Málefni Háskóla Íslands

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 14:14:17 (687)

[14:14]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Það er býsna ömurlegt hlutskipti sem hæstv. menntmrh. hefur fengið. Hann er búinn að vera bráðum fjögur ár í menntmrn. og hver er svo slóðin hans? Þetta er ráðherrann sem afnam jafnrétti til náms með meðferð sinni á Lánasjóði ísl. námsmanna. Jafnrétti til náms er grundvallaratriði í mínum huga. Háskóli Íslands hefur verið skertur, það hafa reyndar fleiri skólar verið skertir, hann hefur verið skertur um þriðjung.
    Ég fór á baráttufund í háskólanum í síðustu viku til þess að hlusta á hæstv. menntmrh. hæla háskólarektor fyrir hvað hann væri duglegur að spara og háskólarektor hældi menntmrh. fyrir hvað hann væri ósköp vænn út í háskólann. Formaður stúdentaráðs vildi ekki ganga í skjallbandalagið.
    Fjármagn liggur ekki á lausu, segir hæstv. menntmrh. Hann stendur að því að afleggja hátekjuskattinn, hann stendur gegn því að taka upp skatt á fjármagnið og svo er hann bara nokkuð ánægður og segir þetta allt vera í nokkuð góðu lagi. Loðvík XIV. sagði líka: Það lafir meðan ég lifi. Sennilega gerir hæstv menntmrh. ekki ráð fyrir því að vera menntmrh. nema til vorsins, enda held ég að háskólinn þoli það nú illa eða menntakerfið í landinu.
    Mér fannst hv. þm. Tómas Ingi Olrich ekki sýna mikinn stórhug og ég hafði nú vænst þess að hann sýndi meiri stórhug í viðhorfi sínu til menntamála þegar hann fór að tala um það að við ættum ekki að gera neinar stórar kröfur, við værum bara lítil þjóð, 250 þús. Vonandi hefur hann ekki þetta viðhorf til Háskólans á Akureyri og telur að hann þurfi ekki að vera sérstaklega öflugur eða vel að honum búið þar sem þar sé bara 15 þúsund manna byggðarlag.