Fréttaflutningur ríkissjónvarpsins af verðmun á landbúnaðarvörum

16. fundur
Fimmtudaginn 20. október 1994, kl. 13:59:15 (644)

[13:59]
     Egill Jónsson :
    Virðulegi forseti. Ég hef nú ekki hugsað mér að taka hv. þm. Guðna Ágústsson mér til fyrirmyndar í eggjaáti, enda kom það greinilega fram að það á a.m.k. ekki vel við þegar menn ætla að fara að hefja hér umræður þar sem maðurinn stóð svo áþreifanlega á blístri hér eins og raun bar vitni um. En fyrir þá sem ekki skilja hvað um er að ræða eins og hv. 5. þm. Austurl. þá vildi ég mega benda á þær staðreyndir sem hafa komið fram í þessari umræðu og eru tilefni hennar.
    Í fyrsta lagi er það framkoma ríkissjónvarpsins sem kom þrívegis fram í þessari umræðu með þá staðhæfingu að munur á matarverði á Íslandi og í Bandaríkjunum væri 150%.
    Í öðru lagi voru það viðbrögð Alþfl. sem gerðu þessa niðurstöðu í máli viðskrh. að sinni niðurstöðu og sögðu að þarna væri fengin skýringin á þeirri hagkvæmni sem í því fælist að spara fyrir íslenska neytendum 5--6 milljarða með því að ganga inn í Evrópubandalagið.
    Í þriðja lagi er það svo umræðan sem hér hefur farið fram, m.a. skýringar landbrh. sem byggjast á þeirri vinnu sem hefur farið fram í landbrn. og er faglegs eðlis. Það er auðvitað ekkert einkennilegt þótt hv. 5. þm. Austurl., alþýðuflokksmaðurinn Gunnlaugur Stefánsson, vilji ekki skilja tilefni að þessari umræðu þar sem hún m.a. upplýsir með svo greinilegum hætti hlut Alþfl. í umræðunni.
    Ég fagna því að hafa átt þess kost að koma þessu málefni hér á framfæri. Ég þakka undirtektir þingmanna og lýsi yfir ánægju minni með þá niðurstöðu sem hér hefur fengist.