Aðgangur almennings að þingskjölum og umræðum á Alþingi

16. fundur
Fimmtudaginn 20. október 1994, kl. 14:20:07 (651)


[14:20]
     Flm. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um aðgang almennings að þingskjölum og umræðum á Alþingi. Flm. auk mín eru hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Sigbjörn Gunnarsson og Svavar Gestsson.
    Tillögutextinn hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþingi ályktar að stefnt skuli að því að þingskjöl og umræður á Alþingi verði opin almenningi í tölvutæku formi. Sömuleiðis tölvutexti laga og lagasafns, reglugerða, EES-samnings, alþjóðasamninga og skjala sem varða almenning. Aðgangur að þessum upplýsingum verði ekki gjaldfærður.``
    Tillaga þessi var flutt á 117. löggjafarþingi en kom ekki til umræðu þá vegna annríkis á vordögum.
    Kveikjan að þessari tillögu er auðvitað nokkuð augljós. Sífellt verða meiri framfarir í tölvuvæðingu og full ástæða er til þess að nýta þær framfarir til þess að draga úr pappírsaustri sem er umhverfismál og þar að auki oft og tíðum mjög óþarfur. Með þessari tillögu er ekki verið að tala um að hætt verði að gefa út Alþingistíðindi, þingskjöl eða umræður heldur benda á að margar stofnanir og jafnvel einstaklingar gætu mjög vel nýtt sér að vera frekar áskrifendur að þessum gögnum í tölvutæku formi og nýta þá tækni sem er til þess að færa á milli heldur en að hlaða upp í hillur hjá sér heftum sem e.t.v. eru aldrei lesin og aldrei ástæða eða þörf á að lesa.
    Alþingi Íslendinga og störf þau, sem þar eru unnin, eru snar þáttur í þjóðlífinu. Það finnum við sem hér störfum að oft þarf að miðla upplýsingum þaðan. Stór hluti þjóðarinnar hefur möguleika á að fylgjast með þingfundum í beinni útsendingu á sjónvarpsrás, að vísu er sú útsending nú skert, og þingskjöl og umræður á Alþingi eru prentuð og gefin út og þannig aðgengileg hverjum sem skoða vill. Áskrifendur að Alþingistíðindum eru u.þ.b. 800. Oftast eru áheyrendur á þingpöllum og á stundum eru þeir þéttsetnir. Umfjöllun um störf Alþingis er mikil í fjölmiðlum en eðli þeirra samkvæmt verður slík umfjöllun alltaf háð vali blaða- og fréttamanna.
    Samkvæmt ákvæðum 57. gr. stjórnarskrárinnar og 69. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, skulu þingfundir haldnir í heyranda hljóði nema annað sé sérstaklega ákveðið. Ekki hefur reynt á heimild til að loka þingfundum sl. 49 ár, eða frá 1945. Því er óhætt að fullyrða að stefnan sé sú að allur almenningur eigi sem greiðasta leið að þeim umræðum sem þar fara fram og þeim þingskjölum sem fyrir þinginu liggja hverju sinni. Í 88. gr. þingskapalaga eru ákvæði um prentun og útgáfu þingskjala og umræðna, svo og atkvæðagreiðslna í Alþingistíðindum, og er þeim framfylgt á þann hátt að allir þingfundir eru skráðir nema þeim hafi verið lokað samkvæmt fyrrnefndum ákvæðum en á það hefur sem fyrr segir ekki reynt í hartnær 50 ár.
