Málefni Háskóla Íslands

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 13:55:07 (679)

[13:55]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 3. þm. Norðurl. e. fyrir að taka þessi mál fyrir utan dagskrár og segja það að hið alvarlega í þessu máli er kannski sú staðreynd að menntmrh. skilur ekki vandamálið. Ég er alveg viss um að hann er allur af vilja gerður innan marka þess skilnings sem honum er gefinn á málinu. Hinn alvarlegi veruleiki er sá að hann áttar sig ekki á því að Háskóli Íslands er að verða annars flokks háskóli. Hann áttar sig ekki á því að við erum að flytja æðri menntun úr landinu og þar með erum við að breyta stöðu Íslands sem sjálfstæðrar þjóðar því að sjálfstæð þjóð á háskóla með myndarlegar rannsóknir og sambærilega menntun við það sem gerist með háskólum annarra þjóða.
    Á þessu kjörtímabili hefur það verið að gerast að það hafa verið skorin niður framlög til menntamála um 2 milljarða kr. frá árinu 1991. Framlög til grunnskóla um 300 millj. kr. Framlög til Lánasjóðs ísl. námsmanna um verulegar upphæðir og framlög til háskóla og rannsókna um 200 millj. kr. Á árinu 1995 er gert ráð fyrir því að framlög til rannsókna á vegum menntmrn. verði 255,3 millj. kr. Það er í rauninni mjög lág tala og hættulega lág fyrir framtíðarstöðu þjóðarinnar. Vandinn er kannski ekki síst sá að afleiðingin af þessari menntafjandsamlegu stefnu mun ekki birtast þjóðinni fyrr en eftir nokkur ár, þá hugsanlega í lakari lífskjörum, verra efnahagslífi, lakara atvinnustigi en við höfum núna. Þess vegna er vont menntakerfi og það að skera niður fjármagn til þess ákvörðun um að auka skuldirnar í framtíðinni. Þá hluti þarf núv. hæstv. menntmrh. að reyna að skilja.