Vantraust á ráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar

17. fundur
Mánudaginn 24. október 1994, kl. 20:49:44 (657)


[20:49]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Málatilbúnaður sá sem hér er hafður í frammi af hv. stjórnarandstöðu er einstakur í þingsögunni og reyndar fordæmislaus í þeim þingum sem við þekkjum best til og lúta sömu lögmálum og Alþingi Íslendinga.
    Tæpum mánuði eftir að Kvennalistinn boðar vantrauststillögu er tillagan loksins flutt af stjórnarandstöðunni allri, nokkrum dögum eftir að stjórnarandstaðan hafði óskað eftir vantraustsumræðu án vantrauststillögu. Eftir þennan langa meðgöngutíma, undirbúning og aðdraganda tekst svo illa til að tillöguflutningurinn er allur í skötulíki og ekki í neinu samræmi við venjuhelgaðar formreglur þingsins og reyndar stórkostlega á skjön við allt sem þekkist í þeim efnum.
    Hér á landi eru tveir kostir fyrir hendi telji menn sig knúna til að flytja vantrauststillögu á þinginu. Annars vegar að flytja vantraust á ríkisstjórnina í heild ellegar vantraust á einstaka ráðherra. Með vantrausti á ríkisstjórnina í heild er leitast við að ganga úr skugga um hvort viðkomandi ríkisstjórn hafi starfhæfan meiri hluta að baki sér og um leið að koma til skila pólitískum sjónarmiðum stjórnarandstöðunnar. Mjög varlega og sparlega er farið í flutning á vantrauststillögum á þinginu eins og kunnugt er.
    Tillaga um vantraust á einstaka ráðherra er allt annað mál og sýnu alvarlegra. Samkvæmt ótvíræðri þingvenju, bæði hér á landi og annars staðar þar sem menn byggja á sams konar stjórnskipun og hér er gert, er slíkt vantraust ekki flutt nema flm. telji að viðkomandi ráðherra hafi gerst sekur um stórkostlega og óverjandi framgöngu, annaðhvort viljandi eða af gáleysi í embættisfærslu sinni. Svo miklir annmarkar séu á tiltekinni embættisfærslu hans að hann teljist af þeim sökum óhæfur til að gegna ráðherrastarfi. Vantrauststillaga á einstakan ráðherra verður því aldrei flutt af pólitískri léttúð eða leikaraskap einum eins og virðist mega lesa úr skýringum flm. sjálfra á þeim tillöguflutningi sem þeir standa fyrir hér.
    Í vantrauststillögu á einstakan ráðherra felst þungur persónulegur áfellisdómur um viðkomandi ráðherra og er því um að ræða slíkt alvörumál að fátítt er að stjórnarandstaða standi fyrir slíku. Þannig hefur vantrauststillaga á einstakan ráðherra aldrei verið flutt í Danmörku sem býr við sömu þinghefðir og við búum við og aðeins einu sinni hér á landi á lýðveldistímanum. Þá var flutt vantrauststillaga á ráðherra en þó eingöngu á starfssviði ráðherrans sem hinar umdeildu embættisathafnir féllu undir.
    Eins og ég hef hér gert grein fyrir þá er reginmunur á tillögum vantrausts á tiltekinn ráðherra vegna málsmeðferðar hans í tilteknu ráðuneyti og á tillögu um vantraust á ríkisstjórnina. Af þessu leiðir að það er fráleitt að flytja í einu lagi vantraust á ríkisstjórn og vantraust á einstaka ráðherra. En það er ekki nóg með að slíkt sé gert heldur stendur stjórnarandstaðan fyrir tillögum um vantraust á ríkisstjórnina, að hennar eigin sögn, og tillögum um vantraust á níu einstaka ráðherra vegna starfa þeirra í öllum ráðuneytum ríkisstjórnarinnar nema einu, ráðuneyti Hagstofu Íslands. Með því er gefið til kynna að hver einasti ráðherra

sé persónulega vanhæfur til að gegna starfi í öllum þeim ráðuneytum sem tilnefnd eru og þar með gefið í skyn að þeir hafi gerst sekir um svívirðilega háttsemi eða embættisafglöp sem brjóti gegn lögum eða skráðum eða óskráðum siðferðisreglum í öllum þessum ráðuneytum.
    Ef nokkurt vit væri í þessum tillöguflutningi eða nokkur minnsti grundvöllur væri fyrir honum hlytu menn að halda að nú væri komið upp hneyksli aldarinnar, jafnvel allra alda, í stjórnmálalífi landsins og reyndar þess heimshluta sem við byggjum. Þess væri að vænta að nú biðu menn í óttablendnum spenningi eftir því að þau miklu voðaverk sem leiddu til slíks málatilbúnaðar eins og hér hefur verið hafður í frammi yrðu afhjúpuð en slíkt hefur ekki gerst. Öðru nær. Tillöguflutningurinn hefur breyst í algjört viðundur. 1. flm. tillögunnar segir opinberlega að stjórnarandstaðan sé ekki í raun að flytja vantrauststillögu heldur að búa til einhvers konar vinsældakosningu í þinginu og gefur meira að segja í skyn að hugsanlegt sé að stjórnarandstaðan muni ekki greiða atkvæði með sinni eigin vantrauststillögu í tilfelli einstakra ráðherra. Ég hlýt að vekja athygli áheyrenda á öllu þessu furðuverki. Með öðrum orðum, í einhverju alvarlegasta atriði sem snertir starfshætti hvers þings þá er því atriði breytt í vinsældakosningu að sögn flm. sjálfs sem bætir því við að jafnvel sé ekki ljóst að flm. sjálfir styðji í öllum atriðum þá tillögu sem þeir flytja.
