Fjáraukalög 1994

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 15:34:31 (698)

[15:34]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil biðja hæstv. forseta að gera hæstv. forsrh. viðvart. Hann átti von á því að ég endurtæki hér fyrirspurn mína til hans frá því að þessi umræða fór fyrr fram en þá var hæstv. forsrh. erlendis.
    Á meðan við bíðum eftir hæstv. forsrh. þá vil ég ítreka fyrirspurn mína til hæstv. fjmrh. um áform fjmrn. varðandi fjármögnun Húsnæðisstofnunar ríkisins. Húsnæðisstofnun ríkisins hefur ekki um margra mánaða skeið getað selt þau bréf á 5% vöxtum sem hún hefur verið að bjóða á almennum markaði. Niðurstaðan hefur orðið sú eins og fram kemur í þessu frv. að ríkissjóður hefur þurft að hlaupa undir bagga sem nemur 7 milljörðum kr. Nú er mikilvægt að fá yfirlýsingu hæstv. fjmrh. um það hvort hér með sé lokið þessari aðstoð ríkissjóðs við Húsnæðisstofnun þannig að markaðurinn, svo vitnað sé í hæstv. fjmrh., fái nú loksins að verðleggja þessi bréf Húsnæðisstofnunar ríkisins. En það er auðvitað mjög merkilegt að hæstv. fjmrh. hefur haldið uppi þeirri stefnu að koma í veg fyrir að markaðurinn fái að verðleggja bréf Húsnæðisstofnunar ríkisins.
    Fyrst hæstv. félmrh. er nú loksins kominn hér í salinn þá er rétt að spyrja hann einnig hvort tryggt sé að Húsnæðisstofnun ríkisins muni ekki óska eftir frekari aðstoð frá ríkissjóði til að fjármagna bréf sem ekki seljast á markaði á þeim kjörum sem Húsnæðisstofnun býður.
    Sú staðreynd að markaðurinn hefur ekki viljað kaupa bréf Húsnæðisstofnunar á 5% vöxtum er auðvitað yfirlýsing markaðarins um það að hann trúir ekki á vaxtamark ríkisstjórnarinnar um 5%.
    Ég vil líka spyrja hæstv. félmrh. að því fyrst hann er mættur hvort nú sé lokið kaupum Seðlabankans á húsbréfum. Það hefur komið fram að Seðlabankinn hefur á þessu ári keypt húsbréf fyrir 4 milljarða kr. Það hefur jafnframt komið fram að seðlabankastjórar telja óeðlilegt að Seðlabankinn annist svo mikil kaup húsbréfa. Þess vegna hafa þeir boðað að það kunni að vera í vændum að Seðlabankinn fari út á markaðinn með þessi húsbréf og reyni að selja þau. Þar með hljóta vextirnir á húsbréfunum að hækka enn frekar. Þess vegna er nauðsynlegt að hæstv. félmrh. og hæstv. fjmrh. lýsi hér yfir afstöðu sinni um áform ríkisins og Seðlabankans í fyrsta lagi gagnvart húsbréfunum og í öðru lagi þeim útboðum á lántökum sem Húsnæðisstofnun ríkisins hefur staðið fyrir. Ef á að vera hægt að meta horfurnar í vaxtamálum hér á næstunni þá er auðvitað mikilvægt að þessar tvær forsendur liggi fyrir. Ég vil þess vegna ítreka ósk mína um það að hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh. gefi hér yfirlýsingu um hvað ríkissjóður hyggst fyrir varðandi lántökur Húsnæðisstofnunar og hver eru áform ríkisins varðandi húsbréfakaup Seðlabankans.
    Nú er það svo, virðulegur forseti, að ég er kominn að því í ræðu minni að beina orðum mínum til hæstv. forsrh. Ég hef ítrekað í dag gert hæstv. forsrh. viðvart að ég þurfi að ræða við hann í nokkrar mínútur, þær verða ekki mjög margar. En ég tel enga ástæðu til að vera að rekja hér einhver efni sem ég

ætlaði mér ekki að flytja í ræðu minni þó að hæstv. forsrh. sé ekki mættur.
    ( Forseti (GunnS) : Forseti hefur gert ráðstafanir til þess að gera hæstv. forsrh. viðvart um beiðni hv. 8. þm. Reykn. Þeirri beiðni hefur verið komið á framfæri. Ef hv. 8. þm. Reykn. óskar eftir að bíða eftir að hæstv. forsrh. komi þá er það honum velkomið.)
