Fjáraukalög 1994

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 15:50:45 (699)

[15:50]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Vegna þessarar umræðu sem hér á sér stað vil ég segja örfá orð. Ég vil fyrst taka fram að ég veit ekki annað en allir þeir sem um fjármál véla í landinu, bæði Seðlabanki, Þjóðhagsstofnun, forráðamenn verðbréfafyrirtækja og aðrir slíkir hafi ekki látið í ljós trú sína á öðru en því að það vaxtabil sem nú er á langtímabréfum sé raunhæft og raunsætt. Það eru engar efnahagslegar forsendur uppi um þessar mundir sem gefa til kynna að þau markmið sem menn settu sér kunni að vera að raskast. Menn hafa hins vegar vitnað til hækkunar á skammtímavöxtum og þau áhrif sem fjárfestingarmöguleikar á skammtímabréfum hafa á slík kjör og það má segja að það beri nýrra við að áhyggjan í þeim efnum sé sú að vextir á Íslandi séu lægri en annars staðar gerist, þess vegna kunni vaxtakjör á erlendum mörkuðum að ýta vaxtakjörum á skammtímamarkaði örlítið upp. Þetta er ný umræða. Umræðan hefur jafnan verið sú hér að vextir hafi verið miklu hærri hér á landi en annars staðar gerist. Það sýnir einmitt árangurinn í vaxtamálum hér að umræðan um þennan þátt vaxtamálanna skuli fara í þennan farveg og við getum öll verið þakklát fyrir það.
    Varðandi hitt sem rætt hefur verið um bæði hér í þessum sal og opinberlega á undanförnum dögum eða vikum um þátt Seðlabankans, þá er ég þeirrar skoðunar að Seðlabankinn hafi á undanförnum árum, tveim, þremur, fjórum árum tekið mun virkari þátt í því að hafa áhrif í takt við efnahagslegar forsendur á vaxtastigið og Seðlabankinn hafi í þeim efnum starfað mjög vel og í samræmi við þau markmið sem bankanum eru sett að þessu leyti til.
    Það hefur verið haft á orði að nokkuð hafi gengið á gjaldeyrisforða bankans á síðustu mánuðum og hagtölur sýna það. En þá er þess að geta að þar eru menn að tala um gjaldeyrisstöðu sem hefur verið með eindæmum góð og því fer fjarri að gjaldeyrisstaðan nálgist nokkur hættumörk eða nálgist þau meðaltöl sem menn bjuggu við hér á árum áður, því fer fjarri að það nálgist. Í annan stað er mjög mikilvægt að skoða þessa hluti, þessi atriði í réttu samhengi. Er gjaldeyrisstaðan að skekkjast vegna þess að viðskiptajöfnuðurinn sé óhagstæður? Er að ganga á gjaldeyrisforðann vegna þess að umframeyðsla þjóðarbúsins umfram tekjur sé gríðarleg? Ekkert af þessu er að gerast. Hins vegar hafa ýmsir aðilar í kerfinu og þjóðfélaginu notfært sér rýmri skilyrði til að byggja sér upp sinn eigin gjaldeyrisvarasjóð, bæði fjárfestingaraðilar og bankar og breyting á gjaldeyrisvarasjóði Seðlabankans sem stafar af atriðum eins og þessum er allt, allt annars eðlis en gjaldeyriseyðsla sem stafaði af því að þjóðin væri á einhverju eyðslufylleríi. Ekkert slíkt er að gerast. Þvert á móti eru fyrirtæki, bankar, stundum með framvirkum samningum, stundum með hreinum fjárfestingum að notfæra sér þá möguleika sem opnast hafa og mynda sinn eigin gjaldeyrisvarasjóð erlendis sem kemur út af fyrir sig þjóðinni allri til góða.
    Það var haft á orði hér að hæstv. fyrrv. fjmrh. hafi verið þeirrar skoðunar eins og ýmsir aðrir að ef það gerðist að íslenskir fjárfestar næðu að fjárfesta erlendis með sæmilega öruggum hætti við kjör sem væru hagfelldari en lánakjör íslenska ríkisins, þá væri sá ballans, það jafnvægi ekki óhagfellt íslenska þjóðarbúinu, það væri nettóhagnaður af slíku. Og í einhverjum mæli hefur slíkt verið að gerast að fjárfestar hafa verið að leita sem betur fer varfærnislega á erlenda markaði og mynda sér sína eigin varasjóði, dreifa ábyrgð eins og kallað er á sínum fjárfestingum í þágu sinna umbjóðenda erlendis. Þetta hefur haft viss áhrif á gjaldeyrisvarasjóðinn sem er þó í mjög góðu horfi.
    Varðandi 5% markið að öðru leyti og það sem hefur verið nefnt sérstaklega um húsnæðisbréfin og viðhorf markaðarins hvað þau snertir þá hefur markaðurinn þar verið ærið þröngur. Þeir aðilar sem kannski helst hafa að fornu og nýju borið skyldu gagnvart húsnæðisbréfunum hafa bitið það í sig að þessi bréf skyldu vera 1--2% hærri en skuldabréf ríkisins. Ríkisvaldið hefur ekki haft nein efni til þess, en þessir aðilar, lífeyrissjóðir til að mynda sem ættu nú að hafa ríkar skyldur hvað fjármögnun Húsnæðisstofnunar snertir, hafa bitið þetta í sig. Og þess vegna hefur ríkisvaldið kosið að fjármagna þetta með öðrum hætti, enda

