Fjáraukalög 1994

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 17:08:25 (717)

[17:08]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Umræðan heldur áfram út í sal, ég ætla nú að komast inn í hana. Ég tók þátt í umræðunni sl. miðvikudag og hafði þá afar stuttan tíma. Ég ætla aðeins að bæta við það sem ég þá sagði og beina orðum mínum til hæstv. fjmrh. ef hann fer að hlusta.
    Það voru ýmis atriði sem ég var að spyrja um í frv. og eitt af því sem ég spurði um en fékk ekki svör við var varðandi grunnskólana, hvernig bæri að skilja þessa 50 millj. kr. aukafjárveitingu sem hér er farið fram á. Það skýrðist á fundi menntmn. í morgun og ég vil koma því hér á framfæri að þessar 50 millj. eiga rætur að rekja til þess að menntmrn. var gert að spara 100 millj. kr. á grunnskólum landsins á þessu ári en það hefur ekki tekist. Það hefur ekki tekist að spara nema tæplega 50 millj. og þarna er nú komið enn eitt atriði sem sýnir þessa yndislegu efnahagsstjórn sem við höfum hér. Það er verið að gera ráðuneytum að vinna hið ómögulega. Þau eiga að spara á sviðum þar sem er ekki nokkur lífsins leið að spara og þetta er skýrt í þessu frv. með fjölgun nemenda. Það er nú einu sinni þannig í skólakerfinu að nemendur verða að fá lögbundna þjónustu og það þýðir ekkert að segja ráðuneytum að spara þegar það er einfaldlega ekki hægt. Þetta tengist þeim sparnaðaráformum sem heilbr.- og trmrn. var falið að ná fram og lýsir sér í því að það er beðið um 800 millj. kr., sparnaður sem var ómögulegt að ná fram. Og þannig er þessi efnahagsstjórn og þessi sparnaðaráform sem hér hafa verið lögð fram ár eftir ár. Þau eru óraunhæf.

Ég ætla ekki að fara hér enn einu sinni út í þá ræðu sem ég flyt hvað eftir annað um heilbrigðismál og þær röngu áherslur sem eru í þeim. Ég vil gefa þeim betra tækifæri og reyna að koma þeim hugmyndum í tillöguform.
    En aðalerindi mitt hingað upp í ræðustólinn var að spyrja hæstv fjmrh. frekar út í þau mál sem ég reifaði á miðvikudaginn, þ.e. sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum og þær 20 millj. sem hér er gert ráð fyrir að ríkið reiði fram til þess að greiða starfsmönnum. Mig langar einfaldlega til þess að biðja hæstv. fjmrh. að upplýsa okkur um það hvað gerst hefur í málinu síðan þá. Ég las í Morgunblaðinu að það væri meiningin að borga fólki þetta eftir síðustu helgi, þ.e. í gær eða jafnvel í dag og mig langar að biðja hann að skýra fyrir okkur hvernig málið stendur.
    Nú er talið að þessar kröfur starfsfólksins séu upp á allt að 40 millj. þegar allt er talið og enn er óljóst hvernig þetta mál fer og hvernig þessum upphæðum verður eða hvort þeim verður skipt milli sjúkrahússins í Vestmannaeyjum og ríkisins, þ.e. hvort bæjarsjóður taki á sig einhvern hluta af þessu eður ei. Bæjarstjórnin í Vestmannaeyjum telur að þetta sé alfarið mál ríkisins en mér skilst að fjmrn. sé ekki sátt við þá afgreiðslu.
    Ég ætla ekki að endurtaka það sem ég sagði hér fyrr um það hvernig fjmrn. hefur staðið að þessum málum. Ég tel það lítt til fyrirmyndar og vona að það séu ekki mörg dæmi um slíkt. En þetta var sem sagt mín meginspurning til ráðherrans.