Fjáraukalög 1994

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 16:30:23 (712)

[16:30]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég hafði ekki ætlað að taka hér til máls í dag fyrr en kæmi að umræðunum um lánsfjárlögin. Hins vegar hefur þessi umræða nú um fjáraukalögin mjög hneigst í þá átt að menn ræða hér um vaxtamál og peningastefnu á breiðum grunni og það voru reyndar orð hæstv. forsrh. áðan í makalausri ræðu sem hann flutti sem gerðu það að verkum að ég kem hér upp. Ég hlýt að spyrja, virðulegur forseti, hvort hæstv. forsrh. hefur ætlað sér að hlaupa í burtu eftir að hafa varpað fram þeim fullyrðingum og þeim --- ja, nú verð ég að klípa fyrir og hafa ekki þau orð um málflutning hans sem voru komin á varir mínar hér áðan. En ég mundi kannski nota tækifærið og beina hér spurningu til hæstv. fjmrh. --- hæstv. fjmrh. situr hér ekki heldur. Það er flótti í ríkisstjórninni þannig að, virðulegur forseti, ég kýs þá að doka hér við meðan ráðherrar efnahags- og fjármála . . .  
    ( Forseti (GunnS) : Nú mun forseti gera ráðstafanir til þess að hæstv. ráðherrum er hv. þm. hefur nefnt verði gerð boð um það að hv. þm. óski eftir að þeir verði viðstaddir umræðuna.)
    Virðulegur forseti. Þá eru hæstv. ráðherrar mættir. Ég sagði áðan að ástæðan til þess að ég kýs að ræða um stöðu á peningamarkaði og vaxtamál undir þessari umræðu um fjáraukalög væri sú að umræðan hefur mjög sveigst í þá átt í dag og ekki síst eftir að ég hlustaði á ræðu hæstv. forsrh. Hæstv. forsrh. ræddi um það í umræðu í þinginu í gærkvöldi að þar væri til umfjöllunar tillaga sem ekki ætti sér hliðstæðu í íslenskri þingsögu og byggði sinn málflutning á því. Ég hygg hins vegar, virðulegur forseti, að ummæli af munni forsrh. um stjórn Seðlabanka Íslands í þá veru sem hæstv. forsrh. viðhafði hér úr ræðustól á hinu háa Alþingi áðan eigi sér enga hliðstæðu og ég væri alveg tilbúinn til þess að fara í gegnum þingsöguna til að skoða það. ( Forsrh.: Hvaða ummæli voru það?) Og ég vil biðja hæstv. forsrh. af því að hann spurði hvaða ummæli það væru, þá held ég að það hafi ekki farið fram hjá neinum sem fylgdist með umræðunni og heyrði þær dylgjur sem hæstv. forsrh. hafði uppi. Ef hæstv. forsrh. telur að ég sé í einhverjum vafa við hvern hann átti, þá vil ég einfaldlega biðja hæstv. forsrh. að svara því og segja það úr þessum ræðustól við hvaða aðila úr peningakerfinu hæstv. forsrh. átti með dylgjum sínum hér áðan. Og hæstv. forsrh. má gjarnan svara því beint úr sæti sínu.
    Það fór ekkert á milli mála og það misskildi það enginn hér inni hvað hæstv. forsrh. var að fara og ég vil biðja ráðherrann að skoða ummæli sín þegar hann les þau aftur og fær þau hér á blaði frá ræðuritun þannig að hann átti sig eilítið á því hvaða ummæli hæstv. ráðherra hafði um æðstu menn peningastjórnunar hér á landi. Ég endurtek aftur, virðulegur forseti, að ég hygg og leyfi mér að fullyrða að það muni vera einsdæmi í þingsögunni að forsrh. hafi farið með slíkar dylgjur gagnvart seðlabankastjóra.
    Hæstv. utanrrh. hafði stór orð um þáv. seðlabankastjóra meðan sá maður var enn einungis formaður Alþfl. og ekki orðinn ráðherra. Þrátt fyrir allt og þann stráksskap sem hæstv. utanrrh. á til að sýna hér úr þessum ræðustól, þá datt honum aldrei í hug að fara með slík ummæli í garð stjórnar Seðlabankans eftir að hann var orðinn ráðherra. ( Forsrh.: Hvaða ummæli á þingmaðurinn við? Þingmaðurinn verður að nefna það sem hann á við.) Ég hygg að hæstv. forsrh. viti upp á hár við hvað ég á. ( Forsrh.: Ég óska eftir að þingmaðurinn nefni það.) Virðulegur forseti. Nú er svo komið að hæstv. forsrh. líður það illa hér undir umræðunni að hann grípur stöðugt fram í ( Forsrh.: Mér líður fjarskalega vel.) og ég benti hæstv. forsrh. á áðan að hann skuli lesa það sem kom út úr hans koki eins og voru hans orðrétt ummæli áðan. ( Forsrh.: Ég nefndi ekki kok.) Það væri svo óheppilegt að ummælin hefðu ekki kafnað í hálsbólgu heldur hefðu komið út úr koki viðkomandi seðlabankastjóra þannig að ég held að hæstv. forsrh. ætti að lesa þessi ummæli sín og átta sig á því hvað hann sagði.
