Málefni Háskóla Íslands

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 14:02:20 (682)

[14:02]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Hér er efnt til umræðu um málefni Háskóla Íslands með stuttum fyrirvara og raunar ekki gert ráð fyrir því að hér verði mikil og efnisleg umfjöllun um það með þeim hætti sem er á þessum umræðum.
    Það hefur staðið nokkuð lengi hér víðtæk barátta við að stöðva sjálfvirkan og sívaxandi útgjaldaauka ríkissjóðs og sívaxandi skuldasöfnun sem staðið hefur af þessum sökum. Ég býst við að fátt sé eins mikið hagsmunamál og þetta mál fyrir unga Íslendinga sem koma til með að þurfa að greiða þessa skuld þegar hún fellur í gjalddaga. Við hvert skref sem stigið hefur verið í þessum efnum hefur stjórnarandstaðan talað um að ríkisstjórnin væri að vinna óhæfuverk. Ríkisstjórnin á að hafa verið að leggja menntakerfið í rúst í þrjú ár. Ríkisstjórnin á að hafa lagt heilbrigðiskerfið í rúst og velferðarkerfið. Auðvitað veit hv. málshefjandi að ekkert af þessu er rétt. Nú er verið að tala um að það eigi að fara að gera Háskóla Íslands, æðstu menntastofnun þjóðarinnar, að annars flokks háskóla. Menn ganga jafnvel svo langt hér að segja að Háskóli Íslands sé að verða annars flokks háskóli. ( JGS: Hverjir segja það?) Ég trúi því ekki. ( SvG: Hverjir sögðu það?) Hv. þm. Svavar Gestsson fullyrti það hér áðan og háskólamennirnir segja þetta sjálfir. (Gripið fram í.) Ég held að það sé mergurinn málsins að Háskóli Íslands er ekki að verða annars flokks háskólastofnun en það er hins vegar mjög alvarlegur hlutur ef menn trúa því að hann sé að verða það.
    Hér er verið að tala um að erlendur samanburður sé mjög óhagstæður okkur. Við verðum að fara mjög varlega í slíkan samanburð. Við megum aldrei gleyma því að Íslendingar í heild, 250 þús., eru álíka fjölmennir og lítið bæjarfélag og ég vil gjarnan taka sem dæmi það bæjarfélag sem stendur á bak við háskólann í Montpellier, en við þann háskóla hefur Háskóli Íslands tengst sérstaklega. Þar eru rúmlega 200 þús. manns sem standa undir því bæjarfélagi. (Forseti hringir.) Við Íslendingar stöndum hins vegar undir alls konar þjónustu, fjölbreytilegri þjónustu, m.a. Alþingi Íslendinga, og við getum ekki miðað við þennan erlenda samanburð í tíma og ótíma. Það er óréttlátt gagnvart því þjóðfélagi sem hér er rekið.