    Það er rétt að ég taki boði forseta að bíða en það fer nú eftir því hvað langt er í komu forsrh. hvort ég bíð í ræðustólnum eða utan hans. En þetta er auðvitað ekki viðunandi, hæstv. forseti, að þingstörfin tefjist hvað eftir annað vegna fjarveru ráðherranna og vil ég nú aftur ítreka það að fjarvera hæstv. viðskrh. við þessa umræðu og væntanlega lánsfjárlagafrv. hér á eftir er fullkomlega óviðunandi.
    Ég vil nú þakka hæstv. forsrh. fyrir að koma til umræðunnar. Tilefni þess að ég bið hæstv. forsrh. að taka þátt í umræðunni er sú ákvörðun fjmrn. fyrir skömmu síðan að hefja útgáfu ECU-bréfa. En fjmrn. ákvað að setja á markaðinn spariskírteini tengd erlendri mynt og með alþjóðlegri vaxtaviðmiðun. Þessi ákvörðun fjmrn. fól það í sér að fjmrn. vék frá þeirri stefnu að bjóða aðeins spariskírteini ríkissjóðs á þeim vaxtakjörum sem fólu í sér yfirlýst vaxtamarkmið ríkisstjórnarinnar. Ég vil fyrst spyrja hæstv. forsrh. hvort hann hafi verið samþykkur því að horfið væri frá því að gefa út spariskírteini með hefðbundnum hætti og farið að gefa út þessi ECU-bréf í staðinn. Hvort leitað hafi verið eftir samþykki ríkisstjórnarinnar við þessari útgáfu eða hvort þessi ákvörðun fjmrh. var tekin af honum einum.
    Ég spyr vegna þess, virðulegi forsrh., að 5% vaxtamarkið á langtímaverðbréfum ríkissjóðs hefur verið eins konar hornsteinn í þeirri kjölfestu sem hæstv. forsrh. hefur boðað. Nú hefur það verið upplýst af bankastjóra Seðlabankans að síðan ECU-bréfin komu á markað hafa engin tilboð komið í venjuleg ríkisbréf, svo vitnað sé orðrétt í bankastjóra Seðlabankans. Ástæðan er einfaldlega sú að vextirnir á ECU-bréfunum eru 8,5%. Miðað við núll prósent verðbólgu eru 8,5% raunvextir á þessum bréfum. Nú geta menn auðvitað velt því fyrir sér að ólíklegt sé að verðbólga verði hér áfram núll prósent og menn geta líka velt því fyrir sér að óvissa ríki um það hvernig þróun erlendra gjaldmiðla kunni að verða á næstu missirum eða á gildistíma ECU-bréfanna. Það breytir því ekki að fjmrn. hefur með útgáfu þessara bréfa tekið sér það fyrir hendur að rugla markaðinn í stað þess að halda sér fast við 5% vaxtamarkið á venjulegum íslenskum spariskírteinum ríkissjóðs er einlit nauðsyn verðbréfakaupenda á spekúlasjón varðandi stöðugleikann í verðbólgunni og gengisþróuninni og knýja þannig fram hærri vaxtakjör miðað við núverandi ástand og líklegt ástand í næstu framtíð í íslenskum efnahagsmálum. Ég vil spyrja hæstv. forsrh.: Ef hann er samþykkur því að fara að rugla markaðinn með þessum hætti sem hér er gert með þessari útgáfu hver eru rökin fyrir því að gera það? Hver eru rökin fyrir því að hefja óvissutímabil með þessum hætti?
    Það er alveg ljóst á ummælum bankastjóra Seðlabankans að útgáfa ECU-bréfanna nýtur ekki mikils stuðnings í Seðlabankanum. Það er kannski hægt að orða það kurteislega á þann veg að Seðlabankinn hafi efasemdir um að útgáfa ECU-bréfanna hafi verið skynsamleg sem tæki til að halda vaxtastiginu við það mark sem ríkisstjórnin hefur sett sér. Seðlabankinn hefur lagt mikið á sig til að halda þessu vaxtaviðmiði gildu. Seðlabankinn hefur t.d. keypt 4 milljarða af húsbréfum. Seðlabankinn hefur keypt tvo þriðju af þeim ríkisvíxlum sem hafa verið hér á markaði og Seðlabankinn hefur keypt pappíra ríkissjóðs fyrir utan húsbréfin fyrir 9 milljarða það sem af er þessu ári. Þannig að Seðlabankinn hefur keypt u.þ.b. 13--14 milljarða á þessu ári til að viðhalda þessu vaxtamarkmiði. Það er þess vegna misskilningur, virðulegur forsrh. að markaðurinn hafi trúað á 5% markið. Markaðurinn hefur ekki viljað kaupa bréf Húsnæðisstofnunar ríkisins sem hún hefur boðið út hvað eftir annað á 5% vöxtum. Ríkissjóður hefur þess vegna greitt 7 milljarða til Húsnæðisstofnunar af því að markaðurinn vildi ekki kaupa bréfin á þessum kjörum. Seðlabankinn hefur keypt húsbréf. Seðlabankinn hefur keypt tvo þriðju ríkisvíxlanna þannig að það er auðvitað alveg ljóst að áhrifaríkasti aðilinn á markaðnum hefur verið Seðlabankinn í kaupum á þeim bréfum sem ríkissjóður hefur boðið. Það væri nú æskilegt að þetta samráð fjmrh. við forsrh. hefði farið fram áður en ECU-bréfin voru gefin út en ekki í salnum undir ræðu minni.