    Hæstv. ráðherra talaði um lausmælgi þeirra sem færu með yfirstjórn peningamála. E.t.v. hefur hæstv. ráðherra ekkert átt við seðlabankastjórnina eins og mátti skilja á hans ummælum. E.t.v. hefur hæstv. ráðherra átt við ummæli hæstv. fjmrh. sem hér í síðustu viku meðan hæstv. forsrh. var erlendis hafði margoft uppi ummæli um það að vextir hlytu að hækka. En af því að hæstv. forsrh. hefur þessa tröllatrú á peningastefnu núv. ríkisstjórnar og virðist hins vegar hafa mismikla trú á seðlabankastjórum, þá ætla ég að leyfa mér að fara hér nokkrum orðum um ágætan fund sem efh.- og viðskn. átti með Eiríki Guðnasyni seðlabankastjóra. Ég fór ekki með þau ummæli hér í umræðunni um lánsfjáraukalögin um daginn, en ég sé mig knúinn til að gera það hér af því að hæstv. forsrh. kaus að færa umræðuna yfir á þetta stig og ég hygg að hæstv. ráðherra muni þrátt fyrir allt gera nokkuð með ummæli seðlabankastjóra, Eiríks Guðnasonar. Þar komu fram í fyrsta skipti kannski opinberlega og voru opinberaðar þær upplýsingar sem nú eru alþjóð kunnugar um á hvern hátt Seðlabankinn hefur þurft að grípa inn peningamál á sl. ári, m.a. það að Seðlabankinn væri búinn að kaupa 4 milljarða í húsbréfum sem þeir losnðu ekki við með nokkru einasta móti og hefta þannig verulega getu sína til þess að vinna á skammtímamarkmiði eins og seðlabönkum er fyrst og fremst ætlað. Hin almenna vaxtastefna var til umræðu á þessum fundi og þar sagði Eiríkur Guðnason m.a., með leyfi forseta, því að ég skrifaði það orðrétt niður:
    ,,Það hefði verið betra jafnvægi á markaðnum ef menn hefðu ekki haldið sig alfarið við 5,00% vexti á ríkisbréfum.`` Og seðlabankastjóri sagði til viðbótar að Seðlabankinn ætti mjög erfitt með að styðja við 5,00% markmiðið lengur.
    Hvað var seðlabankastjórinn að segja? Seðlabankastjórinn var að segja að það væru ekki lengur markaðsforsendur fyrir þessari stefnu, og ég vil nú biðja hæstv. forsrh. að hlusta þó í það minnsta á orð Eiríks Guðnasonar. ( Forsrh.: Ég þarf enga milligöngumenn til þess.) Hæstv. forsrh. sagðist ekki þurfa neinn milligöngumann til þess en þá hefur hæstv. forsrh. ekki verið heiðarlegur í málflutningi sínum hér áðan þegar hann fullyrti að það væri enginn bilbugur á 5,00% vaxtastefnu ríkisstjórnarinnar eða þá hæstv. forsrh. er að segja að hann geri ekkert með orð Eiríks Guðnasonar seðlabankastjóra.
    Virðulegur forseti. Í stefnuræðu forsrh. fyrir nokkrum vikum var dregin upp mikil glansmynd af stöðu efnahagsmála hér á landi. Það væri bati fram undan, ríkið yrði að fara að draga úr sínum fjárfestingum til þess að rýma fyrir fjárfestingum á hinum almenna markaði í atvinnulífinu og yfirleitt biði manna ekki annað en gull og grænir skógar. Það hefur slegið mjög á þessa glansmynd á síðustu vikum. Það hefur komið fram í fyrsta lagi að vaxtastefna ríkisstjórnarinnar er á brauðfótum. Í öðru lagi hefur hver aðilinn á fætur öðrum, forstjóri Þjóðhagsstofnunar, forsvarsmenn atvinnulífsins og nú síðast framkvæmdastjóri verktakasambandsins lýst því yfir að því miður væru engin teikn á lofti um aukna fjárfestingu í atvinnulífinu enda sýna tölur það að fjárfesting í atvinnulífinu hér á landi er komin niður í 15% af þjóðarframleiðslu sem alls staðar annars staðar væri túlkað sem hættumörk.