engin nauðsyn sérstaklega í mínum huga að húsnæðisbréf séu gefin út ef þetta viðhorf er uppi.
    Ég get út af fyrir sig tekið undir með hv. þm. að það voru svona ákveðnar efasemdir í mínum huga um útgáfu á bréfum með ECU-kjörunum. En ég féllst fyrir mitt leyti á þær röksemdir sem fram voru settar í því sambandi.
    Þegar menn skoða þessar tölur er áríðandi að hafa í huga þegar tölurnar eru bornar saman að það eru nokkur grundvallaratriði sem eru frábrugðin í vaxtakjörunum. Annars vegar er um að ræða bréf þar sem menn hafa allt sitt á þurru, bréf ríkissjóðsins, ríkisskuldabréfin, verðtryggð bréf með föstum ákveðnum vöxtum til langs tíma sem þeir ganga að. Hins vegar bréf þar sem gætir margvíslegrar óvissu. Óvissu sem varðar verðbólgu og óvissu sem varðar gengi. Ef við tökum þessi fimm ára bréf, ECU-bréfin, með þá ávöxtun sem ríkissjóður féllst á við útboðinu á þeim og tökum spá Þjóðhagsstofnunar og fjmrn. til næsta árs þá má segja að miðað við 5% markið sé 0,5% munur eða svo sem mætir allri áhættu og óvissu, óvissu um það að verðbólgan kynni að verða eitthvað meiri en spáð er og óvissu um gengisþróun. Þegar sérfræðingar báru saman, og það var birt í helstu fjölmiðlum, þróun ávöxtunarkjara 1--2 ár aftur í tímann, á íslenskum bréfum verðtryggðum með tilteknum kjörum og ECU-bréfum, kom í ljós að áhættuþátturinn var töluvert mikill. Það er mjög áríðandi að þessir þættir séu hafðir í huga. En ég geri ekkert lítið úr því sem hv. þm. sagði að það er viss hætta á því að slík útgáfa kunni að rugla eitthvað myndina. En menn hafa talið þýðingarmikið að láta það ekki aftra því að fjölbreytni á mörkuðunum sé aukin enda hafa verið töluverðar væntingar og töluverðar kröfur um að það verði gert. Ég get ekki séð að þetta útboð hafi í neinu miðað við þær forsendur, sem ég hef nú rakið, spillt vaxtastefnu ríkisstjórnarinnar eða þeirri vaxtastefnu sem hæstv. fjmrh. hefur fylgt. Ég fæ ekki séð að það hafi gerst.
    Meginefnið og meginatriðið er þetta, þeir þættir sem að Seðlabankanum snúa eru að mínu viti í góðu horfi. Seðlabankinn hefur tekið virkan þátt í þessum þáttum efnahagslífsins með mikilvægum árangri og það ber að meta. Starfsemi bankans hefur ekki verið stefnt í neina hættu. Þróun gjaldeyrisvarasjóðsins gefur ekki tilefni til neins ótta með hliðsjón af þeim atriðum sem ég nefndi sérstaklega. Á hinn bóginn verður auðvitað að gera þá kröfu til Seðlabankans og þeirra sem koma fram í umboði hans, í nafni hans, að þeir gæti varúðar í ummælum sínum. Þess hefur bankinn jafnan reynt að gæta. En það hefur aðeins borið á því upp á síðkastið að þeirrar varúðar hefur ekki verið gætt. Það er talað um það erlendis að til séu atriði sem menn nefna ,,economical mouth disease``, einhvers konar efnahagslegt munnangur í lauslegri þýðingu, sem getur haft mjög alvarlegar afleiðingar. Ég ætla ekki að nefna nein sérstök nöfn en ég þykist þó muna eftir því að sá hv. þm. sem áðan talaði nafngreindi einu sinni mann og taldi að talið í viðkomandi væri eitt mesta efnahagsvandamál þjóðarinnar. Ég ætla ekkert að rifja upp hvar það var en þetta flýgur svona í hugann. ( Gripið fram í: Dylgjur.) Ég veit nú ekki hvort hv. þm. fór með dylgjur á þeim tíma, ég skal ekkert tala um það en þetta var svo. (Gripið fram í.) Hvað sagði hv. þm.? (Forseti hringir.) Ef hv. þm. kýs frekar þá skal ég reyna að rifja þetta upp og taka þá leiðréttingum. Ég hygg að setningin hafi verið sú. ( Gripið fram í: Þetta er alveg rétt.) Þetta er alveg rétt, segir hv. þm., þetta stenst, þá geng ég ekki lengra með málið.
    En menn verða sem sagt að fara varlega, einkum þeir sem ábyrgðarstörfum gegna, því að óvarleg ummæli og ekki nægilega vel ígrunduð geta haft efnahagslega þýðingu. Þetta er ekki bundið við Ísland eitt, þetta er alþekkt um víða veröld. Reyndar stundum taka markaðir nú slíkum ummælum eða jafnvel athugunum manna allt of hátíðlega og bregðast við þannig að með ólíkindum er. Frægt var nú þegar Volcker, fyrrum seðlabankastjóri Bandaríkjanna, fékk hálsbólgu og þá lækkuðu bréf á mörkuðum. Þá eru menn auðvitað komnir út í öfgar. En það er verra þegar ógætileg ummæli fara út um hálsinn á viðkomandi, þá er líklegra að það hafi hættuleg áhrif.
    En ég tel að við séum ekki komnir í neinar ógöngur og þetta útboð gefi ekki til kynna að álykta að vaxtastefnunni sé stefnt í voða. En ég er ekki að gera lítið úr þeim sjónarmiðum hv. þm. sem hann nefndi að að öllum þessum hlutum verði að fara með gát.