    Í raun tók ekki betra við þegar 2. flm. tillögunnar, nýkjörinn þingflokksformaður Framsfl., tók að reyna að skýra þennan ótrúlega málatilbúnað. Hann var að vonum spurður af fjölmiðlafólki hvað einstakir ráðherrar hefðu til saka unnið að nú væri gripið til þess einstaka ráðs að flytja vantraust á þá, ekki einn heldur hvern þeirra fyrir sig, að reyndar hagstofuráðherranum af einhverjum ástæðum undanskildum. Svar þingflokksformannsins nýja var í fullu samræmi við þennan ömurlega málatilbúnað. Svarið var efnislega þetta: Með því að þessir ráðherrar sitja í ríkisstjórn sem stjórnarandstaðan er ósátt við hafa þeir unnið til þess að flutt sé vantrauststillaga á þá hvern fyrir sig. Þetta eru mikil eindæmi.
    Ég tel að þessi tillöguflutningur og málatilbúnaðurinn sé einn samfelldur áfellisdómur um þá sem að honum standa og þeim öllum til stórfelldrar minnkunar. Ef slíkur málatilbúnaður verður liðinn þá hafi virðing og traust Alþingis beðið mikinn hnekki.
    Hæstv. forseti. Það er hreint ótrúlegt hve stjórnarandstöðunni hafa verið mislagðar hendur í vinnubrögðum sínum í þinginu. Dæmi þess eru orðin mörg og æðiáberandi. Ríkisstjórnin og þingmeirihlutinn hafa á undanförnum árum þurft að takast á við mikla efnahagsörðugleika og nú vita allir sem vilja að mikill árangur hefur orðið af starfi hennar. En hver hefur afstaða stjórnarandstöðunnar verið til allra þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin hefur gripið til? Hafa þeir lagt eitthvað jákvætt til mála? Nefna mætti til sögunnar þrjá áfanga á þessari leið. Í tvígang var gripið til umfangsmikilla efnahagsaðgerða og í þriðja áfanga var gerð sérstök atlaga að hávöxtunum sem um langt árabil hafa ætlað að sliga þjóðina. Í bæði skiptin sem gripið var til þessara efnahagsráðstafana sem svo miklum árangri hafa skilað lagðist stjórnarandstaðan þver gegn öllum þessum ráðagerðum. Hún hafði reyndar uppi spádóma, sem fróðlegt væri að lesa yfir þingheimi, um hvað gerast mundi ef efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar gengju fram. Hér átti allt um koll að keyra. Vinnufriði væri stofnað í stórkostlega hættu, fram undan væri óðaverðbólga, víxlgangur verðlags og kauplags sem aldrei fyrr, atvinnuleysið yrði stórkostlegt og ekkert yrði við neitt ráðið. Kröfur voru uppi frá forustumönnum stjórnarandstöðunnar um að nú þegar yrði sett á laggirnar þjóðstjórn eins og gert er þegar neyðar- eða styrjaldarástand blasir við. Jafnvel gæti sú þjóðstjórn haft sér það markmið að sitja í full tvö kjörtímabil til þess að ráða niðurlögum vandans. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar voru gerðar tortryggilegar og reynt var að efna til óánægju og vantrúar á þeim. Einn stjórnarandstöðuflokkurinn, Framsfl., lagðist t.d. alfarið gegn því að skattur á matarkaup almennings yrði lækkaður.
    Allt fór á hinn betri veg, allar spár stjórnarandstöðunnar urðu hrakspár og hégilja. Árangurinn hefur skilað sér hvar sem litið er. Raungengið er hagstæðara íslenskum útflutningsatvinnuvegi en um langan, langan tíma áður. Atvinnulífið er að taka við sér, vaxtarbroddarnir finna að jarðvegurinn hefur verið undirbúinn og framtíðin gefur mikla möguleika. Verðbólgan er með því minnsta sem þekkist í Evrópu. Við greiðum niður erlendar skuldir okkar þrjú ár í röð, eitt af fáum ríkjum vesturheims sem nær slíkum árangri um þessar mundir. Tekist hefur að koma í veg fyrir að fjárlagahalli færi út yfir öll mörk og stöndum við þar betur en aðrar þjóðir í nágrenni okkar.
