Fréttaflutningur ríkissjónvarpsins af verðmun á landbúnaðarvörum

16. fundur
Fimmtudaginn 20. október 1994, kl. 13:48:39 (639)

[13:48]
     Hjálmar Jónsson :
    Virðulegi forseti. Þessa umræðu vil ég gjarnan þakka, hún er tímabær sannarlega. Undanfarið er því haldið að fólki og hefur verið haldið að fólki að hagkvæmt sé að leita inngöngu í Evrópusambandið, það muni lækka verð á neysluvöru hér innan lands. En hér margt fleira að athuga. Svo undarlegt sem það nú er þá kemur það þannig fram að bandarískir kjúklingar verði til þess að ályktun sé dregin af því að það sé heppilegt að ganga í Evrópusambandið. Hlutina þarf að skoða betur og það eru aðrar fréttir sem eru mér miklu hugleiknari. Það eru fréttir frá Finnlandi, áhyggjur Finna af þeirri byggðaröskun sem verður núna vegna inngöngunnar í ESB sem fram undan er hjá þeim og það eru sömu áhyggjur hjá Norðmönnum og Svíum, það eru áhyggjur af því að byggðaröskun verði mikil af þessum ástæðum. Bændasamtökin í Noregi eru afar andvíg þessari inngöngu. En hitt er annað mál að vissulega er verð á landbúnaðarvörum á Íslandi hátt og það þarf að lækka, en þó er óvíst að það lækki við þetta.
    Ísland þyrfti að greiða um 5 milljarða til sameiginlegra fjárlaga Evrópusambandsins. Um það bil helmingur þess fjár er talið að fengist til baka í styrkjum til landbúnaðar og þó ekki víst samkvæmt orðum hæstv. landbrh. hér áðan. Ekki veit ég hvort fólk hefur gert sér grein fyrir því hvaðan þeir fjármunir eiga að koma. Það er reiknað með að einn tekjustofn til að ná þessum 5 milljörðum sé innflutningsgjöld af landbúnaðarvörum, takið eftir því, innflutningsgjöld af landbúnaðarvörum. Hvað segir það okkur um markað fyrir íslenskar búvörur? Hvað segir það um matvælaiðnaðinn á Íslandi? Munum við ekki sjá fram á sömu rústirnar og þeir hafa áhyggjur af í okkar nágrannalöndum fyrir landbúnaðinn, fyrir matvælaiðnaðinn og fyrir byggðina í löndunum?