    Þá gerist það þegar allt þetta blasir við, efasemdir um 5% markið vegna vonleysis í útgáfu Húsnæðisstofnunar á verðbréfum vegna kaupa Seðlabankans á ríkisvíxlum, vegna kaupa Seðlabankans á húsbréfum og vegna kaupa Seðlabankans á öðrum pappírum ríkissjóðs, að fjmrn. sjálft gengur fram og býður ECU-bréfin með þeim hætti að í þeim felast 8,5% raunvextir miðað við núverandi ástand í íslenskum efnahagsmálum. Eigi að vera sambærileg kjör á ECU-bréfunum og þeim öðrum hefðbundnu spariskírteinum sem ég hélt að ríkisstjórnin ætlaði að halda sér við þá þarf að verða hér 3,5% verðbólga þannig að fjmrn. er í raun og veru að gefa til kynna út frá arðseminni að menn skuli búast við aukinni verðbólgu hér á landi eða gengisþróun sem sé óhagstæð. Ég tel í raun og veru, virðulegi forsrh., að útgáfa þessara ECU-bréfa sé ein alvarlegasta atlagan að 5% vaxtamarkmiði ríkisstjórnarinnar og það sé mjög merkilegt að fjmrn. með óljósum röksemdum um tilbreytingar á markaðnum sem voru satt að segja einu röksemdirnar sem fjmrh. færði hér fram fyrir útgáfu þessara bréfa þegar ég spurði hann um það í fjarveru hæstv. forsrh., tilbreyting á markaðnum. Jú, jú, hún getur átt rétt á sér. En hver er orsök þeirrar tilbreytingar? Orsökin virðist vera sú að fjmrn. virtist ekki geta selt bréf á 5% raunvöxtum og fór þess vegna að selja bréf sem við núverandi ástand miða við 8,5% raunvexti.
    Virðulegi forseti. Um þessi mál og fleiri má margt segja sem við höfum kannski tækifæri til þess að ræða hér undir frv. til lánsfjárlaga síðar í dag, um þróun vaxtastefnunnar almennt séð, en ég vildi við þessa umræðu vegna þess sem fram kom í síðustu viku beina þessum spurningum til þeirra þriggja ráðherra sem hér eru staddir og tel mjög brýnt að fá skýr svör við þeim vegna þess að skýr svör við þessum spurningum eru nauðsynlegur þáttur til þess að þeir sem á annað borð vilja gerast kaupendur á þessum markaði geti haft ákveðnar staðreyndir í huga um stefnu stjórnvalda þegar þeir taka sínar ákvarðanir á næstunni.
    Að lokum þetta. Hæstv. forsrh. gerir sér auðvitað grein fyrir því að Seðlabankinn hefur lýst því yfir í viðtölum við seðlabankastjóra á undanförnum dögum að nú geti Seðlabankinn ekki meira. Seðlabankinn sé búinn að hlaupa svo rækilega undir bagga með kaupum á húsbréfum, ríkisvíxlum og spariskírteinum að þanþol Seðlabankans sé á enda. Þá tekur markaðurinn við og það er inn í þá stöðu sem ríkissjóður býður ECU-bréfin og það er inn í þá stöðu sem hæstv. viðskrh. í síðustu viku lýsti því yfir að fjárstreymi yrði úr landi um áramótin og vextir mundu fara að hækka. Hefði Seðlabankinn getu til þess að halda áfram að hlaupa undir bagga þá væri þessi útgáfa ECU-bréfanna e.t.v. ekki eins truflandi eins og hún er en þegar þanþol Seðlabankans er brostið er alveg ljóst að markaðssetning ECU-bréfanna hlýtur að virka sem atlaga að þeim hornsteini efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar að halda sér við 5% raunvexti og þar með gefa til kynna að í reynd á markaðnum sjálfum trúir fjmrn. ekki heldur á 5% vaxtamarkmiðið. Það er auðvitað mjög merkilegt að fjmrh. sjálfur trúir ekki á 5% vaxtamarkmiðið.