    Stjórnarandstaðan hefur vissulega fundið að því að fjárlagahalli væri of mikill en samt hefur hún hamast gegn öllum sparnaðarhugmyndum okkar.
    Við heyrðum í 1. flm. þessarar tillögu rétt áðan sem fann öllum sparnaðartillögum allt til foráttu. Þessari ríkisstjórn hefur tekist þrátt fyrir andstöðu stjórnarandstöðunnar að hefta aukningu ríkisútgjalda og skatttekjur ríkisins hafa ekki verið auknar. Atvinnuleysi hefur nú farið lækkandi sem betur fer á undanförnum mánuðum og ljóst er að tekist hefur að koma í veg fyrir að atvinnuleysisvofan æddi hér um landið með svipuðum hætti og hún hefur því miður gert í Evrópulöndunum öllum eða flestum.
    Ríkisstjórnin hefur séð til þess að horfið hefur verið af þeirri Færeyjaleið sem síðasta ríkisstjórn stefndi þjóðinni á og hefur sýnt sig að vera leið til efnahagslegs hruns og glötunar. Þegar ríkisstjórnin greip til aðgerða í framhaldi af umbreytingum á efnahagsmarkaðnum til að stuðla að vaxtalækkun voru einnig hafðar uppi hrakspár. Hin mikla vaxtalækkun væri haldlaus, aðeins væri tjaldað til fárra vikna. Við sáum það á dögunum að formaður Alþb. sem þó vill væntanlega teljast til ábyrgra stjórnmálamanna gerði sitt til þess að reyna að gera vaxtapólitíkina tortryggilega og skapa vaxtaóróleika á mörkuðum. Enginn vafi er á

því að vaxtagrundvöllurinn er traustur. Allar efnahagsforsendur leiða til þess að ekki þarf að spá um að breytingar verða á vöxtum til hækkunar almennt séð á næstu missirum. Þvert á móti sjáum við fram á að vextir í bankakerfi eiga að geta farið lækkandi. Vaxtamunur, sem hefur þurft að vera hár á meðan bankarnir hafa verið að komast í gegnum óreiðu fyrri ára, mun fara minnkandi sem er ómetanlegt bæði fyrir almenning og fyrirtæki.
    Fullyrt var hér í þinginu þegar snarlækkun varð á vöxtum að lækkunin væri ekki raunveruleg. Nú er senn liðið ár frá því að þessi mikli árangur náðist og engin merki um það enn að þar verði breyting á. Í öllum framangreindum efnum voru stjórnarandstöðunni mislagðar hendur svo vægt sé til orða tekið. Hún brást þeim skyldum sem hún hafði við kjósendur sína og landsmenn því stjórnarandstaða á auðvitað að sýna ábyrgðartilfinningu en ekki léttúð og ábyrgðarleysi.
    Hæstv. forseti. Nú nýverið var tilkynnt um það að veitt hefðu verið friðarverðlaun Nóbels vegna friðarþróunarinnar í Mið-Austurlöndum. Ég býst ekki við því að margir séu búnir að gleyma því hve stjórnarandstaðan varð sér hrikalega til skammar þegar utanríkisráðherra Ísraels kom hér í opinbera heimsókn. Stjórnarandstaðan sýndi utanríkisráðherra, nú friðarverðlaunahafa Nóbels, fádæma ókureisti og þurftu íslensk yfirvöld í viðræðum við ráðherrann að reyna að gefa skýringar á því hvernig í ósköpunum stæði á þessari framgöngu stjórnarandstöðunnar. Það var ekki létt verk né ánægjulegt.
    Ég veit að þetta er atburður sem stjórnarandstaðan vill gleyma. En vandinn er sá að með framgöngu sinni varð stjórnarandstaðan ekki eingöngu sjálfri sér til minnkunar heldur varpaði hún einnig skugga á Ísland og Íslendinga. Stjórnarandstaða í öllum löndum veit að hún verður að sýna ábygðartilfinningu. Það eru gerðar kröfur til hennar ekki síður en til annarra. Þegar litið er yfir allan þennan ólánsferil stjórnarandstöðunnar, sem ég hef aðeins nefnt fáein dæmi um, hinn dæmalausa tillöguflutning hér í kvöld, meðferð þeirra í efnahagsmálum, ég tala ekki um framgöngu þeirra í utanríkismálum og það atriði sem ég nefndi sérstaklega, þá þarf ykkur ekki, áhorfendur góðir, að koma á óvart að mér þykir lítið til koma hins sérkennilega tillöguflutnings stjórnarandstöðunnar um vantraust á einstaka ráðherra. Þess vegna flyt ég, hæstv. forseti, eftirfarandi tillögu um rökstudda dagskrá:
    ,,Tillaga til rökstuddrar dagskrár í málinu: Till. til þál. um vantraust á ríkisstjórn Davíðs Oddssonar.
    Frá forsrh.
    Þar sem fram komin tillaga brýtur í bága við starfshætti Alþingis og rótgróna þingvenju samþykkir Alþingi að vísa málinu frá og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.``