Vantraust á ráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar

17. fundur
Mánudaginn 24. október 1994, kl. 22:05:51 (668)

[22:05]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Athafnaleysi og ýmsar athafnir hæstv. ráðherra knýja mig til að styðja vantraust á ríkisstjórn og ráðherra. Lögbrot og siðlausar mannaráðningar þar sem ráðherrar hafa verið staðnir að því að hygla gæðingum og einkavinum sínum. Ráðherrar sem kæra sjálfa sig fyrir Ríkisendurskoðun og kóróna svo umræðu og gagnrýni með því að segjast skulu sjálfir setjast niður til þess að semja siðbót fyrir íslenska stjórnmálamenn, þeir fara á sömu stundu úr ráðherrafötum yfir í föt grínleikarans. Þeim ber að víkja. Misréttið er þó stærsta ástæðan fyrir vantraustinu, hæstv. forseti. Fjárlagafrv. boðar nú skattalækkun á hátekjueignamenn upp á 1,1 milljarð meðan bætur til öryrkja og atvinnulausra skulu skertar upp á 850 millj. Vont er ranglæti ríkisstjórnarinnar, verra er þó réttlæti hennar. Ég segi nei.