Fjáraukalög 1994

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 14:57:41 (692)

[14:57]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vegna þess að óskað hefur verið eftir lengri umræðu í þessu máli má búast við því að hún taki nokkurn tíma og þess vegna til bóta að svara nokkrum atriðum eins fljótt og kostur er. Það eru einkum tvö atriði sem ég vil gera að umtalsefni. Annað snertir það sem kemur fram í fjáraukalagafrv. og eru fjáraukalagaóskir vegna kjarasamninga á yfirstandandi ári, en það notaði hv. þm. sem tilefni til þess að segja að frv. til fjárlaga á næsta ári væri óraunhæft. Af því tilefni vil ég eingöngu segja að í fjárlagafrv. næsta árs er að sjálfsögðu gert ráð fyrir að kjarasamningar geti breyst í takt við efnahagsbatann og enn fremur er gert ráð fyrir því að samsvarandi hækkanir geti orðið á bótum almannatryggingakerfisins. Þetta vil ég að komi hér fram. Að öðru leyti gerum við ráð fyrir eins og eðlilegt er í batnandi tíð, að kjarasamningar verði á milli aðila vinnumarkaðarins og ég held að það sé ekki óraunsætt.
    Hitt atriðið snertir húsnæðiskaup utanrrn. Aðeins til þess að það fari ekkert á milli mála og er ég ekki að segja að hv. þm. hafi reynt að brengla þá mynd nema síður væri, þá var húsnæðið eign tveggja sjóða sem eru í eigu ríkissjóðs. Það má auðvitað ætíð spyrja sig að því hvort verðið sé nákvæmlega rétt, en til þess að það fari alls ekki á milli mála þá var húsnæðið í eigu annars vegar Byggðasjóðs og hins vegar Framkvæmdasjóðs og það eru auðvitað þessir opinberu sjóðir sem fengu greitt í húsakaupunum.