Vantraust á ráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar

17. fundur
Mánudaginn 24. október 1994, kl. 21:20:14 (660)

[21:20]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Hafi það hvarflað að einhverjum sem heyrði málflutning þingmanna Kvennalistans áðan að hér væri settur fundur í bæjarstjórn Hafnarfjarðar þá er það misskilningur. Við erum á Alþingi Íslendinga. Forustumenn stjórnarandstöðunnar eru að burðast við að ná samstöðu um flutning vantrauststillögu á ríkisstjórn Íslands en ekki á fyrrverandi bæjarstjórnarmeirihluta í Hafnarfirði. Satt að segja verð ég að segja það alveg eins og er að málflutningur kvennalistaþingmannanna er ekki öfundsverður.
    Hvers vegna geta hv. stjórnarandstæðingar ekki komið sér að efninu? Vilja þeir flytja vantraust á núv. ríkisstjórn fyrir þær sparnaðaraðgerðir í ríkisrekstri sem stjórnarandstaðan hefur hvort eð er í þrjú ár farið hamförum gegn, en hafa þó skilað atvinnulífinu og almenningi afkomubata --- sem lýsir sér m.a. í hverju? Að framfærslukostnaður heimila hefur í fyrsta sinn í lýðveldissögunni ekki hækkað um eina einustu krónu í 12 mánuði. Að erlend skuldasöfnun sem stefndi í hættumörk hefur verið stöðvuð. Að viðskiptajöfnuður þjóðarbúsins við útlönd hefur verið hagstæður þrjú ár í röð upp á 23 milljarða kr. Að skuldir fyrirtækja fara minnkandi. Að afkoma fyrirtækja fer batnandi sem þýðir að við erum að reyna að bægja burt hættu á vaxandi atvinnuleysi og skapa innstæður fyrir bættum kaupmætti. Að hagvöxtur er að glæðast. Og sem betur fer að nýjustu tölur staðfesta að atvinnuleysið er í rénum, 3,2% samkvæmt nýjustu tölum í septembermánuði.
    Varla treysta þeir sér til þess að bera vantraust á okkur fyrir það að hafa lækkað lánsfjárþörf ríkissjóðs, þar með talið húsbréfakerfið, úr 45 milljörðum sem það stóð í 1991 í fjármálaráðherratíð hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, og gerði þá meira en að gleypa allan uppsafnaðan sparnað þjóðarinnar og er kominn niður í 14,5 milljarða þótt nýsparnaður sé um 35 milljarðar. Eða fyrir að lækka ríkisútgjöld að raungildi um 9 milljarða, eða 7%, frá árinu 1991. Eða vilja þeir bera fram vantraust á okkur fyrir að hafa staðið að sparnaðaraðgerðum í heilbrigðismálum sem munu, ef forsendur fjárlagafrv. standast, lækka útgjöld í þeim málaflokki um 10%? Eða ætla þeir að halda því fram enn að þar með hafi kostnaðinum verið velt yfir á almenning í formi þjónustugjalda þegar það er staðfest af Þjóðhagsstofnun að samanlögð útgjöld einstaklinga og hins opinbera til heilbrigðismála hafa lækkað á árunum 1991 til 1993 um 8.000 kr. á hvert mannsbarn í landinu. Já. En er það ekki staðreynd að atvinnuleysi hefur verið verulegt í tíð þessarar ríkisstjórnar eins og hv. þm. Framsfl. nefndu? Jú, vissulega. En verður því haldið fram með nokkurri sanngirni af þeim hv. þm. eða öðrum að ríkisstjórnin hafi ekki gripið til fyrirbyggjandi ráðstafana og hafi ekki náð árangri? Nefnum nokkur dæmi: Samkeppnisstaða útflutnings og samkeppnisgreina hefur ekki verið jafngóð í áratugi á grundvelli stöðugs verðlags. Sköttum og gjöldum var létt af fyrirtækjum. Já, beinlínis til þess að koma í veg fyrir fjöldauppsagnir og til þess að gera hrakspárnar um 15% til 20% atvinnuleysi að hrakspám. Minni lánsfjárþörf hins opinbera og sparnaður í ríkisútgjöldum hefur leitt til vaxtalækkunar sem skilar skuldugum fyrirtækjum og heimilum í landinu 8 milljarða auknu ráðstöfunarfé á ári. EES-samningurinn hefur verið sjávarútveginum og þar með landsbyggðinni lyftistöng til nýrrar markaðssóknar í Evrópu og aukið bæði vinnu og vinnsluvirði í útflutningi. M.a. þess vegna er hagvöxtur að glæðast, m.a. þess vegna sjáum við nú verulega veltuaukningu í almennum iðnaði og í matvælaiðnaði í landinu.