    Í þriðja lagi sem bein afleiðing af þessu að með stefnu sinni hefur ríkisstjórnin dregið svo kjark úr atvinnulífinu að fjárfesting er að komast niður í núll, þá er hagvöxtur hér á landi helmingi minni en í þeim löndum sem við erum að bera okkur saman við og það er ekkert sem bendir til þess að það sé að breytast, í það minnsta ekki ef núverandi stjórnarherrar fá að sitja áfram.
    Varðandi þá glansmynd sem hæstv. forsrh. dró hér upp áðan af vaxtastefnu ríkisstjórnarinnar, þá vil ég nefna 10 punkta sem benda til hins gagnstæða.

    1. Á samdráttartímum í atvinnulífinu þar sem fjárfestingin stefnir í núll þannig að þaðan eru engin þenslumerki þá hefur Seðlabankinn þurft að nota nánast tvöfalt sitt eigið fé til þess að kaupa ríkispappíra. Eigið fé er 14 milljarðar. Seðlabankinn hefur þurft að kaupa ríkispappíra fyrir 25 milljarða.
    2. Allt of hátt hlutfall af þeim kaupum er í formi langtímapappíra. Þar er um að ræða 4 milljarða í húsbréfunum sem ekki rótast og 8 milljarða í ríkisskuldabréfum.
    3. Eftir að Seðlabankinn hætti að kaupa húsbréf á miðju þessu ári hefur ávöxtunarkrafa á þeim hækkað upp í 5,7% og hún fer hækkandi.
    4. Þar vitna ég m.a. til orða Eiríks Guðnasonar seðlabankastjóra, allt bendir til þess að ríkisskuldabréfin muni fylgja í kjölfarið, þar með að 5,00% markið sé fallið.
    5. Með útgáfu ECU-bréfa er ríkissjóður að bjóða langtímabréf á miklu hærri vöxtum en 5% markið enda hefur það komið í ljós að ríkisskuldabréf hafa ekki rótast eftir að það útboð hófst.
    6. Ekkert liggur fyrir um það á hvern hátt húsnæðismálastjórn á að selja þau skuldabréf sem þeim er ætlað að gera á næsta ári. Þar er um að ræða útboð upp á 7--9 milljarða. Hins vegar liggur ljóst fyrir að á þessu ári hafa húsnæðisbréfin ekki rótast og hafa verið fjármögnuð að fullu í gegnum ríkissjóð.
    7. Seðlabankinn hefur alls ekki þá lausafjárstöðu sem hann þarf að hafa um næstu áramót þegar opnast að fullu fyrir hreyfingar á skammtímafjármagni við útlönd en á þeim tíma væri Seðlabankanum mjög nauðsynlegt að eiga laust fé til þess að geta glímt við þann þátt.
    8. Gengisstaða Seðlabankans er komin niður að hættumörkum. Þannig vill til þrátt fyrir orð hæstv. forsrh. áðan að nú stendur þannig á að Seðlabankinn á ekki gjaldeyrisforða nema sem svarar þriggja mánaða innflutningi. Það eru einmitt þau hættumörk sem hæstv. forsrh. nefndi hér áðan.
    9. Seðlabankinn hefur á árinu keypt 3 / 4 af öllum ríkisvíxlum sem hafa verið boðnir til sölu. Með öðrum orðum, lánsfjárþörf ríkissjóðs --- og það að ekki hefur verið hægt að selja húsnæðisbréfin --- hefur að 3 / 4 verið fjármögnuð með því að flytja fjármuni til yfir Sölvhólsgötuna, úr Seðlabanka í fjmrn.
  10. Ríkið situr ekki lengur eitt að útgáfu skuldabréfa á markaðinum. Sveitarfélög og fyrirtæki eru komin upp á það bragð og sækja sér þangað fjármagn núna með ávöxtun á bilinu 6--7%. Vissulega hefur þetta áhrif á það hvað ríkið getur boðið sína pappíra á.