    Tölvutækni fleygir sífellt fram. Mikil uppbygging hefur orðið á tölvukerfi Alþingis á undanförnum árum. Frá árinu 1989 hafa flest þingskjöl á Alþingi verið tiltæk í tölvutæku formi jafnóðum og þau eru lögð fram og umræður að jafnaði innan fárra daga. Tilgangur þessarar tillögu er sá að mörkuð verði sú stefna í uppbyggingu tölvukerfis Alþingis að unnt verði að gefa almenningi kost á að tengjast gagnagrunninum. Er það eðlilegt framhald af þeirri stefnu sem fylgt hefur verið að almenningur eigi greiða leið að upplýsingum um þinghald, þingskjölum og umræðum. Aðgangur að þingskjölum með hjálp tölvu og mótalds getur aukið möguleika fólks á að fá nánari upplýsingar um mál sem liggja fyrir þinginu, t.d. þegar fjölmiðlar fjalla um einstök þingmál í stuttu máli. Flestir þingmenn og starfsfólk Alþingis kannast líklegast við óskir fólks um frekari upplýsingar um þingmál sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum eða manna á meðal. Því má ætla að allnokkur hópur einstaklinga, stofnana, félaga og fyrirtækja hefði áhuga á að geta flett upp í þingskjölum og umræðum um einstök þingmál með tölvutengingu við gagnagrunn Alþingis, þ.e. ræðupart og skjalapart. Enn fremur yrði opnaður aðgangur að lagasafni, alþjóðasamningum og reglugerðum sem nú er einungis hægt að nálgast á prenti. Notkun á þessum gögnum yrði að því leyti til gagnlegri fyrir neytandann að hann gæti nýtt sér ýmsa uppflettimöguleika tölvutækninnar. Þannig opnaðist leið til að afla margvíslegra gagna um einstaka málaflokka á einfaldan og fljótlegan hátt.
    Það er ljóst að ýmsir einkaaðilar hafa hug á því að fylla inn í það skarð sem nú er fyrir hendi og bjóða hluta af þessari þjónustu og þá væntanlega fyrir borgun. Við flm. þessarar þáltill. teljum eðlilegra að það sé skýlaus réttur þeirra sem búa í samfélaginu að hafa aðgang að þessu án þess að þurfa að horfa í annan kostnað en að koma sér upp búnaði, og það er raunar ærinn kostnaður, og síðan það afnotagjald sem notkunin óhjákvæmilega hefur í för með sér, þ.e. símalína og afnotin af henni. Það er í rauninni hluti sem heyrir kannski frekar til lýðræðiskröfu en nokkru öðru að fólk eigi greiðan aðgang að upplýsingum sem varða alla í samfélaginu.
    Um þessar mundir er verið að vinna að því að veita alþingismönnum tölvuaðgang að þeim upplýsingum sem hér um ræðir. Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Alþingis er unnt að vinna það verk á þann hátt að aðgangur að gögnunum sé opnaður fyrir almenning jafnframt því sem hann nýtist þingmönnum. Þannig þarf ekki að efna til aukakostnaðar vegna opnunar gagnasafnsins fyrir notendur utan Alþingis.
    Þess má geta að almenningur á Íslandi á nú þegar kost á að fá aðgang að þingskjölum og umræðum á Bandaríkjaþingi með hjálp tölvu og mótalds og dæmi eru um að menn nýti sér það.

    Raunar var það kveikjan að flutningi þessarar tillögu að til mín kom maður sem sagði að sér þætti afskaplega skrýtið að hafa greiðari aðgang að umræðum og þingskjölum á Bandaríkjaþingi heldur en á Íslandi. Mér þótti það svo umhugsunarvert að þannig varð með góðra manna hjálp þessi tillaga til. Ég þakka jafnframt þann stuðning og þær undirtektir sem ég fékk, bæði við vinnslu og eins þegar ég aflaði mér meðflm. en þeir komu úr öllum flokkum svo sem ljóst má vera. Að þessu leyti held ég að þetta sé slíkt umhugsunarefni að við verðum í rauninni að nýta það lag sem nú er.
    Jafnframt má, eins og ég gat í upphafi máls míns, ætla að tölvutenging geti dregið að einhverju leyti úr óþarfa pappírsnotkun þar sem einhverjir munu án efa kjósa tölvutengingu í stað áskriftar að Alþingistíðindum. Einnig má búast við því að það dragi eitthvað úr eftirspurn eftir þingskjölum og ljósritun umræðna. Þannig sparast bæði vinna og pappír. Ég get ekki stillt mig um að vísa til útreiknings sem varðar aðra opinbera stofnun. Það er SKÝRR sem hélt ráðstefnu þann 10. maí sl. um skjalaflæði og skjalastjórn en þar kom fram að 15% launakostnaður hjá þeirri stofnun er vegna skjalaleitar starfsmanna. Engin hliðstæð mæling er til vegna skjalaleitar starfsmanna Alþingis, en ég held að það sé alveg full ástæða til að taka þessar tölur alvarlega og jafnvel að reyna að áætla um hvað er að ræða á Alþingi. Sparnaður SKÝRR við ljósritun og skjalaleit borgar upp það kerfi sem þar er verið að taka upp á einu ári. Sparnaðurinn er áætlaður um 3 millj. kr. á ári en þar er einmitt verið að reyna að nýta sér tölvutækni til þess að draga úr óþarfa skjalaaustri og skjalanotkun.
