Vantraust á ráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar

17. fundur
Mánudaginn 24. október 1994, kl. 20:44:28 (656)

[20:44]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Sá kvittur gengur hér um húsið, vonandi rangur, að stjórnarflokkarnir treysti sér ekki í atkvæðagreiðslu um vantrauststillögu þá sem hér er til umfjöllunar af ótta við að einhverjir stjórnarþingmenn muni nota tækifærið til þess að ítreka vantraust sitt á einstökum ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Það liggur í loftinu að ríkisstjórnin muni flytja frávísunartillögu við vantraustið í kvöld. Það hlýtur að merkja, ef satt er, að þeir óttist að einhverjir ráðherrar ríkisstjórnarinnar njóti ekki trausts meiri hluta þingheims. Það er því grundvallaratriði að fá úr því skorið hér í kvöld hvort allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa fullt umboð til starfa, ekki síst er það brýnt í ljósi nýjustu fregna. Engin keðja er sterkari en veikasti hlekkur hennar. Ríkisstjórnin er slík keðja, ráðherrarnir hlekkirnir. Í kvöld var ætlunin að kanna styrk hennar. Komi menn í veg fyrir að hann verði kannaður þá hlýtur það að merkja að ástandi keðjunnar sé alvarlega áfátt. Kannski hafa hlekkirnir ryðgað í takt við það að sumir ráðherrar eru farnir að ryðga í siðferðinu. Kannski hefur keðjan einfaldlega slitnað í takt við það tengslaleysi sem er á milli oddvita ríkisstjórnarinnar í stærstu sem smæstu málum. Það væri e.t.v. í lagi ef við værum að tala um eitthvert brotajárn á öskuhaugunum. En það er þessi ríkisstjórn ekki orðin á haugum gleymskunnar, ekki enn a.m.k. Við erum að tala um það hvort við getum treyst þeirri keðju sem á að halda þjóðarskútunni við akkeri á meðan óveður atvinnuleysis og versnandi lífskjara næðir um hana. Ef við gerum það ekki getur hana rekið í strand og þá þýðir ekkert að segja að menn hafi haldið að keðjan héldi.
    Ryðgað siðferði ráðherra hefur birst okkur í ótal myndum. Við heyrum daglega ný dæmi af vafasömum embættisverkum þeirra, augljósum eða lítt duldum, nýjum eða gömlum. Flokksbræðrum er skipað á jöturnar svo tugum skiptir. Ekki hefur verið auglýst staða í utanrrn. síðan 1991, þ.e. fyrsta ár þessarar ríkisstjórnar, utan ein sérfræðingsstaða. En á sama tíma hefur hæstv. utanrrh., Jón Baldvin Hannibalsson, raðað alþýðuflokksmönnum í helstu störf þar, stundum við lítinn fögnuð ýmissa þingmanna samstarfsflokksins.
    Ég efast um að utanrrh. njóti trausts þingmeirihluta eftir embættisfærslur liðins sumars. Væri ekki rétt að fá að láta reyna á það?

    Ryðgað siðferði hefur einnig birst í því að stöðuveitingar hafa byggst á geðþótta einstakra ráðherra. Eru þar hæstv. menntmrh., Ólafur G. Einarsson, og núv. félmrh., Guðmundur Árni Stefánsson, kræfastir. Í einu tilviki a.m.k. var það aðeins spurning um klukkustundir hvort embættisfærsla stæðist stjórnsýslulög. Á sama tíma og erlendir ráðherrar víkja þegar minnsti vafi leikur á hæfni þeirra í starfi þá sitja íslenskir starfsbræður þeirra sem fastast.
    Starfshæfni ríkisstjórnarinnar hefur á rökstuddan hátt verið dregin í efa. Hæstv. forsrh. lét orð falla sem ekki var hægt að skilja á annan hátt en að hann treysti ekki hæstv. utanrrh. fyrir utanríkismálunum. Það er skynsamlegt út af fyrir sig. Hann dró í land í orði en ég spyr: Treystir hann í raun hæstv. ráðherra eitthvað frekar í Evrópumálunum nú heldur en fyrr í haust?
    Karp og klögumál ganga á víxl milli ráðherra í stórum málum sem smáum, m.a. í mikilvægum vaxtamálum.
    Loks hlýt ég að nema staðar við hæfni þessarar ríkisstjórnar til að stjórna landinu. Hún er engin enda erum við ekki hér að ræða hvort verið sé að sigla þjóðarskútunni á fengsæl mið heldur hvort unnt verði að koma í veg fyrir að hún strandi er akkerisfestarnar bresta. Ríkisstjórnin skilur við þjóðina í óvissu atvinnuleysis, geigvænlegra skulda heimilanna og stóraukinna álagna á lágtekjufólk í formi skatta og annarra gjalda, jafnvel fyrir lífsnauðsynlega læknishjálp og lyf. Við getum ekki sætt okkur við nema eina niðurstöðu hér í kvöld og hún er sú að ríkisstjórnin fari frá.
    Ráði heilbrigð skynsemi og umhyggja fyrir þjóðinni atkvæðum manna hér í kvöld þá kvíði ég ekki niðurstöðunni, þá mun stjórnin falla. Muni ríkisstjórnin hins vegar halda í sér líftórunni með því að fá vantrauststillögunni vísað frá er það enn ein sönnun þess að hún er vanhæf og margir brestir eru í þeim einingum sem halda henni saman. Væri ríkisstjórnin flugvél og ráðherrarnir vélarpartar fengi hún ekki skoðun vegna skemmdra vélarhluta. Þá yrði henni ekki hleypt á loft. Eigum við að halda áfram í vetur vegna þess að ríkisstjórnin neitar að fara í skoðun? Ég segi nei. --- Góða nótt.