    Á árinu 1991 gerði Þjóðhagsstofnun mat á áhrifum aðildar Íslands að EES-samningnum. Meginniðurstaðan varð sú að aðildin hefði hagstæð áhrif á þjóðarbúskapinn. Áhrifin voru talin samsvara 0,6--1,4% bata í landsframleiðslu sem jafngildir á núverandi verðlagi 2,5--6 milljörðum kr. á ári. Þessi áhrif voru talin koma fram á nokkurra ára bili. Þjóðhagsstofnun metur það nú svo að ekkert hafi enn komið fram sem bendir til að athugun hennar frá árinu 1991 gefi ranga mynd af efnahagslegum áhrifum EES-samningsins þegar við lítum fram á veg.
    En hver var hlutur stjórnarandstöðunnar varðandi þennan mikilvægasta viðskiptasamning þjóðarinnar? Fyrst fór hún hamförum árum saman gegn þessum samningi. Nú er þessi sami samningur hennar helsta haldreipi í samningum og samskiptum við Evrópusambandið. Ég hugsa að þetta sé ekki til álitsauka fyrir stjórnarandstöðuna en ég þakka traustið sem í þessu birtist til utanrrh.
    Já, en þá segja þeir: Er ekki eitthvað hæft í því hjá stjórnarandstöðunni að stefna stjórnarinnar sé, eins og þeir hafa tönnlast á í þrjú ár, landsbyggðarfjandsamleg? Getur nokkur maður haldið því fram að lág verðbólga, traust gengi, bætt samkeppnisstaða sjávarútvegs, lækkun vaxta, afnám og lækkun tolla og bættur markaðsaðgangur fyrir unnar sjávarafurðir, þ.e. atvinnustefna ríkisstjórnarinnar, hafi ekki komið sjávarútveginum og landsbyggðinni til góða jafnt sem öðrum? Vita menn ekki af því að skuldastaða í fyrirtækjum í sjávarútvegi hefur batnað? Þróunarsjóðurinn er þegar farinn að láta til sín taka við fjárhagslega endurskipulagningu og úreldingu í greininni sem mun auka arðsemi og bæta afkomu þeirra fyrirtækja sem hafa staðið af sér áföllin. Smuguveiðar hafa fært mörgum sjávarbyggðum björg í bú. Hlutur krókaveiðimanna hefur verið lagfærður myndarlega og heldur uppi atvinnu í mörgum byggðarlögum. Stærsta átak í samgöngumálum landsbyggðarinnar hefur orðið á þessu kjörtímabili. Sameining sveitarfélaga og stækkun atvinnusvæða hefur styrkt undirstöður atvinnulífsins víða.
    Já, en hvað með hátekjuskattinn, er spurt. Já, hvað með hann? Honum var jú komið á í tíð þessarar ríkisstjórnar en t.d. ekki í tíð svokallaðrar vinstri stjórnar á fyrra kjörtímabili. (Gripið fram í.) Jú, en það tókst ekki, hvorki að koma fram hátekjuskatti né fjármagnstekjuskatti. Og þá spyr ég menn: Fjmrh. sem þá var situr hérna fyrir framan mig og verður að viðurkenna það að þrjú ár dugðu honum ekki til að koma á hvorki hátekjuskatti né fjármagnstekjuskatti. ( ÓRG: Það var af því að Alþfl. neitaði því í öll skiptin.) Virðulegi forseti. Hvers vegna eru hugmyndir sem eru birtar í stefnuyfirlýsingu þessarar ríkisstjórnar um fjármagnstekjuskatt ekki komnar fram eða tillögur ekki komnar fram?