    Ætla má að af þessu fyrirkomulagi geti með tímanum orðið verulegur vinnusparnaður hjá Alþingi og Stjórnarráði. Pappírslaus viðskipti eru að ryðja sér mjög til rúms en ekki skiptir minna máli að upplýsingamiðlun stjórnvalda sé sem hagkvæmust. Flutningsmenn leggja til að aðgangur að upplýsingunum verði ekki gjaldfærður eins og ég gat um áðan. Það er ekki síst vegna þess að nokkur kostnaður er af þessu fyrir notandann en sparnaður hins vegar fyrir þann sem veitir upplýsingarnar alveg tvímælalaust eins og þær tölur sem ég rakti hér gefa til kynna.
    Það er skoðun flutningsmanna að Alþingi eigi að gefa gott fordæmi í þessum málum og gögn þess verði opnuð almenningi sem fyrst, þ.e. á vordögum 1995. Það er ekki óraunhæf áætlun og því legg ég áherslu á að fljótt og vel verði tekið á þessu máli í þeirri nefnd sem ég mun leggja til að taki málið til umfjöllunar.
    Ég vil einnig geta um það vegna þess að alls staðar úti í þjóðfélaginu er verið að fjalla um sömu eða hliðstæð mál að samtenging bókasafna, sem fjallað var um á annarri ráðstefnu þann 6.--9. sept. í haust, getur veitt aðgang að 25 millj. bóka. Meðal þess sem kom fram á þeirri ráðstefnu og tengist raunar örlítið þeirri tillögu sem hér er til umfjöllunar er að með þeim tölvukerfum og margmiðlunarkerfum sem núna eru smátt og smátt að komast í notkun er hægt að skoða öll opinber gögn tengd ævi Franklin Roosevelts Bandaríkjaforseta, skoða ræður sem hann hefur skrifað og meira að segja eins og hann skrifaði þær með eigin hendi. Það er hægt að hlusta á hann flytja þær. Við erum ekki svo rausnarleg í þessari tillögu að við viljum að það sé hægt að veita slíkan aðgang, að það sé hvenær sem er hægt að kveikja á gömlum umræðum hér en hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér og hver veit hver áhuginn verður á því. Við höfum alla vega hér og nú möguleika á þessu. Ég held að þetta sé fyrst og fremst dæmi um hvað hægt er að gera. Það er hægt að fletta samkvæmt þessum aðferðum í gegnum skjalasafn frá forsetatíð Roosevelts og skoða hvað hann var að gera frá degi til dags. Ég veit ekki hversu langt Íslendingar munu kjósa að ganga í þessum málum og ég held að ekki sé hægt að réttlæta það að farið verði út í að nýta tæknina tækninnar vegna vegna þess að það sé svo gaman að gleyma sér í þeim möguleikum sem tæknin býður upp á. En ég held að það verði á hverjum tíma að hugsa fyrir því hvaða tækni er nothæf og hvernig verður hægt að nýta þá tækni á sem ódýrastan og bestan hátt. Möguleikarnir eru óþrjótandi og tæknilega séð er ekkert því til fyrirstöðu að ganga mjög langt í þessu. Því held ég að það skref sem lagt er til að verði stigið með samþykkt þessarar tillögu, sem ég vona að verði á þessu þingi, sé a.m.k. byrjunarskref sem ég tel mjög mikilvægt og í anda þess sem við viljum um opna umræðu á Alþingi og aðgang almennings að gögnum.
    Að lokinni þessari umræðu legg ég til að þessari tillögu verði vísað til síðari umr. og hv. allshn.