Málefni Háskóla Íslands

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 13:44:27 (677)

[13:44]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs utan dagskrár um málefni Háskóla Íslands vegna þess að við verðum á hv. Alþingi að fá svör frá hæstv. ráðherra menntamála um hver sé stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum Háskóla Íslands, æðstu stofnunar vísinda og mennta. Það er þeim mun meiri ástæða til að spyrja þessara spurninga nú þegar hæstv. forsrh. talar í hvert skipti sem hann stígur í pontu hér á hv. Alþingi eða nær athygli þjóðarinnar á annan hátt um stórkostlegan bata í efnahagslífinu og þann mesta og besta árangur sem ein ríkisstjórn hafi náð, þ.e. ríkisstjórn hans sjálfs.
    Það þarf engan að undra að háskólarektor gerði að umræðuefni er hann mætti á fund menntmn. að hann sæi einungis svarta þoku í dölum menntmrn., kalskemmdir á Háskóla Íslands þrátt fyrir blóm í haga og betra veður í forsrn. En segjum svo að hæstv. ríkisstjórn trúi því sjálf að ástand þjóðarbúsins sé gott en ætli samt að svelta Háskóla Íslands, þá er málið enn alvarlegra. Þá er hægt að tala um stefnu, stefnu sem gengur út á það að menntun sé lítils virði, það felist ekki fjárfesting í menntun þegnanna, menntun sé bara kostnaður fyrir ríkissjóð.
    Ég tel að þjóðfélagið búi við erfiðar efnahagslegar aðstæður. Hér ríki því miður stöðnun sem hér er að verulegu leyti búin til af núv. hæstv. ríkisstjórn. Þrátt fyrir að hér ríki stöðnun, þá má ekki gera Háskóla Íslands illa starfhæfan og bjóða upp á þá hættu að prófgráður frá skólanum verði ekki teknar gildar. Hvað gera aðrar þjóðir á krepputímum og í auknu atvinnuleysi? Þær auka framlög til háskóla. Þar er það viðurkennd staðreynd að menntun sé eitt besta svarið við atvinnuleysi og aukinni samkeppni þjóðanna.
    Við brautskráningu stúdenta frá Háskóla Íslands sl. laugardag sagði háskólarektor að íslenska menntakerfið væri a.m.k. áratug á eftir nágrannalöndum í þróun og sagði að um 6 milljarða kr. vantaði í þennan málaflokk ef jafna ætti muninn við Norðmenn og Dani. Og viti menn: Hv. formaður menntmn., Sigríður Anna Þórðardóttir er alveg sammála og segir, með leyfi forseta: ,,Menntamálin verða að eiga forgang og ég bendi sérstaklega á að það er beint samband á milli efnahagslegs árangurs og menntunar þjóða þannig að það er alveg hægt að fullyrða það að menntamál eru efnahagsmál.`` Menntamál eru efnahagsmál. Skyldi þetta vera ný uppgötvun hjá hv. þm.? Það hefur allt þetta kjörtímabil verið þeim þingmönnum ljóst sem sitja í hv. menntmn. og eru þingmenn stjórnarandstöðunnar að það sé samband á milli efnahagslegs árangurs og menntunar þjóðarinnar. Það hefur hins vegar verið fljótgert við afgreiðslu fjárlaga öll þessi ár af hv. þm. og öðrum fulltrúum Sjálfstfl. og Alþfl. í nefndinni að skrifa undir menntamálakafla fjárlaganna án athugasemda, niðurskurðinn ár eftir ár. Og hæstv. menntmrh. talar um leiðréttingar. Það er uppáhaldsorð hæstv. menntmrh.
    Háskólamenn boðuðu til fundar í Háskólabíói sl. miðvikudag. Þar kom m.a. fram að á síðustu 7 árum hefur virkum nemendum við Háskóla Íslands fjölgað um 50%. Á sama tíma hefur 1,5% raunlækkun orðið á framlagi til Háskóla Íslands. Og fyrir fjórum árum, þ.e. á fjárlögum ársins 1992, var niðurskurður skólans sem svarar því að öll kennsla í lögfræði, hagfræði og viðskiptafræði hafi verið lögð niður. Síðan hefur orðið raunlækkun á framlögum til háskólans. En kemur þetta þjóðinni eitthvað við? Hæstv. forseti, það kemur þjóðinni við ef próf frá íslenskum háskólum verða ekki tekin gild hjá öðrum þjóðum.
    Eins og fram hefur komið fékk University College í Dublin alvarlega áminningu frá framhaldsdeildum breskra háskóla sem kenna sálfræði vegna þess að 30--40 nemendur voru um hvern kennara í grunnnámi í sálfræði. Í Háskóla Íslands eru 80,6 sálfræðinemar á hvern kennara. Háskólaráð hefur aldrei kveðið jafnfast að orði um stöðu skólans eins og í ályktun sem samþykkt var sl. miðvikudag. Háskólaráð lagði áherslu á tvær spurningar til hæstv. menntmrh. á fundinum í Háskólabíói. Þær voru þessar:

    1. Er það í reynd stefna stjórnvalda að gera Háskóla Íslands að annars flokks háskóla?
    2. Er það stefna stjórnvalda að flytja æðri menntun Íslendinga úr landi?
    Ég tel nauðsynlegt að hæstv. menntmrh. svari þessum spurningum hér á hv. Alþingi. Hér er um að ræða framtíð æðstu stofnunar á sviði vísinda og mennta í landinu. Framtíð hennar er jafnframt framtíð þjóðarinnar.