fjalli um þetta á ábyrgan hátt og reyni að hrinda því í framkvæmd á þann hátt sem hér er lagt til að gert verði.
    Að þessu mæltu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og félmn.