Málefni Háskóla Íslands

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 14:12:22 (686)

[14:12]
     Sigríður A. Þórðardóttir :
    Virðulegi forseti. Það er enginn vafi í mínum huga að menntamál eiga að sitja í fyrirrúmi í íslensku þjóðfélagi. Ég er sammála rektor háskólans í því að menntakerfi okkar er á eftir í ýmsum greinum miðað við það sem gerist með öðrum þjóðum. Nægir þar að nefna sem dæmi að skólatími er hér styttri en í nágrannalöndum, bæði daglegur og árlegur, og hvað starfsmenntun varðar erum við langt að baki öðrum þjóðum.
    Nú hafa verið lögð fram á þinginu ný frumvörp til laga um grunn- og framhaldsskóla þar sem höfuðáhersla er lögð á gæði skólastarfs, auknar kröfur um skilvirkni og árangur skólastarfs og tengsl milli skólastiga. Það er ljóst að þær breytingar sem þar eru lagðar til kosta fjármuni og þess er þá að vænta að

stjórnarandstaðan greiði fyrir afgreiðslu þeirra og sýni þar vilja í verki. Háskóla Íslands hefur verið gert að spara og hagræða og þar hafa menn náð góðum árangri. Það er mjög athyglisvert og sýnir að aðhaldsaðgerðir geta orðið til góðs.
    Ég legg ekki mat á þá tölu sem rektor háskólans nefndi um að það vantaði 6 milljarða í íslenskt menntakerfi. Þar miðaði hann við aðrar þjóðir en slíkur samanburður er ætíð erfiður þegar um fjármál er að ræða vegna þess að aðstæður eru mjög ólíkar.
    Ég endurtek það sem ég hef áður sagt: Það er beint samband á milli árangurs í efnahagsmálum og menntunarmálum þjóða og það má því fullyrða að menntamál eru efnahagsmál.