    Virðulegur forseti. Þetta er öll glansmyndin. Lítum á þessa punkta og skoðum hver er undirrót þess að núv. ríkisstjórn hefur ekki tekist að koma á markaðskerfi með ávöxtun peninga. Undirrótin er sú að allt of mikið hefur verið í gangi af pappírum frá ríkinu. Síðan var athyglisvert að heyra hæstv. félmrh. lýsa því yfir áðan að hann væri að komast á þá skoðun að nú dygðu ekki markaðslausnir lengur til þess að fjármagna húsnæðiskerfið og hann væri að velta því fyrir sér og skoða það í fullri alvöru að fara út í, eins og hann sagði, gömlu leiðina og semja við lífeyrissjóðina um fjármögnun húsnæðiskerfisins. ( Gripið fram í: Á siðferðilegum grundvelli.) Já, það er reyndar rétt, hann sagði að þetta yrði að gerast á siðferðilegum grundvelli. Ég spyr hæstv. fjmrh.: Er það svo að ríkisstjórnin sé í alvöru að hugleiða að hverfa frá markaðslausnum hvað þetta snertir og sé í startholunum að fara að semja beint við lífeyrissjóðina um fjármögnun húsnæðiskerfisins að nokkru leyti, þ.e. öðru leyti en húsbréfin? Ég beini spurningunni einnig til hæstv. forsrh.
    Það er nefnilega svo að yfirlýsingar þessarar ríkisstjórnar ganga út og suður. Ég vil einnig inna hæstv. fjmrh. eftir því hvernig við almennir þingmenn áttum að skilja orð hæstv. utanrrh. og formanns Alþfl. í umræðunni í gær þegar hann lýsti því yfir að það væri til umræðu í ríkisstjórninni á hvern hátt yrði tekinn upp skattur á fjármagn og það yrði gert á þessu þingi. ( Gripið fram í: Sagði hann það?) Hæstv. utanrrh. sagði þetta í umræðum í gær. Ég skrifaði þetta niður eftir honum því mér þótti þetta nokkuð athyglisverð ummæli. Ég hlýt einnig að spyrja hæstv. fjmrh. að því hvaða vinna er í gangi á vegum ríkisstjórnarinnar varðandi þessi atriði. Ég er alveg sammála þessu sjónarmiði. Ég held að ekki sé eftir neinu að bíða að taka upp skatt á fjármagn í landinu og fjármagnseigendur geti alltaf borið það fyrir sig að það kynni að hafa óheppileg áhrif á fjármagnsmarkaðinn og sá tími komi seint að aðilar á þeim bæ hafi þau rök ekki haldbær.
    Virðulegur forseti. Heilmikil umræða hefur farið fram um peningamarkaðinn á síðasta hálfum mánuði. Þar hefur komið margt athyglisvert fram og kannski það athyglisverðast að ég hygg að nú sé nánast öllum ljóst að sú vaxtastefna sem núv. ríkisstjórn hefur framfylgt stendur á miklum brauðfótum.
    Ýmsir tekið þátt í þessari umræðu og í Morgunblaðinu um næstsíðustu helgi var afar athyglisverð umfjöllun í Reykjavíkurbréfi. Þar var m.a. vitnað í ítrekuð ummæli hæstv. fjmrh. bæði í sjónvarpi og blöðum um það að vextir á skammtímamarkaði hlytu að hækka. E.t.v. hefur það verið svo að það hefur verið hæstv. fjmrh. sem voru ætluð varnaðarorð hæstv. forsrh. hér áðan þó ég hyggi, ef við skoðum ræðuna, að þau skeyti hafi verið send í allt aðra átt. En í það minnsta hittu þau hæstv. fjmrh. fyrir og líklegast var hæstv. forsrh. ekki á landinu meðan hæstv. fjmrh. var yfirlýsingaglaðastur varðandi vaxtastefnuna og varðandi hækkaða vexti. En talsmenn atvinnulífsins tóku einnig þátt í umræðunni og í Reykjavíkurbréfinu er nokkuð vitnað í ágæta grein eftir Þórð Magnússon, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Eimskipafélags Íslands. Sú niðurstaða, sem hann kemst þar að, er athyglisverð. Hann segir, með leyfi forseta:
    ,,Ég tel ekki að vextir á ríkisvíxlum þurfi að hækka á næstunni. Þessir vextir eru nú 4,95% og eru bankarnir helstu kaupendur að víxlunum. Bankarnir fá auk þess greidda 0,1% þóknun og miðað við að víxlarnir séu til þriggja mánaða og séu ekki endurseldir svarar þetta til um 5,37% ávöxtunar á ári. Þetta jafngildir 4,5% raunávöxtun miðað við verðbólgu síðustu mánaða. Í Bandaríkjunum eru vextir á þriggja mánaða ríkisvíxlum hins vegar nú um 5% en verðbólgan þar er um 3%. Raunvextir í Bandaríkjunum á þriggja mánaða víxlum gætu verið rétt um 2% en eru nú 4,5% hér á landi. Sambærilegir vextir í Þýskalandi eru nú um 2%.``
    Framkvæmdastjóri fjármálasviðs Eimskipafélagsins, Þórður Magnússon, dregur af þessu þá skiljanlegu og rökrænu niðurstöðu að engin tilefni séu til þess að hækka vexti á skammtímamarkaði hér á landi.
    Höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins, sem leiðir þarna fram bæði rök fjmrh. og ýmissa bankamanna sem voru að reyna að hækka vextina með ummælum sínum og rök fulltrúa atvinnulífsins sem sáu ekki nein rök til hækkunar, dregur þá ályktun að í rökræðunum hafi fulltrúar atvinnulífsins haft sigur. Ekki steinn yfir steini í ummælum nokkurra forsvarsmanna verðbréfamarkaðarins og hæstv. fjmrh. um það að vextir á skammtímamarkaði hljóti að hækka.
    Ég hygg að umræðan öll eigi að vera og verði vonandi hæstv. fjmrh. nokkur lexía og ráðherrann hefur reyndar ekki verið uppi með neinar stórar yfirlýsingar síðustu daga um það að vextir kunni að hækka. Ég hygg að það sé að renna upp fyrir hæstv. fjmrh. eins og ég færði rök að áðan að 5,00% vaxtastefna ríkisstjórnarinnar standist ekki lengur. Það er svo komið í dag að það seljast nánast engir pappírar á því verði. Skýrari skilaboð eru ekki til ef hæstv. ríkisstjórn telur sig vera að vinna eftir markaðsleiðum. Það hlýtur að vera áhyggjuefni hvað Seðlabankinn er búinn að festa mikið af peningum í langtímapappírum því eins og ég nefndi áðan þá er það ekki hans hlutverk að gera það. Hann getur fyrst og fremst beitt sér með því að kaupa skammtímapappíra sem hann getur þá losað með til þess að gera skömmum fyrirvara. Það er full ástæða til þess að taka undir áhyggjur þeirra sem hafa áhyggjur af því hvað muni gerast þegar hér opnast að fullu fyrir skammtímafjármagn um næstu áramót og lausafjárstaða Seðlabankans er ekki sterkari en hún er í dag.
    Það er full ástæða til þess að taka einnig alvarlega varnaðarorð um það að gjaldeyrisforði Seðlabankans má ekki vera lægri. Ég tek mark á þeim rökum, bæði hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh., að nokkuð af þeim gjaldeyri sem hafi flust til útlanda hafi stofnað þar sjóði sem séu jafngildir því að eiga gjaldeyri í landinu. En eftir stendur að þetta hefur skert mjög getu Seðlabankans til þess að beita sínum gjaldeyrisvarasjóði núna um áramótin þegar kemur að fullri opnun á skammtímamarkaði. Þá grípur Seðlabankinn ekki til peningagjaldeyris sem fyrirtæki og aðrir eru búnir að festa erlendis þó svo að sá gjörningur geti verið góðra gjalda verður.
    Sömuleiðis er það áhyggjuefni að Seðlabankinn sé með 4 milljarða í húsbréfum sem samkvæmt viðtali við Eirík Guðnason í efh.- og viðskn. hreyfist ekki neitt. Þýðir ekki að bjóða þá pappíra erlendis einfaldlega vegna þess að seðlabankamenn segja að á fjármagnsmörkuðum erlendis þá annaðhvort skilji menn ekki eða vilji ekki eiga við pappíra sem séu að einhverju leyti í formi happdrættis, þ.e. útdráttarins, og sömuleiðis kom fram í máli seðlabankastjóra að það væri orðið erfitt að koma, þó það væri hægt að einhverju marki, ríkistryggðum skuldabréfum í sölu erlendis á þeim forsendum að á þeim bæjum skildu menn ekki verðtryggða pappíra. Því miður bendir ekkert til þess að Seðlabankinn geti með skömmum fyrirvara losað sig við þá langtímapappíra sem hann er með í höndunum núna.
    Virðulegi forseti. Ég vil að lokum ítreka þær spurningar sem ég bar hér fram til hæstv. fjmrh. annars vegar varðandi það hvort það fari nú fram vinna innan ríkisstjórnarinnar um það að fara að semja upp á nýtt við lífeyrissjóðina um fjármögnun húnæðiskerfisins, en hæstv. félmrh. meira en gaf það í skyn. Hann taldi það sína skoðun að það þyrfti að fara að skoða það. Og í öðru lagi hvaða vinna fer nú fram innan ríkisstjórnarinnar sem á að líta dagsins ljós á þessu þingi varðandi það að taka upp skatt á fjármagn, samanber ummæli hæstv. utanrrh. hér í umræðunum í gærkvöldi?