Málefni Háskóla Íslands

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 14:10:05 (685)

[14:10]
     Björn Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Spurningin ,,hefur þjóðin efni á annars flokks háskóla?`` er þess eðlis að svarið við henni hlýtur að vera nei. Háskóli Íslands var stofnaður til þess að hér gæfist menntun sem væri sambærileg við það sem gerist í nágrannaríkjum og á Íslandi væri stunduð vísinda- og menntastarfsemi sem stæðist kröfur í samanburði við alþjóðlegar menntastofnanir. Það er gleðilegt til þess að vita að Háskóli Íslands stenst slíkar kröfur og það er rangt að halda því fram eins og hér hefur verið gert að Háskóli Íslands sé annars flokks stofnun. Nýleg könnun á verkfræðideild háskólans bendir t.d. til þess að hún stenst fyllilega alþjóðlegan samanburð.
    Ég vil láta þess getið, virðulegi forseti, að ég hef tekið þátt í störfum nefndar sem vinnur að því að þróa málefni háskólans og mun skila tillögum nú á næstunni. Og það mun koma í ljós að það er ekki einungis fjárhagslega hliðin sem þarf að taka afstöðu til þegar um þessi mál er rætt heldur einnig innra starf í háskólanum og yfirstjórn háskólans og hvernig staðið er að vísinda- og rannsóknastarfsemi og kennslustarfsemi á vegum skólans þótt fjármunirnir skipti að sjálfsögðu mjög miklu máli. Þessi nefnd hefur starfað að tillögu menntmrh. þannig að það er með öllu rangt að halda því fram að á vegum þessarar ríkisstjórnar hafi ekki verið unnið skipulega að málefnum háskólans og stöðu hans gætt sem menntastofnunar sem stenst samanburð á alþjóðlegum vettvangi.
    Einnig hefur frá því verið skýrt í hv. menntmn. að á vegum háskólans er unnið að því að þróa staðla sem unnt sé að nota við skipulag og kennslu í háskólanum og samkvæmt því þarf á næsta ári 75 millj. kr. í viðbótarfjárveitingu til þess að halda í horfinu. Þessi vandi er ekki stærri en svo sem hér hefur verið lýst að mati háskólans sjálfs. Ég tel að á vegum þessarar ríkisstjórnar hafi verið stuðlað að því að háskólinn stæðist þær kröfur og hér á landi verði ekki annars flokks háskóli.