Fjáraukalög 1994

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 17:01:47 (713)

[17:01]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Fyrst um beina samninga við Húsnæðisstofnun ríkisins. Það hefur ekki verið nefnt innan ríkisstjórnarinnar hvort fara eigi þá leið og eins og sakir standa og a.m.k. meðan ekki eru færð fram betri rök þá sé ég ekki tilefni til þess. Ég sé satt að segja ekki mun á því hvort Húsnæðisstofnunin selur bréfin sjálf eða hvort ríkissjóður aflar fjár til stofnunarinnar eins og gert hefur verið. Við höfum lifað nokkurt breytingaskeið á verðbréfamarkaðinum og hljótum að finna hentugustu lausnir á þessu máli á næstunni.
    Varðandi síðari fyrirspurn um fjármagnstekjuskattinn þá hefur á vegum ríkisstjórnarinnar verið unnið mjög kröftuglega að undirbúningi þess máls. Það eru til mjög ítarlegar upplýsingar og stjórnarflokkarnir hafa ákveðið að ræða það mál sín á milli nú alveg á næstunni.