    Það er best að svara því alveg ærlega. Annars vegar er það að menn hafa óttast vaxtahækkunaráhrif skattsins. En það hefur verið meginmarkmið þessarar ríkisstjórnar að skapa forsendur fyrir lækkun vaxta sem reynst hefur besta kjarabót skuldugra heimila og fyrirtækja. Hins vegar hafa menn óttast að skatturinn gæti haft neikvæð áhrif á sparnaðarvilja og sparifjármyndun en aukinn sparnaður er undirstaða þeirrar auknu fjárfestingar sem hv. þm., formaður Framsfl., var að lýsa eftir réttilega til að skapa ný störf og eyða atvinnuleysinu. Ég minni á að hæstv. fyrrv. félmrh. kvað upp úr um það á sínum tíma, þá verandi í þessari ríkisstjórn, að ekki kæmi til álita að samþykkja tillögur verkalýðshreyfingarinnar um 10% nafnvaxtaskatt ef ekki væri um að ræða frítekjumark til þess að hlífa almennum sparnaði. Umfjöllun um þetta mál er alls ekki lokið í ríkisstjórn og þingi er ekki lokið og það er ekki búið að samþykkja vantraust á þessa ríkisstjórn. Menn eru sammála um það við ríkisstjórnarborðið að við skiljumst ekki við þetta mál með þessum hætti heldur freistum þess að láta á það reyna að það verði leitt til lykta á þessu þingi.
    En þá segja þeir: En hefur ekki ríkisstjórnin vegið að velferðinni eins og t.d. hv. 12. þm. Reykv. endurtekur í síbylju um þá ríkisstjórn sem hún átti sjálf sæti í sl. sjö ár? Ég spyr: Ætlar hv. þm. að halda því fram að hún hafi setið sjö ár í fjórum ríkisstjórnum og haft það helst fyrir stafni að vega að velferðarkerfinu? Við sem með henni unnum í ríkisstjórn vitum betur. Við vitum að hv. þm. lét margt gott af sér leiða. Hitt er jafnsatt og rétt að hv. þm. kom því ekki í verk ein og sér og óstudd, til þess þurfti hún stuðning félaga sinna í þingflokki Alþfl. og þingmanna samstarfsflokksins og stundum frumkvæði okkar hinna að tillögusmíð og samningum til þess að greiða fyrir framgangi mála. Eða ætlar hv. þm. að halda því fram að sameiginleg verk okkar í fjórum ríkisstjórnum, ekki síst þau sem voru í verkahring félmrh., hafi ekki orðið til þess að treysta stöðu þeirra sem njóta þjónustu velferðarkerfisins? Skipta 3.826 nýjar félagslegar íbúðir á árabilinu 1987 til 1994 engu máli? Er húsbréfakerfið ekki framför í samanburði við gamla biðraðakerfið sem komið var fjárhagslega í þrot þótt það hafi vissulega aukið skuldir heimilanna? Skipta húsaleigubætur handa láglaunafólki allt í einu engu máli? Skiptir þreföldun fjárframlaga til málefna fatlaðra á árabilinu 1987 til 1995 allt í einu engu máli?
    Virðulegi forseti. Nú beini ég máli mínu til þeirra sem kenna sig við jafnaðarstefnu á Íslandi. Halda menn að rétta leiðin til þess að auka veg og áhrif jafnaðarstefnu á Íslandi sé að freista þess að kljúfa hreyfingu íslenskra jafnaðarmanna sífellt í smærra og smærra?
    Tveir hv. þingmenn á Alþingi Íslendinga, hv. 8. þm. Reykn. og hinn nýi liðsmaður stjórnarandstöðunnar, hv. 12. þm. Reykv., hafa alveg sérstaklega tamið sér að upphefja sjálf sig á kostnað annarra, þ.e. að kalla sjálf sig hina einu sönnu jafnaðarmenn. Aðrir eru þar óheilir. Sérstaklega virðist þeim umhugað um að afflytja og ófrægja verk Alþfl. á undanförnum árum. Alþfl. er gjarnan uppnefndur frjálshyggjuflokkur með hægri slagsíðu eða annað þaðan af verra. Sjálf telja þau sig hins vegar andlega skyld jafnaðarmönnum á Norðurlöndum sem eru jafnvel þeirrar náðar aðnjótandi að teljast sannir jafnaðarmenn.
    Nú vill svo til að sænski jafnaðarmannaflokkurinn er mjög í hávegum hafður og var mikið fagnaðarefni þegar hann vann mikinn kosningasigur fyrir fáeinum vikum og tók við völdum á ný í Svíþjóð. Í ljósi þessa er athyglisvert að heyra hvað leiðtogi sænskra jafnaðarmanna og hinn nýi forsætisráðherra Svía, Ingvar Carlsson, hefur að segja í viðtali við flokksmálgagn sitt um stefnu ríkisstjórnar sinnar. Hann segir á þessa leið:
    Við vorum kosin til þess að útrýma atvinnuleysi og tryggja velferð. Hvernig útrýmum við atvinnuleysi? spyr sænski krataforinginn. Með því að lækka skatta á fyrirtæki og hvetja þau til nýfjárfestinga með skattaívilnunum. Það mun skapa ný störf og auknar tekjur til að standa undir velferðinni. Dugar þetta til að standa undir velferðinni að öðru óbreyttu? Nei. Við þurfum að ganga í Evrópusambandið til þess að skapa okkur ný sóknarfæri, segir sá ágæti mikli janaðarmannaleiðtogi og sanni jafnaðarmaður. En til þess að geta nýtt þessi færi verðum við að vera samkeppnisfærir. Til þess þurfum við að lækka tilkostnaðinn, lækka skattana og lækka launategnd gjöld af atvinnulífinu. Aðeins þannig getum við til langs tíma tryggt næga verðmætasköpun til þess að standa undir velferðinni. Við getum ekki slegið endalaust lán til að standa undir velferðinni, við verðum að vinna fyrir velferðinni, segir leiðtogi sænskra jafnaðarmanna. Nú er von að menn spyrji: Er þetta ekki bara gömul ræða eftir Jón Baldvin? Nei, þetta er alveg splunkuný ræða eftir Ingvar Carlsson, hinn sanna jafnaðarmann og formann sænskra jafnaðarmanna. Þessi ræða gæti líka verið tekin út úr stefnuyfirlýsingu núv. ríkisstjórnar sem farið er að kenna við hægri slagsíðu og frjálshyggju. Þannig tala menn sem hafa lært þá lexíu að til þess að standa undir verðmætasköpuninni þurfum við að hafa öflugt markaðskerfi vegna þess að aðeins með því að standa þannig að verðmætasköpuninni geta menn borgað þá reikninga sem við þurfum að gera fyrir velferð og samhjálp, svo að ég vitni í annan sannan jafnaðarmann, leiðtoga norska jafnaðarmanna, Gro Harlem Brundtland. Ef þetta, virðulegi forseti, þykir góð latína fyrir jafnaðarmenn í Svíþjóð, hvers vegna þá ekki á Íslandi?
    Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson er þekktur fyrir að skipta litum eftir umhverfinu. Hann getur sagt eitt í Svíþjóð og annað á Íslandi en hingað til höfum við íslenskir jafnaðarmenn þekkt hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að öðru. Það hefur aldrei kunnað góðri lukku að stýra þegar einstakir forustumenn hafa ofmetnast af eigin ágæti og metið það meira en trúnaðinn við sjálft fjöreggið sem er samstaða hreyfingar jafnaðarmanna. Það getum við lært af sárri reynslu úr eigin sögu. Sundrung jafnaðarmanna, skammvinn skyndikynni óánægðra forustumanna á uppboðsmarkaði stundarvinsælda hafa ævinlega endað í brotlendingu og orðið víti til varnaðar. Miklu fleira sameinar okkur en sundrar ef sanngirni og umburðarlyndi gagnvart samstarfsfólkinu nær að ráða ferðinni. Og það er lexía sem við getum lært af sænskum jafnaðarmönnum. --- Takk fyrir.